Skuldavandinn er að sprengja ríkisstjórnina

Það varð hrun. Það var ljóst að grípa þyrfti til neyðaraðgerða vegna greiðsluvandans. Það sáu það einnig allir, nema ríkisstjórnin, að strax þyrfti að ráðast á skuldavandann að loknum neyðaraðgerðum. En neyðaraðgerðirnar drógust á langinn og ríkisstjórnin var farin að halda að þær væru nóg. Ríkisstjórnin er búin að vera í afneitun yfir stöðu heimilanna og í engum tengslum við raunveruleikann.

Nú er raunveruleikinn að springa í andlitið á ríkisstjórninni. Kröftug mótmæli eru að hefjast. Kröfur um utanþingsstjórn hafa aldrei verið meiri.

Mig langar hér að halda til haga nokkrum tenglum sem ramma vel inn skuldavandann:

—-

Í Fésbókina skrifaði ég á sunnudag:

Sunnudagur sannleiks og sorgar. Ég horfði á Silfur Egils, las um hugmyndir um utanþingsstjórn, horfði á Návígið við Lilju Mósesdóttur. Ég er nú að skilja hvaða staða er komin upp. Ég er ekki stoltur af því að tilheyra þjóðfélagi Íslands. Venjulegt fólk er að missa heimili sín. Samfylkingin hefur gert sitt besta til að …tryggja að allir geti greitt verðbólgna höfuðstóla sína upp í topp. Samfylkingin hlustar ekki á almennar aðgerðir því Framsóknarflokkurinn var tilbúinn með sína áætlun á undan. Samfylkingin vill ekki skattleggja inngreiðslur í séreignarlífeyrirssjóði því Sjálfstæðisflokkurinn kom fyrst fram með hugmyndina. Ef Samfylkingin hefði beitt sér fyrir dugandi aðgerðum fyrir millistéttina sína þá væru færri að missa heimilin sín. Núsitjandi Alþingi hefur sýnt fram á að það er vænhæft til þess að taka einfaldar ákvarðanir í þágu mannréttinda, réttlætis og fólksins í landinu.

—-

Í síðustu viku skrifaði ég texta sem merkur fulltrúi á landsþingi Ungra jafnaðarmanna fékk til nýtingar. Ekki veit ég hvort eitthvað var unnið með þann texta, en ég birti hann hér. Innihaldið ríma vel við áður nefnd skrif Ólafs á Deiglunni í dag.

Það kemur að því í lífi ungs fólks að það þarf að stofna heimili. Húsnæðiskerfið hverju sinni ræður nokkuð um það hvernig fyrsta heimilið er fjármagnað. Á Íslandi hafa verið gerðar tíðar breytingar á umhverfi fólks til kaupa á íbúðum og virkur leigumarkaður ekki verið til staðar. Unga fólkið sem þurfti að koma sér upp heimili á árunum fyrir hrun bauðst að taka allt upp í 100% lán fyrir íbúð. Á tímabili ýtti bankakerfið mjög svo að ungu fólki gengistryggðum lánum. Síðan kom hrunið og höfuðstólar á verð- og gengistryggðum lánum heimilanna stökkbreyttust. Ungu fjölskyldurnar sem voru almennt með mjög hátt hlutfall veðsetningar eru nú fastar í skuldafangelsi og hafa ekki möguleika á að skipta um húsnæði eftir því sem fjölskyldustærðin breytist. Þar að auki hefur greiðslubyrðin aukist mjög og margir lent í greiðsluvanda. Ungt fólk sem kom sér upp húsnæði, óvitandi að það var tilraunadýr í frjálshyggjutilraun stjórnvalda, þarf nú að fá réttan sinn hlut því ekki eru í gildi nægjanlega sterk neytendalög sem verja lántakendur. Öll áhættan hefur verið á lántakendum.

Skulda- og greiðsluvandinn hefur legið á heimilunum um allt of langt skeið. Það hafa verið sett í gang mörg úrræði, en deilt hefur verið um árangurinn af þeim. Það verður þó ekki framhjá því litið að Árni Páll Árnason kom mörgum úrræðum í gang sem félagsmálaráðherra. Margar fjölskyldur hafa fengið léttari greiðslubyrði sem hefur létt verulega á greiðsluvandanum. Árni Páll sýndi líka verulega gott fordæmi sem stjórnmálamaður þegar hann tók á fjármögnunarfyrirtækjunum og barðist með réttlætið að vopni fyrir lækkun höfuðstóla á gengistryggðum lánum. Þar sýndi ráðherrann vilja og þor. Nú hefur náðst betri lækkun á höfuðstólunum því gengistryggðu lánin voru dæmd ólögleg. Árna Páls bíður nú að leysa úr skuldavandanum þar sem hann er orðinn efnahags- og viðskiptaráðherra. Forveri hans hafði engan vilja til að takast á við skuldavandann en nú er lag fyrir Árna Pál að nota sömu réttlætisrökin og hann notaði gegn gengistryggðu lánunum og ráðast nú að stökkbreyttum verðtryggðum höfuðstólum lána heimila. Lausnin á skuldavandanum snýst um að horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna að verðtryggingin tryggði ekki raunverulegt verðmæti lánanna, heldur hækkaði höfuðstólana þegar verðmæti lánanna í raun lækkaði með lækkun húsnæðisverðs og lækkun á kjörum launafólks. Það þarf einungis vilja til að sjá að lofti var blásið í höfuðstóla lána, líkt og lofti var blásið í hlutabréfamarkaðinn með skelfilegum afleiðingum.

Mögulegar aðgerðir:
+ Tryggja þarf að breyting á gengistryggðum húsnæðislánum yfir í verðtryggð íslensk lán fari fram á réttlátan hátt. Það verður að taka tillit til meira en einungis lagabókstafsins. Hrunið var algjört einsdæmi og lagaumhverfið gerði ekki ráð fyrir slíkum hamförum. Alþingi getur brugðist við dómum hæstaréttar með því að setja ný lög, ef núgildandi lög tryggja ekki réttlætið. Ljóst er að enginn hefði gengið að lánasamningi sem hafði þann möguleika að vextirnir mundu hækka í 20%.

+ Stjórnmálamenn eru hvattir til þess að viðurkenna galla á núverandi verðtryggingarkerfi, sem virðist bara virka í verðbólgu vegna uppgangs. Þeir eru hvattir til þess að sjá fyrir sér hvernig kerfið væri án þessa galla. Hvernig höfuðstólar lána hefðu breyst í gegnum hrunið í ógölluðu kerfi og endurreikna höfuðstóla lána skv. kerfi sem dreifir betur áhættu.

+ Hallveig, ungir jafnaðarmenn í Reykjavík, ályktaði strax eftir hrun að þak ætti að setja á hækkun verðbóta líkt og Hagsmunasamtök heimilanna leggur nú til. Þar verður að finna réttmæta prósentutölu sem dreifir áhættu á milli lántakenda og lánveitenda. Lánveitendur mega ekki hafa hag af því að efnahagskerfið fari í ójafnvægi. Lagaumhverfi verður að hvetja til efnahagsstöðuleika.

+ Skoða hvort verðbætur á verðtryggðum lánum eigi ekki að safnast upp á láni sem verður sett við hlið verðtryggða lánsins, þannig að verðbætur séu ekki verðbættar aftur og aftur. Dreifir betur áhættunni á milli aðila og lántakinn sér að höfuðstóllinn á aðalláninu lækkar.

+ Skoða hvort ekki eigi að reikna út verðbætur miðað við meðaltals verðbólgu síðustu ára. Mundi jafna sveiflur og gefa tíma til að bregðast við ef kemur skellur. Ef þetta hefði verið við líði þá hefðu höfuðstólar ekki bólgnað strax út við hrunið og stjórnvöld hefðu haft meiri tíma.

(+ Athuga hvort húsnæðiskerfið ætti frekar að vera byggt upp með kaupleigusamningum, þannig að íbúðalánasjóður komi að fasteignakaupum sem meðfjárfestir í eigninni í stað þess að veita lán fyrir henni. Það sem vinnst með þessu er að verðmæti eignar fjármögnunaraðilans helst alltaf í hendur við raunverulegt verðmæti íbúðarinnar. Íbúðareigandinn mun þá gefa eftir að sitja einn af hækkun húsnæðisverðs. Íbúðareigandinn mundi greiða fjármögnunaraðilanum leigu sem mundi lækka eignarhluta fjármögnunaraðilans.)

(+ Það þarf að losa um fjármuni sem eru fastir inn á verðtryggðum bankareikningum með því að stytta binditímann úr 3 árum í t.d. 1 ár.)

Fyrir ung heimili skiptir höfuðmáli að ná fram efnahagsstöðugleika. Losna undan kjaraskerðingar verkfæri stjórnvalda, íslensku krónunni, og verðtryggingunni. Aðildarferli að ESB og að lokum innganga mun hjálpa okkur inn á rétta braut.

Það er kominn tími á almennar aðgerðir. Hinar miklu sértæku aðgerðir vegna greiðsluvandans hafa ekki tekið á skuldavandanum. Það þarf að komast líf í fasteignamarkaðinn svo ungu fjölskyldurnar losni úr skuldafangelsum. Það verður að koma á tilfinningu um réttlæti, að höfuðstóll skuldbindinga á heimilum sé réttlátur miðað við upphaflegar forsendur. Það verður að hlusta vel á tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna. Það verður að bæta löggjöf um neytendavernd. Það verður að jafna áhættuna í lánaviðskiptum.

  1 comment for “Skuldavandinn er að sprengja ríkisstjórnina

  1. Kúkur
    28. apríl 2012 at 17:59

    Vá hvað ég dáist að þér. þú ert hetjan mín verts hvað þú sökkar!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *