Kveðjugjöf: Góð rök fyrir skipan stjórnlaganefndar

Við þurfum lausn á þeim vanda sem stjórnlagaþingið er komið í. Við getum beitt raunsæi eða prinsippum (lífsreglum, hugsjónum).

Augljósasta leiðin er að endurtaka kosningarnar með því að gera breytingar á lögum um stjórnlagaþingið. Það voru jú bara kosningarnar sem voru dæmdar ógildar. Sú leið fylgir prinsippi um að virða beri niðurstöðu hæstaréttar og að löggjafarvald eða framkvæmdavald taki ekki fram fyrir dómsvaldið. Með annarri ákvörðun er í raun verið að setja minna vald eða meira vald til dómsvaldsins en því ber. Áhrif dómsins eru þá víðtækari, eða marklaus, sem dómsvaldið getur hvorugt sætt sig við. (svo má beita raunsæi á þessa leið og sýna fram á hversu vafasamar og tilgangslausar næstu kosningar yrðu. … væri einhver tilgangur að útvíkka kjörgengið út fyrir hóp fyrri frambjóðenda? … eru einhverjar líkur á því að stór breyting verði á niðurstöðu kosninganna? … og munu úrslit síðustu kosninga ekki hafa ósanngjörn áhrif á atkvæði í nýjum kosningum?)

Önnur leið er að beita raunsæi og leita leiða til þess að valda sem fæstum sem minnstu tjóni og sættir sem flest sjónarmið. Það má alls ekki horfa léttvægt framhjá þeim möguleika að Alþingi skipi 25 manna stjórnlaganefnd sem verði skipuð þeim fulltrúum sem náðu kjöri í kosningunum sem voru dæmdar ógildar. Lítum á sögu málsins. Minnihlutaríkisstjórn Samfylkingar og VG lagði af stað með stjórnlagaþingið. Niðurstaða þess átti að vera bindandi. Ríkisstjórninni mistekst að gera breytingar á stjórnarskránni, því ekki var komið böndum á íhaldið. Þá er ákveðið að gera stjórnlagaþingið ráðgefandi fyrir Alþingi, í stað þess að fresta því. Þrátt fyrir minnkað vægi þingsins þá var haldið til streitu að það skyldi fá umboð frá allri þjóðinni í almennum kosningum. Var sett upp ókjördæmaskipt kynjajafnað 25-vallínu-persónukjör með opnum fjölda frambjóðenda. Já, það var sett upp tilraun sem forskilyrði fyrir því að stjórnlagaþingið fengið sinn framgang og sitt óumdeilda umboð. Hefur komið í ljós að þetta voru stór mistök. Íhaldið í hæstarétti dæmdi kosninguna ógilda. Réttara hefði verið að meta hvort ekki hefði átt að skipa með öðrum hætti í stjórnlagaþing, sem var í raun sinni ráðgefandi stjórnlaganefnd. Nú höfum við fyrir framan okkur „löggilda“ og viðamikla skoðanakönnun á því hverja þjóðin vill fá til þess að setja saman ráðgjöf um breytingu á stjórnarskrá til Alþingis. Er það ekki nægt umboð til ráðgefandi stjórnlaganefndar? Það að tala um stjórnlagaþing hefur verið blekkingarleikur frá því að það varð ráðgefandi og því blekkingarleikur að halda því fram að þeir sem eigi að setja fram slíka ráðgjöf þurfi að fá kosningu úr löggildum kosningum.

Það sem helst vinnst með þessu er að þjóðin fær að vita að hvaða niðurstöðu sá góði hópur sem náði kjöri hefði komist að og við fáum notið starfskrafta þessa hæfa fólks, sem bíður þess eins að geta hafist starfa í febrúar. Fullkomlega tilbúin til verka. Alþingi hefur vissulega víðtækara umboð til að gera breytingu á niðurstöðunni. En við það verður einfaldlega að una. Má vera að síðar komi upp krafa um raunverulegt stjórnlagaþing og þá getum við gengið til þess verks reynslunni ríkari.

Niðurstaða:
1. Stjórnvöldum ber að viðurkenna í hvaða stöðu málið er komið í og að stjórnlagaþing verður ekki haldið hér með núverandi stjórnarskrá við lýði.
2. Þjóðin verður að ná fram breytingum með því að snúa upp á fulltrúa sína á Alþingi.
3. Nýta ber þá fjármuni sem búið er að eyða, og munu mögulega bætast við vegna skaðabótamála, í að skipa í stjórnlaganefnd hið fyrsta.

Að lokum finnst mér það sjálfsagt að :
1. Landskjörstjórn viðurkenni mistök sín og iðrist sinnar aðkomu að því að kosningar urðu dæmdar ógildar í landinu. Skuli hún bjóða Alþingi afsögn sína.
2. Innanríkisráðherra viðurkenni pólitíska ábyrgð sína á að framkvæmd kosninga í landinu urðu dæmdar ógildar. Hann skuli viðurkenna hnekki á trausti til hans til verka og segja af sér sem ráðherra.
3. Forsætisráðherra viðurkenni að hún bar alla pólitíska ábyrgð á loforði til þjóðarinnar um stjórnlagaþing. Hún skuli viðurkenna að hún brást þjóðinni með því að mistakast að koma í gegn stjórnarskrárbreytingum sem varð upphafið af þrautagöngu stjórnlagaþingsins. Hún skuli viðurkenna að á hennar vakt varð stjórnlagaþing þjóðarinnar að stjórnlaganefnd Alþingis. Hún skuli viðurkenna hnekki á trausti til hennar og segja af sér sem ráðherra.

Ég sem kjósandi og fylgismaður þessarar ríkisstjórnar hef látið draga mig á asnaeyrunum frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Fyrir mitt leiti var stjórnlagaþingið eina ástæða þess að ég studdi þessa ríkisstjórn sérstaklega. Fyrir mér skipti ekkert meira máli en endurskoðun stjórnarskrár eftir hrunið. Fyrir mér hvarf áhugi að taka þátt í stjórnmálastarfi sem lýtur að lögmálum þeirra hefða sem hafa skapast í kringum núverandi stjórnarskrá og vinnubrögðum. Mín ósk um stjórnlagaþing var svo heit að ég vildi ekki sjá hversu alvarlegir formgallar þess voru. Stjórnlagaþingi átti að slá á frest undir núverandi stjórnarskrá. Það er því ekki að undra að ég ber ekki lengur traust til sitjandi forsætisráðherra og vil því að hún segi af sér.

Nú er mál að linni. Ég hef enga ástæðu til að styðja þessa ríkisstjórn sérstaklega. Ég hef enga ástæðu til að taka þátt í starfi stjórnmálaflokka undir núverandi stjórnarskrá, hefðum og vinnubrögðum. Ég hef tekið ákvörðun í huga mér að segja mig úr Samfylkingunni og mun framkvæma fljótlega. Finni ég þörf til að taka þátt í þjóðmálaumræðu þá eru til aðrir vettvangar en stjórnmálaflokkar. Ég er þakklátur fyrir að hafa tekið þátt í störfum Ungra jafnaðarmanna á meðan það félag var í nokkrum blóma. Ég fékk af því góða reynslu í stjórnarsetum og hef eignast góða vini.

Uppfært: „Fréttavefur“ AMX vitnaði í þessa færslu : http://www.amx.is/fuglahvisl/16599/

  1 comment for “Kveðjugjöf: Góð rök fyrir skipan stjórnlaganefndar

  1. 11. janúar 2021 at 21:40

    Excellent article! We are linking to this particularly great post on our site. Keep up the good writing. Koral Corny Davidde

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *