Virkjaðu þína krafta!

Virkjaðu þína krafta!

Guðlaugur Kr. Jörundsson Þriðjudagur 15. september 2009

Haustin eru spennandi tími. Við erum endurnærð eftir sumarið og tilbúin að takast á við veturinn. Allt fer á fullt í vinnunni og skólarnir hefjast. Það fer þó framhjá flestum að á haustin fara fram landsþing ungliðahreyfinga stjórnmálaflokkanna.

Um síðustu helgi fór fram Sambandsþing ungra framsóknarmanna. Um aðra helgi fara fram Sambandsþing ungra sjálfstæðismanna og Landsfundur ungra vinstri grænna. Þá fer Landsþing ungra jafnaðarmanna fram fyrstu helgina í október.

Ungliðahreyfingarnar eru merkar og mikilvægar stofnanir í okkar lýðræðisríki. Þær eiga sér langa sögu og sýnir hún hversu mikil áhrif hreyfingarnar hafa haft. Ungliðahreyfingarnar eru öflugustu grasrótarhreyfingar landsins. Þær eiga mikinn þátt í stefnumótun flokkanna til framtíðar. Þær gegna áhrifamiklu aðhaldshlutverki á stjórnmálaflokkana sem þær tilheyra. Hollusta hreyfinganna er gagnvart þeirri stefnu og þeim hugsjónum sem flokkarnir aðhyllast. Fari flokkarnir á sveig við samþykkta stefnu er það skylda ungliðahreyfinganna að koma stefnunni til bjargar, jafnvel þó það geti skaðað skammtímahagsmuni flokksins.

Tækifærin eru núna – og meiri en áður
Ég hef verið virkur í starfi ungliðahreyfingar í tvö og hálft ár. Mikið hefur gerst á þessum stutta tíma. Í upphafi árs 2007 voru okkur allir vegir færir. Við höfðum tækifæri til að móta framtíð okkar að vild. Stórir draumar virtust í seilingarfjarlægð. En svo fór að halla undan fæti. Pólitísk mannvíg og tækifærismennska urðu daglegt brauð í borgarstjórn Reykjavíkur. Þá brast trúnaðarsamband þjóðarinnar við ráðandi stjórnvöld og flokkakerfið þegar það gerðist á vakt þessara fulltrúa okkar að efnahagskerfið hrundi. Það var ekki auðvelt að sitja í stjórn ungliðahreyfingar meðan á þessu stóð. Það var ekki auðvelt að réttlæta fyrir sér að halda áfram nánum tengslum við stjórnmálaflokk þegar trúin og virðingin fyrir stjórnmálum var að þverra. En hugsjónirnar höfðu ekki beðið hnekki. Með því að leita aftur í gildin sem sameina okkur í hugsjóninni þá var hægt að horfa til framtíðar með víðsýnum og ungum félögum.

Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru tækifærin jafnvel enn meira spennandi nú en árið 2007. Okkur eru kannski ekki allir vegir færir en við höfum fengið tækifæri til að setja nýjar stoðir undir okkar velferðar- og lýðræðissamfélag. Kreppan hefur gefið okkur lag til að endurskoða okkar lifnaðar- og stjórnarhætti. Framundan eru mikil verkefni sem snúa að sjálfbærni, þróun nýrra orkugjafa, nýsköpun í iðnaði og framleiðslu og að treysta á ný trúnaðarsamband þjóðarinnar við stjórnkerfið.

Ég hlakka til að mæta á mitt landsþing fyrstu helgina í október. Þar verða án vafa rædd þessi brýnu verkefni. Stærsta tækifærið liggur í endurskoðun á stjórnarskránni og fær hún því vafalaust góða umræðu á landsþinginu.

Vertu með – fyrir framtíðina og sjálfan þig
Ég hvet allt ungt fólk til þess að kynna sér ungliðahreyfingarnar. Lesa um hugsjónir hreyfinganna og finna hvaða hreyfing á best við eigin hugsjónir. Nú er virkileg þörf á sem flestum til að vinna að mótun framtíðarinnar. Þeir sem koma að málum nú þessi misserin munu ráða mest um það á hvaða braut þjóðfélag okkar fer. Nú er tækifærið til að láta að sér kveða. Nú er tækifærið til að sameinast um stefnu til framtíðar.

Virkið krafta ykkar og mætið á landsþingin. Ef ekki til að láta í ykkur heyra, þá til að hlusta, læra og fræðast. Það að hitta aðra með sömu hugsjónir og sem hafa trú á framtíðinni getur hrakið burt vonleysi og veitt innblástur til góðra verka. Það er gaman að taka þátt í starfi ungliðahreyfingar. Þar er pláss fyrir margar góðar hendur. Það er gefandi að taka þátt í því að vinna að sameiginlegum hugsjónum og ekkert mál að finna eigin leiðir til þess að efla starf ungliðahreyfingarinnar.

Ég virkjaði mína krafta til að efla þá ungliðahreyfingu sem ég á samleið með. Þó svo að ég hafi látið margt gott af mér leiða þá hefur þátttaka mín í ungliðahreyfingunni gert miklu meira fyrir mig sjálfan. Reynslan, fræðslan og félagsskapurinn sem ég hef fengið í gegnum ungliðahreyfinguna er ómetanleg. Verið með, takið þátt og eflið ykkur og stjórnmálin. Það er æðislegt!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *