Kæra dagbók – Framtíðin er björt – xA

Kæra dagbók, nú rétt rúmu ári eftir síðustu færslu er rétt að skrá niður hér heimildir. Ég tók endanlega afstöðu fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara í dag fyrir viku síðan. Ég skráði mig í nýjan stjórnmálaflokk sem ég hef fylgst með af áhuga frá stofnun hans. Flokkurinn er frjálslyndur og grænn miðjuflokkur sem vill jöfn tækifæri fyrir alla og umfram allt ný vinnubrögð í íslenska pólitík. Flokkurinn hefur ekki gefið út kosningaloforð heldur markmið og stefnu til bjartrar framtíðar. Ekki er í boði að lofa skyndilausnum sem hamla efnahagslegum stöðugleika til framtíðar. Flokkurinn bindur vonir um að hin vel skipaða samninganefnd Íslands í aðildarviðræðum við ESB muni skila okkur góðum samningi sem væri boðlegur íslenskri þjóð.

Í dag kaus ég Bjarta framtíð, xA.

Mér finnst ég hafa verið heppinn í þessum kosningum að geta haft val um stjórnmálaflokk sem fellur svo vel að eigin hug um stefnu og áherslur. Björt framtíð fellur betur að mínum skoðunum en Samfylking vegna þess að Björt framtíð er frjálslyndari, grænni og er umhugað um nýja stjórnmálamenningu. Guðmundur Steingrímsson er minn uppáhalds stjórnmálamaður um þessar mundir. Hans nálgun á pólitík er mér mjög að skapi. Mitt atkvæði var því ekki notað til þess að refsa Samfylkingu, svo það sé á hreinu. Björt framtíð er besti kosturinn fyrir frjálslynda jafnaðarmenn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *