Það sem er rétt er ofar þínum rassi

Að ræða um pólitík og málefni dagsins er vinsæl iðja hjá þjóðinni. Þátttakendur í þessari dægradvöl eru fjölmargir og margir eru atvinnumenn í íþróttinni. Það er m.a. spilað á Alþingi, í ráðuneytum og í fjölmiðlum. Þar er búið að fastráða mestu hæfileikana. Áhugamenn nýta hvert tækifæri þegar þeir hittast til að skemmta sér og öðrum með taktískum leikfléttum í umræðu dagsins. Þeir hittast m.a. í fjölskylduboðum, í bloggheimum og í heita pottinum.

Hver sá sem byrjar að leggja við hlustir lærir fljótt taktinn í þessari íþrótt. Það er byrjað á því að velja sér málstað eða sérhagsmuni til að tala fyrir. Valið fer eftir því í hvaða klíku maður telur sig tilheyra. Síðan hefst skemmtunin með kappræðum á milli sérhagsmuna og klíkna. Þar skiptir öllu máli að rægja málstað andstæðingsins og sannfæra hann um ágæti eigin málstaðar. Því grunnhyggnari skot þeim mun meira hitta þau í mark. Allir fara svo sem sigurvegarar frá borðum enda var enginn sannfærður yfir á aðra skoðun.

Það er ekki ætlast til þess að menn í mismunandi klíkum sammælist í lok umræðna. Út á það gengur ekki íþróttin. Atvinnumennirnir hafa svo möguleika á að láta stefnu sína verða að veruleika og fá þökk sinnar klíku. Slíkar breytingar ala þó iðulega á sundrung, því málamiðlanir hafa verið litlar. Það er svo álitið vera tap og mikil skömm að skipta um skoðun eða fallast á að hafa myndað skoðun á ófullnægjandi upplýsingum. Að viðurkenna mistök er sjálfsmark með ásettu ráði.

Lýðræðisríki á ekki að þola það að gangur í íþróttakappleik stjórni gangi mála. Nær væri að gangur mála réðist af umræðu og rökræðum sem fjalla um réttlæti og skilning á sjónarmiði náungans. Nær væri að við hlustuðum á hvort annað og legðum okkur fram um að koma á sameiginlegum skilningi.

Hættum nú að skipta okkur í mismunandi íþróttalið. Hættum keppninni. Göngum öll í sama liðið og reynum að sína hvort öðru tillitssemi og reynum breyta rétt. Best væri ef Alþingismenn sýndu hér fordæmi og litu á umboð sitt sem þjónustusamning við alla þjóðina um að breyta rétt. Þá mundi virðing þings vaxa – hún mundi vaxa í réttu hlutfalli við minnkun eiginhagsmuna-þingmannarassana sem telja sína sannfæringu og sína röddu vera mikilvægari en það sem rétt er. Það er fáránlegt að við skulum búa við það að þingmenn telji betra að skila séráliti fremur en að ná sameiginlegri niðurstöðu. Sérálit gagnast engum og sína fram á raunverulegt tap, raunverulegan ósigur, í hugsjón, hugsun, gildismati, umræðu og vinnubrögðum.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *