Hættur við að kjósa Besta – xS

Síðustu vikurnar hef ég kvalist mjög yfir því að kjósa örugglega rétt í kosningunum á morgun. Fyrir viku var ég ansi hliðhollur Besta flokknum. Allt fram á þennan dag hefur mér þótt líklegast að niðurstaða mín yrði xÆ. En nú er mér ljóst að Besti flokkurinn mun ekki ná hreinum meirihluta. Það þýðir að fjórflokkurinn, í heild eða hluta, mun áfram verða við völd. Þá næst ekki fram sú breyting sem hefði, að mínu mati, verið tilraunarinnar virði – hefðu borgarbúar sameinast betur um hana. Ég hef enga ástæðu til að rengja nær samhljóma viðurkenndar skoðanakannanir dagsins.

Virðingarvottur til Jóns Gnarrs

Jón Gnarr er yndisleg manneskja og stórkostlegur listamaður. Ég hef fylgst vel með honum í mörg ár og hlustað á hann í útvarpi. Það skal enginn segja mér að maður sem hefur haldið uppi svo mikilli þjóðfélagsrýni í gegnum grín sé ekki með hausinn í lagi. Mér fannst frábært þegar hann setti fram sitt Besta flokks grín fyrir nokkrum mánuðum. Það hitti beint í mark. Það átti aldrei að vera neitt nema grín og mætti Jón Gnarr í örfá sjónvarpsviðtöl sem formaður Besta flokksins. Þá tók hann það fram í þætti hjá Audda og Sveppa að þetta yrði hans síðasta viðtal í tengslum við borgarstjórnarkosningarnar. Jón Gnarr var ekkert að fara í einhverja alvöru. Svo gerist það að Besti flokkurinn mælist allt í einu stærri en Framsóknarflokkurinn. Þá fara hjólin að snúast. Fólk fór að horfa á Besta flokkinn sem raunverulegan möguleika og Jón Gnarr fór í að setja saman lista og alvöru flokksstarf. Það er ljóst að stefnan var sett hátt. Það átti að ná hreinum meirihluta. Stjórnmáladraumar Jóns Gnarrs fóru af stað. Hann fór úr karakter formanns Besta flokksins og fór að koma fram sem Jón Gnarr. Þar gerði hann mistök, gagnvart því markmiði sínu að ná hreinum meirihluta. Hann sýndi á spilin of snemma. En samt sem áður er ég ánægður með tilkomu Besta flokksins. Ég hlakka til að sjá áhrif hans í borgarstjórn. En ég vona samt að við missum ekki listamanninn Jón Gnarr. Ég er ansi hræddur um að Jón Gnarr sé ekki að nýta sína hæfileika á sem bestan hátt fyrir þjóðfélagið ef hann er fastur inn í ráðhúsi. Við eigum nóg af hæfileikalausu fólki til að fylla ráðhúsið – ég meina ekkert með þessu, bara flott setning.

Samfylkingin er besti flokkurinn fyrir Reykjavík

Ég tel það fullljóst eftir þessa kosningabaráttu að fjórflokkurinn er ekki rúinn öllu trausti og því er nauðsynlegt að sjá til þess að rétt stefna fái mesta fylgið. Jafnaðarstefnan er sú stefna sem við verðum að keyra á í gegnum kreppuna. Við verðum að spila saman vinnu og velferð. Það er ekkert eins drepandi og atvinnuleysi. Við megum ekki við því að tapa tíma í ómarkvissar aðgerðir fram á næsta vetur. Við þurfum styrka sýn og aðgerðaáætlun sem er sett strax í framkvæmd. Allt þetta er framboð Samfylkingarinnar með. Á listanum er mjög gott fólk og hefur flokkurinn starfað mjög vel fyrir þessar kosningar.

Það er ekki hægt að segja að Samfylkingin hafi staðið sig illa á þessu kjörtímabili. Mikil endurnýjun er á lista Samfylkingarinnar og í raun meiri en þörf var á – því nokkur breyting varð á hópi borgarfulltrúa á kjörtímabilinu. 100 daga meirihlutinn var mikið ljós í sögu þessa kjörtímabils. Dagur var góður borgarstjóri.

Þá skemmir ekki fyrir að Breiðhyltingurinn Björk, á 3. sæti listans, hefur sett hverfið á dagskrá. Átak í viðhaldsverkefnum mun byrja í Breiðholti.

Ég mun kjósa xS með fullvissu um að ég sé að kjósa besta fólkið, bestu stefnuna og bestu aðgerðaáætlunina fyrir Reykjavík.

Landsmálin sett til hliðar

Ég verð að geyma gremjuna gagnvart Samfylkingunni í ýmsum landsmálum. Borgarstjórnarflokkur Samfylkingar getur einn og sér lítið gert í þeim málum. Þá er rétt að taka fram að afsögn Steinunnar Valdísar hafði engin áhrif á mig. Ég get í sjálfu sér fagnað þeirri niðurstöðu hennar, en afsögnin er á röngum forsendum. Það er svo margt verra í rannsóknarskýrslu Alþingis en styrkjamálin. Mér þykir akkúrat ekkert að því að frambjóðendur hafi farið eftir biluðum leikreglum prófkjaranna.

Samfylkingin þarf styrk á móti Sjálfstæðisflokknum

Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig spilast úr samstarfi kjörinna flokka inn í borgarstjórn. Samstarf Sjálfstæðisflokks og Besta flokksins yrði martröð. Það er mjög mikilvægt að kjósa Samfylkinguna svo hún geti orðið sem sterkust þegar kemur að því að mynda samstarf.

Svo er rétt að nefna það að framboð VG þykir mér vera algjör tímaskekkja í sveitarstjórnum. Samfylking og VG hafa nær alveg sömu sýn á málefni nærþjónustunnar. Að vera með vinstri vænginn klofinn í sveitarstjórnum gerir ekkert annað en að halda lífinu í Sjálfstæðisflokknum.

Mesta grín þessara kosninga er þó vafalaust það að þriðji hver Reykvíkingur ætlar sér að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Flokkinn sem ber ábyrgð á öllu ruglinu á þessu kjörtímabili. Það þykir mér grátlegt grín.

  1 comment for “Hættur við að kjósa Besta – xS

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *