Engan afslátt af hruninu til lánveitenda

visir.is birtir í dag smá pistil eftir mig. Heimilin geta ekki veitt lánveitendum afslátt af hruninu

Nú er gildir bara eitt, horfast í augu við vandann, takast á við hann með almennum og réttlátum efnahagsaðgerðum og treysta velferðarnetið þannig að heimili í greiðsluvanda fái úrræði. Það gengur ekki lengur að heimilin beri á herðum sér þann afslátt af hruninu sem lánveitendur þeirra fengu vegna galla í verðtryggingarkerfinu.


Vísir, 25. nóv. 2010 09:37

Heimilin geta ekki veitt lánveitendum afslátt af hruninu

Guðlaugur Kr. Jörundsson skrifar:

Stjórnvöld hafa nú í tvö ár barist við greiðsluvanda heimila vegna íbúðalána. Árangurinn hefur staðið á sér og eru stjórnvöld enn á byrjunarreit samráðs. Alvarlegast er þó að ekkert hefur verið barist við sjálfan skuldavandann. Stjórnvöld ætla sér að slá honum á frest, í stað þess að horfast í augu við hann nú. Þessi frestun hamlar því að afleiðingar hrunsins komi fram til fullnustu svo hægt sé að hefja uppbyggingu á hreinu borði.

Stjórnvöld hafa ekki einu sinni lyft litla fingri til þess að koma í veg fyrir að aftur gjósi upp annar skuldavandi. Enn er verðtryggingarkerfið jafn berskjaldað gagnvart næsta verðbólguskoti. Áhættan er enn öll á lántakandanum. Vandinn er vissulega viðurkenndur, því annars væri ekki hægt að réttlæta aðgerðir, en samt hefur ekkert fyrirbyggjandi verið gert. Hin mikla skjaldborg mun vafalaust ekki þola afleiðingar verðbólguskots þegar möguleg flotsetning, eða kafsetning, krónunnar mun fara fram. Áfram skal höfuðstóll lána hækka í fullum takti við verðbólgu.

Stjórnvöld eru að bregðast við vanda, en þau neita að viðurkenna hver vandinn er í raun. Þau ætla að gefa almenningi róandi á meðan vandanum er slegið á frest. Almenningur skal sitja í yfirveðsettum eignum sínum næstu áratugina og fá svo skuldaaflausn að lánstíma loknum. Stjórnvöld ætla að geyma það að horfast í augu við vandann þar til eftir 30-40 ár þegar lánstíma lána á yfirskuldsettum eignum lýkur.

Stjórnvöld ætla ungum barnafjölskyldum að dúsa í núverandi húsnæði það sem eftir er af lánstíma lánanna. Fjölskyldur eiga ekki að stækka eða minnka. Skilnaðir eru ekki mögulegir. Stjórnvöld eru með öðrum orðum að reka ungu barnafjölskyldurnar úr landi.

Stjórnvöld hafa gert tilraunir með félagslegar aðgerðir sem eiga að létta undir með greiðsluerfiðleikum. Árangurinn af þeim er mjög svo umdeilanlegur. Það sem hins vegar vantar er efnahagsleg aðgerð til þess að glæða lífi í fasteignamarkaðinn og til að frelsa heimilin úr skuldafangelsinu.

Það er öllum ljóst að hér varð mikil bóla eignamyndunar á síðustu árum. Hlutabréf hækkuðu og fasteignaverð hækkaði. Aukið aðgengi að fjármagni og innstreymi af erlendum gjaldeyri vegna Kárahnjúkavirkjunar blés upp bóluna. Engin innistæða var fyrir þessari bólu. Hvergi var verðmætaaukning sem studdi þessa bólu. Það var endalaust blásið lofti í bóluna þar til hún sprakk. Það kom auðvitað að því að krónan féll og svo að lokum bankarnir. Hér flæddu um peningar sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Engin framleiðsla var að baki þessum peningum. Peningarnir voru bara til á pappír. Það vita allir, að þegar prentaðir eru peningar þá fellur gjaldmiðillinn.

Þegar bólan sprakk hækkaði hér allt verðlag vegna hrun krónunnar. Við það var lofti blásið inn í höfuðstóla verðtryggðra lána. Eigendur lánasafnanna – íbúðalánasjóður, lífeyrissjóðir og bankarnir – fengu duglegan blástur inn í verðmæti lánasafnanna. Það er jafn mikið loft í þessum lánasöfnum og var í öllum hlutabréfunum og verðmæti húsnæðis. Lánasöfnin eru ágætis tölur í bókhaldi lánveitendanna en það er ekkert á bakvið þessar tölur.

Verðmæti lánasafnanna hrundi eins og allt annað í hruninu. Hlutafé hrundi, húsnæðisverð hrundi, krónan hrundi og laun lækkuðu. Lánasöfnin voru með veð í húsnæði og trygging þess að lánin yrðu greidd voru laun lántakenda. Þegar báðir þessir þættir hrynja þá hrynur auðvitað verðmæti lánasafnanna. En vegna galla í kerfinu – galla sem stjórnvöld neita að horfast í augu við – þá blés í skráð verðmæti lánasafnanna. Verðtryggða krónan blés upp og lánasöfnin með.

Gallinn í kerfinu er sá að ekki var gert ráð fyrir því að við ættum eftir að fá verðbólguskot á meðan laun og húsnæðisverð væri í falli. Að hækka höfuðstóla lána í takt við verðbólgu í krepputíð gengur engan veginn upp – því verðmæti lánanna er í raun að lækka. Þá gerði fólk auðvitað líka ráð fyrir því að stjórnvöld og Seðlabankinn mundi halda verðbólgunni innan vikmarka frá verðbólgumarkmiðinu. Sem sagt, kerfið sem átti að tryggja rétt verðgildi lána hækkaði pappírsverðmæti þeirra þegar raunverulegt verðmæti þeirra féll.

Hagsmunabarátta hefur ríkt hér frá hruni. Hrunið lenti hér á allri þjóðinni, því það var jú kerfishrun. En vegna galla í lánasamningum lenti allt hrunið á skuldurum en ekki fjármagnseigendum. Hér þarf að jafna leikinn. Það mátti vera öllum ljóst eftir hrunið að stöðva þurfti ósiðlega eignaupptöku lánveitenda í heimilum landsmanna. Það þurfti að jafna áhættuna af lántökunni á milli lántakenda og lánveitenda. Lánveitendur voru, og eru, með belti og axlabönd. Eina skynsamlega í stöðunni var að skapa sátt um að breyta lánasamningum þannig að gallinn í kerfinu væri fjarlægður. Skipta átti áhættunni á verðbólguskoti á milli lántakenda og lánveitenda. Það átti að setja hámark á hversu hratt höfuðstóll lána gæti hækkað. Setja t.d. þak á við 4-7% verðbólgu og reikna upp höfuðstólana miðað við það frá ársbyrjun 2008. Það er sanngirni og jafnar hruninu á herðar allra.

En nei, stjórnvöld hafa enn ekki horfst í augu við vandann. Það á bara að halda áfram vitleysunni og láta höfuðstólana rjúka upp til að mynda bólgu í bókhaldi lánveitenda. Það eina sem stjórnvöld hafa gert er að gera fólki kleift að greiða eins og það skuldi mun minna en það skuldar í raun, bara svo að loft-bókhald lánveitenda skerðist ekki. Þessar lánastofnanir neita að horfast í augu við raunveruleikann. Þær lentu í hruni og þurfa að skila því þýfi sem verðtryggingarkerfið stal af heimilum landsins.

Ég hélt að vinstri ríkisstjórn væri heimilanna en ekki enn ein ríkisstjórn fjármagnseigenda. Því miður hafa Samfylking og ASÍ verið í liði með fjármagnseigendum frá hruninu og barist með tilbúnum tölum um að ekki sé hægt að hreifa við höfuðstólum vegna þess að það væri svo dýrt. Það sér hver maður að þessar tölur eru bara tilbúningur á blaði og byggðar á gölluðu kerfi. Það sama má segja um útreikninga reikninefndarinnar. Þar var útreiknað magnið af loftinu í höfuðstólum, en ekki raunverulegt virðistjón við afskrift.

Nú er gildir bara eitt, horfast í augu við vandann, takast á við hann með almennum og réttlátum efnahagsaðgerðum og treysta velferðarnetið þannig að heimili í greiðsluvanda fái úrræði. Það gengur ekki lengur að heimilin beri á herðum sér þann afslátt af hruninu sem lánveitendur þeirra fengu vegna galla í verðtryggingarkerfinu.

  2 comments for “Engan afslátt af hruninu til lánveitenda

  1. 25. nóvember 2010 at 19:44

    Takk fyrir góðan pistil.

  2. Steini Adams
    2. janúar 2011 at 17:55

    Samála þér í þessu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *