Vantrauststillaga á þekkt vantraust

Hræddur Bjarni Benediktsson greip til vantrauststillögu á ríkisstjórn til þess að lægja öldur í flokknum sínum og sína að hann sé verðugur forystumaður. Það er nokkuð merkilegt að setja fram tillögu að ályktun um vantraust á ríkisstjórn þegar það er alþekkt að traust á ríkisstjórninni er mjög lítið.

Trausti rúinn Sjálfstæðisflokkurinn og hans trausti rúni þingflokkur leggur fram vantraust á ríkisstjórn og vill boða til kosninga. Er nú hægt að treysta slíkum málatilbúnaði? Það er búið að vera ljóst síðan Icesave var fellt í fyrra að lítið traust er á ríkisstjórninni. Er hægt að treysta mati hins vantrausta Bjarna á að, loks, nú sé rétti tíminn?

Það er ekki hægt að treysta mati Alþingis á því hvort kominn sé tími á kosningar og hvort ríkisstjórnin sé vanhæf. Við vorum að ljúka við að kjósa um Icesave. Þar var kosið um mjög óljósa valkosti. Helsta haldreipi kjósenda var að mikill meirihluti Alþingis hafði samþykkt lögin. Niðurstaðan var sú að 60% kjósenda vantreystir þingmönnum, sem höfðu nægan tíma og næg gögn til að taka rétta ákvörðun.

Bjarni er allt of seinn. Þjóðin samþykkti vantraust á ríkisstjórnina í fyrra og þjóðin samþykkti svo vantraust á Alþingi um síðustu helgi. Tillaga vantrausta-Bjarna um vantraust á vantrausta-ríkisstjórn hlýtur að líta ansi hlægilega út gagnvart kjósendum.

En kjósendur skilja mjög vel vantrauststillögu Bjarna. Ríkisstjórnin hefur ekki gengið í takti við þjóðina. Ríkisstjórnin hefur staðið í ströngu síðustu tvö ár og þurft að taka óvinsælar ákvarðanir. Og ýmsar ákvarðanir hefur hún ekki tekið. Ríkisstjórnin hefur ekki haft þjóðina með sér í Icesave málinu, skuldavandanum, skattamálum, framkvæmdum og frjálslyndi, svo eitthvað sé nefnt. Þá er óskiljanlegt að ríkisstjórnin hafi ekki tekið skatt af innborgun í séreignalífeyrisjóði, brasksjóði bankanna.

Kjósendur bíða eftir nýrri stjórnarskrá og nýjum stjórnmálaflokkum. Það þarf að hreinsa út af Alþingi, og það verður ekki gert með kosningum nú. Þetta vita allir og því er vantrauststillagan svo hlægileg.

Við getum ekki kosið frá okkur kreppuna. Þó við höfum ekki mikið traust á núverandi stjórnvöld, þá hafa þau nú samt ekki siglt öllu í strand, ennþá. Þó traustið sé lítið á ríkisstjórninni þá er traustið á aðra samsetningu ríkisstjórnar ekki mikið meira. Við þurfum ekki að kjósa frá traustlausa ríkisstjórn til að fá aðra slíka í staðinn.

Stjórnarandstaðan hefur ekki verið að drífa sig í vantrausttillögur því hún veit að hún hefur ekkert traust. Nýleg skoðanakönnun Fréttablaðsins sýnir þetta mjög skýrt. Einungis 56% treysti sér til að gefa upp stuðning við flokkakerfið. Bjarni vill fá kosningar nú með einungis 25% fylgi Sjálfstæðisflokksins. Bjarni trúir þeirri lýgi að flokkurinn sé í hæstu hæðum, 44%, og að honum sem formanni gangi svo vel með flokkinn.

Gott og vel Bjarni, við vantreystum ríkisstjórn (og Alþingi), en hverju getum við treyst betur? (Sjálfstæðisflokkknum?) 44% kjósenda eru líklegir til að mæta ekki eða skila auðu í kosningum. Þú yrðir ekki í umboðssterkri ríkisstjórn.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *