Deiglugreinar

Á haustmánuðum ársins 2002 skrifaði ég nokkra pistla fyrir það góða vefrit Deigluna, deiglan.com.

Hér má sjá þá pistla:

Áhrif einkavæðingarinnar – birtist aldrei
Stafrænt sjónvarp
Óvönduð vinnubrögð fjölmiðla
„Ríkis-Taxinn“

Áhrif einkavæðingarinnar – birtist aldrei

Einkavæðing hefur verið á stefnu stjórnvalda síðustu árin og hefur mikið gengið á. Umræðan hefur því verið mikil og hefur án efa skilað miklu. Allir sem hafa fylgst með fjölmiðlum síðustu árin vita því upp á hár hvað fellst í einkavæðingu, eða hvað…

Einkavæðing er á stefnuskrá ríkisstjórnar okkar. Einkavæðingin virtist lengi vel ætla verða eitt af þeim málum sem komust aldrei lengra en á stefnuskrá. En svo loks nú á þessu síðasta ári núverandi kjörtímabils gerðust undur og stórmerki, einkavæðingin varð loks að veruleika fyrir alvöru. Ein virtasta og óumdeildasta eign landsmanna, Landsbankinn, var einkavæddur þ.e.a.s. seldur í hendur nokkra manna út í bæ. Mitt stolta íslenska hjarta tók að sjálfsögðu kipp þegar ein af stoðunum í íslensku þjóðlífi hvarf úr eigu okkar og upp fyrir mér rann hvað einkavæðingin þýddi í raun.

Hvert er raunverulega verið að stefna með einkavæðingu?

Einkavæðing stefnir að hagræðingu, aukið einstaklingsfrelsi, afnemun einokunar og aukinni samkeppni. Stefnt er að minni afskiptum rikisins af fyrirtækjarekstri og öllu sem við kemur almennum markaði. Ríkið á ekki heima þar sem lögmál um markað og eftirspurn ríkir.

Einkavæðing snýst um endurskoðun á hlutverki ríkisins á hverjum tíma. Það sem einu sinni hefur þótt eðlilegt að ríkið sjái um getur talist óeðlileg ríkisafskipti nú. Þessi endurskoðun getur orðið mjög umfangsmikil í landi eins og okkar sem er ungt lýðveldi og nýríkt. Ríkið tók að sér ýmis verkefni í upphafi þar sem einkaaðilar höfðu ekki bolmagn eða möguleika til að leggja í þau verkefni. Nú þegar þjóðin er orðin rík er tímabært að einkaðilar taki við þessum verkefnum.

En eins og umræðan hefur verið að undanförnu er eins og ríkið sé í megrunarátaki eins og stór hluti þjóðarinnar og keppist við að minnka umsvifin. Einkavæðingin virðist vera eitt alsherjar átak þar sem allt er selt sem hægt er að selja. Þetta á að sjálfsögðu að vera spurning um lífstíl þar sem jafnvæginu er viðhaldið og aðferðum leift að þróast. Það hefði sýnt ákveðinn þroska að staldra við eftir söluna á öðrum bankanum og bíða og sjá hvernig málin þróast áður en hinn er seldur. Það er ekki aftur snúið ef eitthvað mis siðferðilegt kemur upp.

Einkavæðingin getur snúist upp í andhverfu sína ef illa tekst til. Í svona litlu samfélagi sem okkar geta hlutirnir verið fljótir að gerast. Þegar allt er orðið í einkaeigu er enn meiri hætta á að bilið á milli fátækra og ríkra aukist enn meir. Þeir ríku eru ekki lengur hámenntaða fólkið eða mestu vinnuhestarnir, heldur þeir sem eiga fyrirtækin og lifa að mestu af arði fyrirtækja sinna.

Þannig samfélag einkennist af „survival of the fittest“ sem er mjög svo andstætt okkar samfélagi þar sem samheldni þjóðarinnar heldur henni saman og sést best á ögurstundum. Í okkar litla samfélagi getur það orðið svo að aðeins örfáir munu lifa af. Einkavæðingin (afnumun einokunar) leiðir nefnilega að meiri samkeppni og hún verður hörð á okkar litla markaði. Í mjög harðri samkeppni verður eitthvað að láta undan og fyrirtæki fara á hausinn eða sameinast. Þetta getur gert mjög hratt um leið og stórir aðilar myndast á markaði. Það leiðir til fákeppni eins og dæmi eru um.

Við höfum því gegnið hring en nú komin í heldur verri stöðu. Völdin sem áður voru hjá ríkinu, sem við gátum treyst og haft áhrif á, eru nú hjá einkaaðilum sem þjóðin getur lítið haft áhrif á. Einkaaðilar verða vissulega að fara að lögum en þegar ríkið hefur farið út í einkavæðingu og opnað fjármálamarkaðinn án þess að vera búið að setja góð samkeppnislög fyrirfram þá er lítið sem stoppar fyrirtækin.

Við þessar kringumstæður býr hinn almenni launþegi við mikinn óstöðuleika. Launþeginn er í stöðugri samkeppni við náungann og getur ekki verið öruggur með sína vinnu þar sem ekki er lengur mikið siðferðis mál að segja upp starfsmönnum svo lengi sem hagræðing hlýst af fyrir eigendur fyrirtækisins. Launþegi sem vann hjá ríkinu getur ekki lengur verið öruggur um næstu launagreiðslu og sá sem átti pening inn í ríkisbankanum þarf að hafa áhyggjur af því hvort eigendur bankans séu ábyrgðarfullir eða hvort bankinn verði allt í einu gjaldþrota vegna ævintýramanna við stjórn bankans.

Ég styð vissulega hina almennu hugmyndafræði um einkavæðingu en áður nefnd mál valda mér áhyggjum. Það getur verið álag á einstaklinginn að skipta svo snöggt í þjóðfélag sem byggir á öðrum lögmálum. Svona snögg breyting getur líka breytt samkeppni í fákeppni.

Stafrænt sjónvarp

Nú er stafrænt sjónvarp loksins að verða að veruleika hér á landi. Það lítur útfyrir að strax verði samkeppni á þeim markaði milli Digital TV1 og Breiðbands Landsímans.
Einnig var athyglisverð umræða á Alþingi í gær er von á því fyrr en síðar að RÚV fari að senda í gegnum gervitungl

Mikil þróun hefur þó orðið í Evrópu í stafrænu sjónvarpi (DVB) og er búist við að 72 milljónir manna hafi aðgang að stafrænu sjónvarpi nú undir lok þessa árs.

Bretland hefur staðið sig einna best í uppsetningu á stafrænu sjónvarpi. Það hefur þó komið bakslag í dreifingu í gegnum loftnet (DVB-T) og er mikil harmsaga á bak við ITV Digital. En BSkyB sem rekur Sky Digital standur fremst á sviði stafræns og gagnvirks sjónvarps. Þeir hófu stafrænar útsendingar í gegnum gervihnött (DVB-S) árið 1998 og voru með þeim fyrstu að hefja stafrænar útsendingar. Þeirra áætlanir hafa staðist að fullu og eru nú 5,7 milljónir heimila, sem er 25% breskra heimila, með Sky Digital. Sky Digital stefnir að 7 milljónum í lok árs 2003.

Í Bretlandi er nú stefnt að því að loka fyrir hliðrænar útsendingar fyrir árið 2010. Það þýðir að þá verða Bretar að vera búnir að kaupa sér stafrænt sjónvarp eða fá stafrænan endabúnað sem breytir stafræna merkinu í hliðrænt áður en það fer upp í sjónvarpið. Staðreyndin er reyndar sú að stafrænar sjónvarpsveitur notast allar við endabúnað þannig að fólk þarf ekki að óttast að þurfa að kaupa nýtt sjónvarpstæki í bráð. Margar þjóðir hafa sett sér markmið sem þetta og hafa þau gengið misvel. Bandaríkjamenn ætluðu upphaflega að loka á hliðrænar útsendingar á næsta ári, en þeir eiga mjög langt í land og ljóst að það næst ekki.

Ég held að það sé kominn tími á að íslenska ríkið setji upp markmið um hvenær eigi að loka á hliðrænar sendingar hér á landi. Það ætti að vera auðveldara hér á landi heldur en annarsstaðar þar sem ekki eru margar sjónvarps- og útvarpsrásir hér á landi.

Á meðan hin Norðurlöndin, Frakkland, Spánn, Ítalía, Pólland o.fl. hafa aðgang að stafrænu sjónvarpi höfum við á Íslandi ekki enn fengið að njóta stafræns sjónvarps og allra þeirra möguleika sem það býður upp á. Það verður að teljast athyglisvert miðað við að Ísland er með tæknivæddari og nýjungagjarnari þjóðum. Meira að segja Bretar, sem ekki geta talist með nýjungagjarnari þjóðum, eru langt á undan okkur í þessu.

Nú eru allar líkur á að stafrænt sjónvarp sé að verða að veruleika hér á landi. Stöð 1 ehf. hefur fengið leyfi til reksturs á stafrænu sjónvarpi. Þjónustan þeirra hefur fengið nafnið Digital TV1. Þeir ætla sér að hefja útsendingar á næstunni. Þeir ætla að senda út þráðlaust (DVB-T) og á fólk að geta náð útsendingum á gamla loftnetinu. Þessi flutningsleið gerir það að verkum að gagnvirkni verður ekki til staðar nema með öðrum flutningsleiðum fyrir bakaleiðina. Þeir geta að vísu leyst það með t.d. símalínu líkt og Sky Digital. Reyndar hefur verið í þróun nýr staðall (DVB-RCT) sem byggir á nýrri tækni sem getur sent til baka í gegn um loftnetið, en ólíklegt að hann verði notaður. Digital TV1 er örugglega að keppast við að koma útsendingum í gang sem fyrst því þeir fá strax mjög mikla samkeppni frá Landsímanum.

Á þessu ári ætlar Landsíminn að ljúka við að gera Breiðband sitt gagnvirkt. Nú strax í nóvember ætlar Landsíminn að hefja útsendingu á stafrænu og gagnvirku sjónvarpi. Þar sem þessi útsending er í gegnum kapal (DVB-C) þá eru engin vandræði með bakaleiðina sem gerir Landsímanum kleift að nýta gagnvirkar þjónustur til fullnustu. Svo er það ákvörðun Landsímans hversu mikla þjónustu á að veita í gegnum Breiðbandið. Reyndar má setja spurningamerki við það hvort eðlilegt sé að Landsíminn reki bæði sjálft flutningsnetið og alla þjónustu á því. Það er mín von að Landsíminn nýti þessa nýju tækni til fullnustu. (Líkt og GMi þegar þeir ætluðu að koma upp stafrænu sjónvarpi í samstarfi við LínuNet árið 2000, allir vita hvernig það fór. Reyndar má taka það fram að hugmyndin um að geta vafrað um veraldarvefinn í gegnum sjónvarpið er nú talin óraunhæf)

Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan og gaman að fyljgast með því þegar Íslendingar hætta að horfa á sjónvarp og byrja að nota sjónvarp. Þeir geta stjórnað meira sinni dagskrá, keypt nýjar myndir í gegnum myndefnaveitur, sent vefpóst og svo að sjálfsögðu verslað í gegnum sjónvarpið (T-commerce).

Ég vil enda á því að fanga því að nú í sumar varð til fyrsta gervihnattarásin sem rekin er af Íslendingum. Það er Gospel Channel Europe rekin af Omegu. Það er löngu kominn tími á að RÚV geri slíkt hið sama og nú fer það kannski að verða að veruleika. Í gær var á Alþingi 1. umræða um .tillögu til þingsályktunar um sendingu útvarps og sjónvarps um gervitungl. Þetta mál er búið að vera oft á dagskrá en nú vegna mikilla tækniframfara síðustu ára hefur kostnaðurinn minnkað mjög og er nú óverulegur. Þetta hlaut góðar undirtektir á þinginu og tók menntamálaráðherra vel í málið. Náist þetta í gegn mun það hafa í för með sér að allir landsmenn muni geti náð öllum sendingum RÚV. Landsbyggðin getur hætt að ergja sig yfir lélegum myndgæðum og sjómenn geta náð útsendingum RÚV. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þess að stuttbylgjusendingar hafa verið lagðar af og langbylgjusendingar skertar. Gervitunglin Thor2/Intelsat707 koma helst til greina. Þau nást vel á okkar helstu miðum og á Norðulöndum og í Evrópu.

Óvönduð vinnubrögð fjölmiðla

Þessa dagana hefur ekki farið fram hjá nokkrum mönnum að Alþingiskosningar eru í nánd. Fjölmiðlar eru fullir af skúbbi um væntanlega frambjóðendur og hræringa innan flokka. Fjölmiðlarnir bíða spenntir eftir því að allt fari á fullt í kosningabaráttunni svo þeir geti snúið sér að einhverju öðru en DeCode, Baugi og Keikó. Fjölmiðlar hafa ekki geta beðið og reynt að þjófstarta kosningabaráttunni sem nú er að hefjast innan flokkanna. Til að koma skriði á málin hafa fjölmiðlar lekið hverskonar skúbbi sem fyrst í dagsljósið. Til að hrista sem mest upp í málunum og koma skriði á hlutina eru fjölmiðlar duglegir að birta kannanir. Sem dæmi um þetta er hin fræga könnun tengd Ingibjörgu Sólrúnu.

Það er ekki laust við að ég hafi áhyggjur af komandi mánuðum því það er nokkuð ljóst að komandi Alþingiskosningar verður enn ein langlokan í fjölmiðlunum. Fréttir hafa upp á síðkastið einangrast við einstök mál og er eins og nokkur mál séu orðin fastir liðir (t.d. áður nefnd mál). Þetta er náttúrulega allt afleiðing af þeirri æsifréttamennsku sem er orðin allsráðandi hér. Féttirnar einkennast að viðtölum við fólk sem segja sína skoðun á málum og svo daginn eftir, eða jafnvel seinna sama dag, kemur ný frétt með viðtali við annan mann sem segir sína skoðun á sama máli. Erfitt getur verið að fylgjast með því hvernig málin standa. Tökum sem dæmi fréttir í vikunni vegna opnunartíma HÍ. Allan daginn var fréttum að rigna inn um málið þar sem hinir ýmsu aðilar tjáðu sína hlið málsins. Afleiðing af þessu er að fólk er misjafnlega vel upplýst um málið, allt eftir því hvenær dagsins það las fréttir. Seinna um daginn kom svo fram hið rétta í málinu. Þarna hefði verið eðlilegra að blaðamenn hefðu unnið almennilega frétt um málið og ekki birt féttina fyrr en allar upplýsingar liggja fyrir og birta aðeins eina frétt um málið.

Það þarf að efla rannsóknarblaðamennsku hér á landi og á ríkið að sjá sér hag af því að styrkja slíka þróun. Ríkisreknir fjölmiðlar ættu að geta haft svigrúm til fagmannlegra vinnubragða. Ef ekki, eins og staðan er reyndar í dag, sé ég ekki ástæðu til að halda úti ríkisrekinni fréttastofu. Ástandið mundi batna til muna ef öllum þessum tíma sem eytt er í fréttir af viðskiptalífinu í sjónvarpi væru teknar fyrir í sérþætti. Þessar fréttir eru stuttar og án allra skýringa. Meirihluti almennings hefur ekki áhuga á svona fréttum, sérstaklega þar sem skýringar eru í lágmarki. Tíminn sem fer í þessa viðskiptafréttir mætti þá nota til að lengja aðrar fréttir þannig að þær séu betur útskýrðar. Ég hef t.d. ekki hugmynd um til hvers Norðlingaölduveita er. Ég hef ekki haft tíma til að afla mér upplýsinga um málið og fréttaskýringarnar sem ég hef séð hafa ekki kafað á byrjunarreit málsins.

Ég vil enda á því að lýsa yfir mikilli ánægju með það að Spaugstofan er að fara aftur í loftið. Spaugstofan getur ekki annað en lukkast vel þetta árið þar sem nóg er um að vera af skondnum málum og svo komandi Alþingiskosningar. Spaugstofan hefur haft ótrúleg áhrif á okkar þjóðfélag. Ég hefði t.d. ekki fengið áhuga á fréttum og pólitík eins snemma. Einnig er ég nokkuð viss um að ég aðhyltis Sjálfstæðisflokknum mjög ungur vegna þess hve vel Örn Árnason gerði grín að okkar ágæta forsætisráðherra. Hvar væri hann í dag ef Örn hefði aldrei hermt eftir honum, það væri gaman að vita. Ég bíð eftir því að einhver háskólaneminn geri lokaverkefni um áhrif Spaugstofunnar á okkar þjóðfélag.

„Ríkis-Taxinn“

Fyrir nokkrum dögum las ég frétt í Morgunblaðinu þess efnis að nokkur félög leigubílstjóra voru að fara fram á fækkun leyfa til leigubílaaksturs á höfuðborgarsvæðinu. Ástæðan var minnkandi verkefni. Núverandi þak á leyfisúthlutunum á höfðuborgarsvæðinu eru 570 leyfi, sem að sjálfsögðu eru öll fullnýtt. Nokkur sveitarfélög voru strax búin að lýsa yfir andstöðu við þessa tillögu. Funda átti um málið og var aðal áhyggjuefnið framkvæmd þessarar fækkunar. Því skv. lögum ekki má svipta menn leyfi vegna breytinga á takmörkunum.

Ég fékk undarlega tilfinningu þegar ég las þessa grein. Ekki vegna þess að mér þótti fækkun leyfa vera fáránleg hugmynd, eða jafnvel góð hugmynd. Nei, ég fékk þá tilfinningu að þetta ágæta blað sem ég var að lesa væri afmælisútgáfa með sýnishornum af eldri greinum. Verið að gefa manni innsýn í fjötra gamla tímans, skömmtunaraðgerðir stjórnvalda og almenn afskipti ríkisins af öllu mögulegu. Tilfinning mín reyndist röng, blaðið nýtt og fréttin ósköp venjuleg. Þá er aðeins ein skýring eftir. Hún er sú að það hlýtur að vera eitthvað meira að hjá leigubílstjórum en bara of mörg leyfi. Afhverju þurfa leigubílstjórar að ráðfæra sig við Vegagerðina og sveitarfélög til þess að setja mörk um fjölda leigubílstjóra? Því er ekki hér í gangi almenn samkeppni og farið eftir lögmálum um framboð og eftirspurn?

Ég veit mjög vel að hér í landi er ríkisstjórn við völd sem hefur einkavæðingu og minnkun umsvifa ríkisins á stefnuskrá. Þannig að ég gerði því næst ráð fyrir því að mál leigubílstjóra hefðu einfaldlega gleymst eða væru einhverstaðar í endurskoðun í kerfinu. Ég skoðaði lagasafnið á vef Alþingis. Þar fann ég Lög um leigubifreiðar. Mér til mikillar furðu tóku þau gildi 15. mars 2002. Eftir nánari skoðun á síðu Alþingis sé ég að málið hafði fengið nokkra umræðu á þingi og í samgöngunefnd. Í lögunum sem samþykkt voru kemur fram að Vegagerðin eigi m.a. að sjá leyfisveitingar til bílstjóra og leigubílastöðva, reyndar mega sveitarfélög annast sitt umdæmi ef þau kjósa það. Einnig kemur fram að Vegagerðin í samvinnu við sveitarfélög megi setja fram takmarkanir á fjölda leyfa.

Lög þessi eru hvorki nútímaleg né skv. stefnu stjórnvalda. Enda heyrðust óánægju raddir á þinginu og nokkrar fyrirspurnir voru gerðar. Því má ekki ríkja eðlileg samkeppni á þessum markaði eins og öðrum? Afhverju gerist það ekki að sjálfu sér að leigubílstjórum fækkar þegar verkefnum fækka? Því geta einkaaðilar ekki séð alfarið um rekstur leigubílastöðvar, að sjálfsögðu skv. öllum öryggisreglum, án þess að greiða fúlgur í leyfisgjöld til ríkisins? Hér er svo sannarlega maðkur í mysunni. Helstu rök sem liggja núverandi kerfi til stuðnings er að tryggja umrædda þjónustu á öllu landinu og að fólk geti treyst á þjónustu bílana.

Í Svíþjóð hefur um eitthvert skeið verið frjáls leigubílamarkaður. Ekki veit ég um almenna reynslu Svía af kerfinu en einn þingmaður nefndi að Svíar væru orðnir hræddir við að senda barnpíurnar heim í leigubíla og að svikarar kæmust upp með að rukka allt of mikið fyrir farið. Svíar þurfa því að passa sérstaklega upp á að fara einungis í bíla sem eru merktir einhverri leigubílastöð. Ég vil frekar vekja athygli á því að svona takmarkanir eru oft orsök fyrir ýmsum andfélagslegum hlutum. Sem dæmi þá var jafnvel talið að ástæða morðs á leigubílstjóra hér á landi fyrir nokkrum áratugum hafi verið að morðinginn hefði verið að reyna að fá leyfi en ekki fengið vegna takmarkana á leyfum.

Það hlýtur að vera hægt að opna þennan markað betur. Væri ekki t.d. hægt að taka af allar takmarkanir þannig að framboð og eftirspurn ráði ferðinni. Þá kæmist af stað almennileg samkeppni þar sem leigubílastöðvar mundu loks koma hreint fram og auglýsa sinn taxta og fara í verðsamkeppni til þess að fá sem flesta kúnna. Ef leigubílstjórar búa alltaf að öryggi um sína vinnu verðu aldrei nein samkeppni og getur því skapast sú hætta að neytendur borgi alltof háan taxta. Ef menn vilja hins vegar tryggja þjónustu um allt land og topp-öryggi því er þá ekki hægt að hafa tvöfalt kerfi? Leyfa frjálsa samkeppni en bjóða samt áfram upp á „Ríkis-Taxann“. Þá getur fólk ferðast í fullkomnu öryggi í honum og verið gulltryggt um góða þjónustu. Svo kemur bara í ljós hvað neytandinn velur.

  1 comment for “Deiglugreinar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *