Nú rita allir undir á börn.is

Okkar góði og skemmtilegi borgarstjóri, Jón Gnarr, styður nú hugmyndir til hagræðingar um sameiningar og breytingar á leik- og grunnskólum borgarinnar. Nú er komin undirskriftarsíða gegn þessum tillögum.

Allir góðir Reykvíkingar sem þykir vænt um fjölskyldurnar í þorpum þessarar borgar rita undir á börn.is

Ekki ætla ég að leggja mat á hagræðingartillögur sem hafa ekki bein áhrif á líf fjölskyldna í borginni. Annað gildir um tillögur sem snúast um að breyta högum fjölskyldna á þann hátt að leik- eða grunnskólar færist um stað eða séu lagðir niður. Slíkar tillögur þurfa að vera einstaklega vel rökstuddar enda byggja fjölskyldur ákvarðanir um búsetu á þjónustu í hverfinu og þá skipta leik- og grunnskólar miklu máli. Nýjum hverfum fylgja nýir leik- og grunnskólar og treysta frumbyggjar hverfanna að slíkar stofnanir fylgi hverfinu til frambúðar. Tilvistarréttur slíkra stofnana hverfur ekki eins og hendi sé veifað. Sýni þróun fram á að nemendafjöldi fari hratt minnkandi þá má setja af stað áætlun til 10 ára sem stefnir að lokun skóla. Hefji barn nám í grunnskóla þá er það í fullum rétti á að ljúka námi í þeim skóla og foreldrar verða að treysta því að forsendur þeirra búsetu séu ekki þurrkaðar út fyrirvaralaust.

Ég verð að ræða hér sérstaklega tillögur um aldursskiptingu Fella- og Hólabrekkuskóla. Lagt er til að leggja niður grunnskóla yfir 800 barna eins og þau þekkja skólana sína. Börnin eiga að fara inn í aldursskiptar skólastofnanir með allt annarri skólamenningu. Áhrifin fyrir þau öll verða eins og að fara í nýjan skóla. Þar að auki lendir mikill hluti nemenda í því að þurfa að skipta um skólahúsnæði og lengja til muna leiðina í skólann. Farið er þverrt á hugmyndir þeirra sem skipulögðu hverfið í upphafi.

Það gengur ekki upp að rústa forsendum búsetu fleiri hundruð fjölskyldna fyrirvaralaust!

Þessi tillaga er gjörsamlega óskiljanleg. Ef litið er á skýrslu starfshóps borgarinnar þá kemur ekkert þar fram sem styður þessa tillögu. Ekkert fast í hendi um hagræðingu eða um að gæði skólastarfs muni aukast. Ritaðar eru örfáar línur á blað, að því er virðist, vegna þess að einhver hafi fengið hugdettu um að þetta gæti verið sniðugt vegna einhverra hugsjóna um nýbúa-gælu-verkefni.

Ég hélt að tillögurnar hefðu átt að snúast um hagræðingu, en ekki einhver gæluverkefni!

Sé það vandamál hversu einsleitur og sérstæður hópur búi í Fellahverfi þá er það ekki leiðrétt með því að senda börn þess hverfis í aðra skóla. Hvernig væri að ráðast á raunverulega „vandamálið“, fremur en að auka á þau, mögulega.

Rétt er að benda á ályktun foreldrafélags Hólabrekkuskóla, þar sem ég sat á skólabekk í 10 ár og líkaði vel við minn hverfisskóla.

… ekki bjóst ég við að þurfa að sjá á eftir atkvæði mínu til Samfylkingarinnar í Reykjavík 🙁

Til að varpa betur ljós á þessa tillögu er hér ALLUR sá texti sem tillagan byggir á. Já, við skulum raska lífi 800 barna vegna þessa mikla innihalds sem er í þessum texta:

Fellaskóli og Hólabrekkuskóli verði yngri barna og eldri barna skólar. Lagt er til að skoðað verði að Fellaskóli og Hólabrekkuskóli verði aldursskiptir, þannig að annar verði yngri barna skóli og hinn unglingaskóli. Undirbúningur breytinga fari fram skólaárið 2011-2012 og stefnumótandi tillaga komi til ákvörðunar fyrir upphaf skólaárs 2012-2013. Við undirbúning breytinga hafi fræðslustjóri og skólastjórnendur náið samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.

Tillaga 3: Fellaskóli og Hólabrekkuskóli verði yngri barna og eldri barna skólar Lagt er til að skoðað verði að Fellaskóli og Hólabrekkuskóli verði aldursskiptir, þannig að annar verði yngri barna skóli og hinn unglingaskóli. Undirbúningur breytinga fari fram skólaárið 2011-2012 og
stefnumótandi tillaga komi til ákvörðunar fyrir upphaf skólaárs 2012-2013. Við undirbúning breytinganna hafi fræðslustjóri og skólastjórnendur náið samráð við foreldra, nemendur og starfsfólk.
Rökstuðningur:

  • Fellaskóli og Hólabrekkuskóli hafa báðir farið í gegnum heildarmat Menntasviðs. Niðurstöður úr heildarmati styðja hugmyndir um að skólunum yrði skipt upp í yngri barna skóla og eldri barna skóla.
  • Eitt af markmiðum breytinganna er að jafna samfélagsleg viðhorf til skólanna, stuðla að aukinni félagslegri blöndun og fjölbreytileika nemendahópsins.
  • Mikilvægt er að styrkja stöðu unglinga í skólahverfunum og efla þá sem heild í skóla- og frístundastarfi.

Hafa þarf í huga:

  • Vinnan krefst mikils og góðs undirbúnings. Sterkir stjórnendur Fellaskóla og Hólabrekkuskóla eru líklegir til að geta stýrt þessari uppbyggingu.
  • Mikilvægt er að horfa til samfélagslegrar stöðu hverfanna og huga þarf vel að hverfinu í heild.
  • Vinna þarf að sameiginlegri stefnumótun þar sem styrkleikar úr hugmyndafræði beggja skóla nýtast í skólastarfi.

Nemendur í Fellaskóla eru nú 311 og 500 í Hólabrekkuskóla.
Miðað við nemendaspá yrðu 555 nemendur í yngri barna skólanum haustið 2012 og 256 í unglingaskólanum, miðað við að skipting eftir aldri væri við 8. bekk.

Sé einhver sem þykir þessi gagnrýni mín vera byggð á vanþekkingu þá skal ekki við mig sakast. Það gengur ekki upp að setja fram svo stórar tillögur án þess að gera opinber og mjög aðgengileg gögn sem rökstyðja slíkar tillögur mjög vandlega. Það er ekki hægt að demba svona stór máli út í umræðuna án þess að næra hana með raunverulegum upplýsingum.

Hér er skýrsla starfshópsins.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *