Jörundur Gestsson

jorundur-gestsson

Hér eru nokkrar línur til heiðurs þúsund-þjala-smiðnum og langafa mínum, Jörundi Gestssyni bónda á Hellu við Selströnd í Steingrímsfirði (13. maí 1900 – 29. september 1989).  Hann fékkst við margt með bústörfunum, t.d. skáldskap, bátasmíði, útskurð og hreppstjórn.

Ég var ekki gamall þegar langafi lést. Mín helsta tenging við hann er ljóðabókin sem hann gaf út, Fjaðrafok. Þar má finna góðan kveðskap og fallega skrautskrift, en bókin er sérstök að því leiti að ljóðin eru öll handskrifuð af höfundinum.

Það má fræðast um Jörund í gömlum dagblöðum á timarit.is. Hér er t.d. mjög skemmtilegt viðtal.

Á góðum bátavef má svo sjá þessa góðu umfjöllun um Jörund og sögu bátanna hans.

Hér eru svo mínar uppáhaldsstökur eftir Jörund:

Vappar kappinn vífi frá,
veldur knappur friður.
Happatappinn honum á,
hangir slappur niður.

 

Lélegt væri lífsins spil
og lítt af fögrum vonum,
ætti lífið ekki til
ástir manna á konum

 

Sinna tekna seggur geldur
– sá er hátturinn.
Leikur um hugann eins og eldur
undandrátturinn.

 

Bölvaðu þeim, sem böl þér fá,
bind þá kenning fasta.
Grýttu steinum aðra á,
sem að þér völum kasta.

 

Ef að kuldans kenni til
kann ég ráðið sanna.
Verma sig við ástar yl
endurminninganna.

 

Uggir mig, að seint mun sá
sigurinn vinna skæra,
sem lætur fjölda líða hjá
lífsins tækifæra.

 

Þeir, sem annars særa sál,
syndar gjalda eigin.
Þeim er eilíft bölvað bál
búið hinum megin.

 

Ástin þín er öruggt skjól
öllum vonum mínum.
Það eru alltaf eilíf jól
inni í faðmi þínum.

 

Það hefur verið villa mín
að vera slíkur gikkur
að þykja brugg og brennivín
betra en annar drykkur.

 

Svona týnast heimsins höpp,
horfin er kisa frá mér.
Nú verður ei framar loðin löpp
lögð um hálsinn á mér.

 

Ó, hvað mundi létta lund
og lyfta huga mínum,
ef ég mætti eina stund
una í faðmi þínum.

 

Þar fór ein í skít á skjá!
Skömm er til að vita,
hversu stundum flónin fá
föngulega bita.

 

Þó að bjáti eitthvað á
ei skal gráta af trega.
Lifðu kátur líka þá,
en lifðu mátulega.

 

Þinni á ef lífsins leið
lýðsins þráir hylli
lærðu þá að skynda skeið
skers og báru á milli.

 

Et ég brauð og blaðakrans
og blessaða kartöfluna
og svo drekk ég andskotans
undanrenninguna.

 

  4 comments for “Jörundur Gestsson

 1. Jónsi
  17. nóvember 2009 at 20:13

  Gulli.
  Þakka síðuna um kaddlinn á Hellu. Honum virðist hafa tekist það sme fáir geta- að vera í framboði fyrir sinn hvorn flokkinn á sama tíma. Af með fylgjandi grein (frá þinni leitarvél komin) sést greinilega að hann var í framboði – 7. sæti bæði hjá íhaldi og frömmurum í alþ.kosningunum 1959. Vel af sér vikið hjá kalli.

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=134316&pageId=1992031&lang=is&q=J%F6rundur%20Gestsson

  Síðan er fínn en litli textinn í „skildu eftir athugasemdir er svo lítill ða ég átti erfitt.

  Kv.
  jónsi

 2. Jónsi
  17. nóvember 2009 at 20:24

  Enn og aftur Gulli.
  Er rætnin í krötunum er söm við – eða hvað? Er er þetta bara skemmtileg grein sem sýnir hversu ómálaefnaleg og rætin umræðan getur verið í pólitikinni hvort sem ártalið er 1920, 2000 eða 2009

  Sjá bls. 3 í Alþýðublaðinu – 103. tbl 1920 – 8, maí

  http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=193&pageId=1139&lang=is&q=J%F6rundur%20Gestsson

 3. 17. nóvember 2009 at 23:02

  Jónsi, ég þakka ábendinguna um stærð letursins í athugasemdum. Ég mun lagfæra það fljótlega.

  Ég var einmitt búinn að sjá báðar þessar síður. Þetta er snilldar-afrek hjá kalli, en ég giska frekar á mistök blaðamanns.
  Og já, mér þykir ekki mikið til þessarar greinar í Alþýðublaðinu koma. Eigum við ekki að trúa því að þetta sé liðin tíð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *