Kæra dagbók – Lífið er gott

Kæra bloggsíða, afsaka vanræksluna. Það er víst liðið heilt ár síðan ég ritaði hér síðast. Þau eru dapurleg örlög þín að lognast svona út af. Bloggbólan mikla í upphafi aldarinnar var sæt og gleðileg. Nú er veröldin önnur. Samfélagsmiðlar hafa tekið völdin og ég ekki enn leyst úr því að tvinna þig saman við notkun mína á samfélagsmiðlunum. Það er agalegt að geyma rafrænu samskiptin öll í gagnagrunnum úti í heimi. Tímalína Facebook og backup frá henni hefur þó róað mig og aðgangur að sögulegum rafrænum samskiptum er nokkuð tryggur. Svo hefur tækninni fleygt mikið fram. Nú er ég tengdur 3G neti og rita til þín á lítilli fartölvu. Framboðið á skoðunum er orðið svo mikið að nú sendi ég „Like“ hingað og þangað og „Share:a“, enda er það svo þægilegt á litlu mobile 3G tækjunum.

Ekki er það bara hin mikla veröld tækninnar sem hefur leikið þig grátt. Lífið hefur breyst hratt og hugurinn er upptekinn við annað en að rita hugsanir á netið. Ég hef fundið ástina mína og spegla huga minn með henni. Ég þarf ekki að fá viðbrögð frá vinum á netinu. Ég þarf ekki að vekja athygli á sjálfum mér með því að þykjast skrifa eitthvað gáfulegt. Það var nú líka stór misskilningur að leitast eftir athygli frá fólki sem þótti mjög mikið varið í mín efnistök. En mikið var það þroskandi að rita hér hugrenningar og fá viðbrögð. Sama gerði mín þátttaka í stjórnmálastarfi. Þekking, þroski, reynsla og ögrandi verkefni. Allt það sem ég leitaði eftir. Ég fann þó ekki nýja nána vini né ástina mína í gegnum netið eða stjórnmálastarfið. Þegar ég var búinn að læra út á hvað stjórnmálastarf gekk ákvað ég að láta gott heita. Ég veit í það minnsta nokkurn veginn hvað starfsferill í stjórnmálum krefst, en ég sé ekki fram á að slíkt starf færi mér sérstaka gleði.

Kæra dagbók, nú snýst lífið um að njóta þess. Njóta samskipta og góðra stunda með elskunni minni. Hana Ingu fann ég auðvitað á meðan ég var að hugsa um að njóta lífsins og horfði eftir lífsglöðu fólki, í stað þess að hugsa um alvarlega hluti. Á ákveðinn hátt þýðir það skilnað við þig, mín kæra dagbók. Ég á mér nú trúnaðarvin í kjötheimum. Vonandi gef ég mér tíma fljótlega til að endurhugsa uppsetningu á þessum ágæta vef. Síðasta breyting snérist að því að gera myndefni og myndskeið að uppistöðu. En Facebook hefur séð um allt slíkt efni.

Síðasta ár hefur kennt mér margt. Ég er smátt og smátt að læra að njóta lífsins. Leyfa tímanum að líða, án þess að finnast hann vera að hlaupa frá mér. Ég er orðinn sundmaður, raðhússeigandi og kominn aftur í gleðina í Tryggingastofnun. Fyrst og fremst er ég trúlofaður henni Ingu minni og horfi björtum augum til framtíðar. (en ég glími nú enn við fréttafíknina og tjáningarþörfina á Facebook, en ég vona að þetta sé að komast á heilbrigt stig). Svo má auðvitað ekki gleyma fjölskyldunni. Mér finnst hún alltaf vera meiri og meiri snilld. Við vorum í afmæli hjá Erlu systur upp á Skaga í gær og nýja litla frænka er yndisleg og gaman að sjá Ara stóra bróður hennar stækka og stækka.

Takk fyrir mig, dagbók. Mögulega er þetta síðasti punkturinn á þessu bloggformi, en vonandi breytir framtíðin því.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *