Hvaða flokkur verður bestur í kjörklefanum?

Ég á erfitt verkefni fyrir höndum í kjörklefanum þann 29. maí. Ég þarf að veita framboðslista traust mitt til að stjórna Reykjavík næstu 4 árin. Valið hefur aldrei verið jafn erfitt og nú. Ég get kosið skýran valkost, Samfylkinguna, sem ég hef verið flokksbundinn síðan í byrjun árs 2007. Ég get líka tekið áhættu og kosið Besta flokkinn. Það sem vefst fyrir mér er að skýru valkostirnir hafa iðulega ekki reynst eins skýrir eftir kosningar. Flokkarnir taka sér ansi mikið frelsi til málamiðlana við stjórnarmyndanir. Það hræðir mig því ekki mjög að kjósa óskýran valkost nú.

Ég er ungur maður og á mér ekki langa kosningasögu. Sagan er þó flókin og fjallar mikið um vonbrigði. Í mínum fyrstu Alþingiskosningum árið 2003 kaus ég Vinstri græna, þrátt fyrir að vera flokksbundinn sjálfstæðismaður. Ég var að refsa Sjálfstæðisflokknum fyrir einkavæðingarferli bankanna, Kárahnjúkavirkjun og Íraksstríðið. Ég treysti VG til þess að veita það mikla aðhald sem þurfti eftir að boginn var spenntur svo hátt. Ég treysti VG til þess að kafa ofan í öll vafamál og sýna fram á alla þá vitleysu sem mér fannst vera í gangi. Þegar leið svo að kosningunum 2007 þá virtist vera búið að svara fyrir allar viðvaranir og bankarnir meira að segja orðnir enn sterkari eftir að hafa tekist ávið litlu kreppuna 2006. Ég uppgötvaði jafnaðarstefnuna og fór að vinna með fólkinu í Samfylkingunni. Ég sá fram á glæsta tíma fyrir velferðarsamfélagið Ísland og sá fyrir mér öfluga stjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Með sterkri Samfylkingu í ríkisstjórn væri hægt að hafa hemil á frjálshyggjunni. Í hruninu kom svo í ljós að allt hið pólitíska litróf hafði brugðist mér. Ekki þarf að fara yfir hvernig Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur brugðust. Sannfæringarmáttur VG var of lítill og flokkurinn tapaði stríðinu. Samfylkingin sem hafði boðað siðbót og nýja pólitík lét Sjálfstæðisflokkinn æða blint áfram og stóð sig lítið betur en Framsóknarflokkurinn. Eins og Ingibjörg Sólrún hefur staðfest þá brást Samfylkingin.

Ég kaus gamla góða Villa sem borgarstjóra árið 2006, þrátt fyrir skoðun mína á landsmálum flokksins. Ég var að skoða Samfylkinguna á þessum tíma, en ég bar ekki traust til fólksins á framboðslistanum. Mér þótti ótraustvekjandi að þetta góða fólk, sem hafði unnið lengi saman, hefði ekki sameiginlega sýn á hvert þeirra væri best hæft til að leiða listann. Mat mitt var rétt, borgarstjórnarflokkur Samfylkingar varð fljótlega allt annar en sá sem bauð fram. En því miður mat ég gamla góða Villa rangt. En það er erfitt að sakast við mig kjósandann, þegar síðasta kjörtímabil sýnir að í raun var ekki hægt að kjósa rétt árið 2006.

Í gegnum starfið í Samfylkingunni hef ég þó kynnst þeim góðu borgarfulltrúum sem nú eru að klára kjörtímabilið. Ég ber mikið traust til þessa fólks og í trausti þeirra hef ég m.a. verið kjörinn varamaður í framkvæmda- og eignaráði borgarinnar. Það sem hins vegar flækist fyrir mér eru tengslin við Samfylkinguna. Samfylkingin í Reykjavík hamrar á því í dag að rekstur borgarinnar sé alvöru mál en ekkert grín. Hins vegar hafnaði flokkurinn Sigrúnu Elsu, sem hafði einbeitt sér að flóknum rekstarmálum, t.d. Orkuveitunni. Þar að auki var skautað yfir rekstarhlutann í aðgerðaráætlun Samfylkingar á Reykjavíkurþingi um daginn og haft í flimtingum um að enginn hafi áhuga á slíku. Alvarleikinn er nú ekki meiri en svo hjá Samfylkingunni í Reykjavík.

Þá er ég ansi ósáttur við aðgerðir Samfylkingarinnar í landsmálum. Jafnaðarstefnan virðist á stundum vera hentistefna. Almannahagsmunir áttu að vera ofar sérhagsmunum. Samt sem áður man ég ekki til þess að það hafi verið sett upp svo flókið net sértækra leiða sem snúa að sértækum hagsmunum og nú hefur verið gert með skjaldborg heimilanna. Félagsmálaráðherra mundi eftir jafnaðarstefnunni þegar hann tók réttlætið með sér í lið og fór í baráttu við eignaleigufyrirtækin. Hann lét ekki segjast þó einhverjir segðu þetta ekki vera hægt. En þegar kemur að því að leiðrétta skuldir heimilanna þá er hlustað á raddirnar sem segja að ekki sé hægt að fara í almanna leiðréttingu. Félagsmálaráðherra kýs að fara ekki fram með réttlætisvopnið og jafnaðarstefnuna því hann hefur hitt á mótstöðu hagsmunaaðila sem hann vill ekki styggja. Vandanum er bara slegið á frest. Þá eru þungir bitar að kyngja: forræðishyggjan, lausatök í niðurskurði og frestunaráráttan varðandi stjórnlagaþing.

Verst er þó afneitun þingmanna Samfylkingar á því sem stendur í Rannsóknarskýrslu Alþingis. Stjórnvöld brugðust og þar með allir þingmenn sem sátu á Alþingi fyrir hrun. Við fórum í kosningar síðasta vor til þess að koma mætti á alvöru neyðarstjórn. Kosningarnar snérust ekki um uppgjör. Flestir frambjóðendur horfðu til þess að meta þyrfti stöðuna aftur eftir að skýrslan kæmi út. En nú hefur þeim fyrirheitum verið stungið undir örugga og þægilega þingsætið. Athyglin hefur nú beinst að styrkjamálum prófkjaranna. Það er miður því hrunið sjálft er miklu alvarlegra mál. Ef þingmenn Samfylkingar væru í einhverjum tengslum við fólkið í flokknum og almenna kjósendur þá mundu þeir skynja að þeir hefðu ekki lengur traust. Þingmennirnir sitja áfram vegna eigin hagsmuna, en ekki vegna hagsmuna flokksins eða þjóðarinnar.

Ég harma það að Dagur, minn varaformaður, skuli ekki hafa nýtt tækifærin í upphafi kosningabaráttunnar og látið verkin tala. Það er ekki nóg að segja að fleira en orð þurfi að koma til og að nýtt grín framboð sýni að breytinga er þörf. Það verður að keyra fram með nauðsynlegri hreinsun og siðbót. En því miður virðist Dagur reka sig á einhverja hagsmuni líkt og félagsmálaráðherra, sem hamla því að prinsippum sé fylgt eftir og réttlætið er gefið eftir.

Mín bíður erfitt verkefni í kjörklefanum. Ég get kosið gott fólk á lista Samfylkingar, en á sama tíma lagt ákveðna blessun á verk Samfylkingarinnar. Ég get líka kosið gott fólk á lista Besta flokksins sem hefur það umfram önnur framboð að vera óháð landsmálapólitík og er að stefna í að verða fjöldahreyfing, en nú eru um 1000 manns skráðir í flokkinn. Á endanum snýst þetta um traust. Vil ég treysta gömlu flokkunum áfram fyrir borginni eða vil ég nýtt afl inn í borgarstjórn? Eins og áður segir þá hefur allt hið pólitíska litróf hefur brugðist mér. Besti flokkurinn er því ansi spennandi kostur. Ég hef trú á að fólkið á lista Besta flokksins horfi á það sem rétt er fremur en sérhagsmuni.

Í kjörklefanum mun þó ein stór forsenda ráða ansi miklu. Ef ég mun hafa þá tilfinningu að Besti flokkurinn muni ná hreinum meirihluta þá eru meiri líkur en ekki að hann fái atkvæði mitt. En ef tilfinning mín verður sú að Besti flokkurinn muni þurfa að starfa með einhverjum flokki í meirihluta, eða að vera í minnihluta þá mun atkvæði mitt fara til Samfylkingar. Ef fjórflokknum verður ekki veitt frí frá borginni þá verð ég að standa með mínu fólki og jafnaðarstefnunni.

Hvernig sem atkvæðið lendir þá mun ég ekki segja mig úr Samfylkingunni, enn sem komið er. Í landsmálunum er Samfylkingin klárlega besti flokkurinn sem er í boði.

Mögulega sýnir þessi ágæti pistill fram á að ég er gjörsamlega vanhæfur kjósandi. Enda er ég mögulega að fara að endurtaka mistök mín frá árinu 2006 er ég kaus gamla góða Villa því Samfylkingin var í ruglinu. En vonandi er líka hægt að lesa í þetta að ég sé með hæfari kjósendum og er sífellt að læra – öfugt við þá sem kjósa alltaf það sama.

  7 comments for “Hvaða flokkur verður bestur í kjörklefanum?

 1. Ágúst Már Garðarsson
  24. maí 2010 at 9:08

  Sæll Guðlaugur

  Flottur teksti hjá þér og frábærar vangaveltur, það vekur mér von að heyra frá kjósendum sem virkilega hugsa svona mikið um hvað skuli kjósa.

  Ég er persónulega í framboði fyri Besta flokkinn og vona að þú treystir okkur en kjóstu það sem þú vilt, það að þú veltir þessu svona vel fyrir þér nægir mér alveg.

  Bestu kveðjur Ágúst Már 13 sæti Besta flokksins

  • 3. desember 2016 at 10:27

   Frankly I think that’s abselutoly good stuff.

  • 1. maí 2017 at 20:17

   Great post. Don’t you think, however, that by injecting yourself into this controversy by writing passionately about it that you are taking part in the proliferation of the fundamental ignorance that this type of non-event needs in order to survive?Ignore the ignorant lest you find yourself amongst them.Just saying.

 2. Markús
  25. maí 2010 at 10:42

  Ég skil vel hvað þú meinar Gulli, Bæði landsmálin og borgarmálin undanfarin ár hafa sýnt það að það er einfaldlega ekki hægt að kjósa eða treysta fjórflokkinn. Hinsvegar er ég efins um Bestaflokkinn. Því er bara eitt sem ég get gert með góðri samvisku, og það er að skila auðu. Ég neita að kjósa flokk því þeir séu illskásti kosturinn. Ef enginn getur fangað hug mitt og hjarta þá fær enginn flokkur mitt atkvæði.

 3. Edda Snorradottir
  25. maí 2010 at 17:45

  Gott að sjá að fleiri en ég velkjast í vafa um hvað skal kjósa !
  En eftir að hafa lesið þinn ágæta pistil, held ég kjósi Besta flokkinn !

 4. 25. maí 2010 at 22:07

  Ég þakka góð viðbrögð. Lífið er stundum ansi flókið. Markús, ef þú getur ekki kosið flokkinn sem þú getur best sætt þig við, þá getur þú lítið annað en skilað auðu það sem eftir er.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *