Stjórnlagaþing gefi okkur trausta stjórnskipan

Samfélag okkar byggir á trausti. Við treystum kjörnum fulltrúum til að fara með stjórn landsins. Við treystum hvert öðru til að fara eftir stjórnarskrá, lögum og reglum. Við treystum yfirvöldum til að grípa inn í þegar aðilar misnota fengið traust.

Traust okkar á hið íslenska efnahagsundur fleytti okkur sofandi að feigðarósi, beint í hrunið. Öll höfðum við auðvitað efasemdir, en við sannfærðumst um að velgengnin væri traustsins verðug. Við höfðum traust á því að allir Íslendingar væru að vinna með hagsmuni okkar allra að leiðarljósi. Vilji bankanna til þess að halda höfuðstöðvum sínum hér á landi, þrátt fyrir stærð sína, túlkuðum við sem varðstöðu íslensku bankanna um íslenska hagsmuni. En það var víst bara smá misskilningur.

Traustið hvarf í bankahruninu

Bankahrunið í október sl. var ekki það versta sem gerðist. Allt traust í samfélaginu brast og er enn mjög laskað. Stjórnvöld verða að hafa það í huga í öllum sínum aðgerðum. Skapa þarf traust um allar ákvarðanir. Núverandi ríkisstjórn fékk umboð sitt vegna þess trausts sem formenn Samfylkingar og Vinstri grænna hafa úti í samfélaginu. Traust um heiðarleg og gegnsæ vinnubrögð. Lengra nær ekki traustið. Umboðið var ekki veitt til þess að stýra landinu skv. hagsmunum þessara flokka. Ríkisstjórnin fékk traust til þess að taka nauðsynlegar ákvarðanir á erfiðum tímum í sátt við þjóðina. Gömlu vinnubrögðin, gömlu helmingaskiptareglurnar, gömlu bakherbergin, voru kosin út af borðinu.

Ríkisstjórnin hefur ekki áttað sig á þessari stöðu. Hún hefur ekki lengur, eins og hefðin hefur verið, óskilyrtan stuðning þingmanna og kjósenda stjórnarflokkanna. Þar sem traustið er ekki heilt þá þarf til rök og upplýsingar til þess að sannfæring fyrir ákvörðun myndist. Vitneskja um leynd á einhverju skjali torveldar alla sannfæringu. Krafan um gegnsæi er algjör. Ríkisstjórnin verður að hafa fyrir því að sannfæra ráðuneyti sín, þingmenn allra flokka og alla landsmenn. Ríkisstjórnin þarf einnig að vera að fullu sannfærð um að aðgerðir séu í þjóðarhag.

Vinna þarf sannfæringu þjóðarinnar til að vinna sannfæringu þingmanna

Ríkisstjórnin verður að sannfæra almenning í landinu um gildi fyrirhugaðra aðgerða. Fyrr geta þingmenn ekki sannfærst um það að aðgerðin sé samkvæmt þjóðarvilja. Það er lykilatriði því þingmenn eru bundnir af sannfæringu sinni um að þeir séu að starfa samkvæmt vilja þeirra kjósenda sem þeir eru fulltrúar fyrir.

Ríkisstjórnin hefur haldið illa á Icesave-málinu. Hún klikkaði á því að skapa traust um málið frá upphafi. Það þýðir ekki að senda af stað samninganefnd sem ekki er traust á því þá mun almenningur ekki treysta því að vel hafi verið unnið að samningnum. Frá upphafi átti að skapa traust um samningaferlið. Samninganefndin átti að koma fram í sjónvarpi og vera kynnt fyrir þjóðinni. Kynna átti þau þrjú sameiginlegu viðmið sem samninganefndin átti að vinna útfrá skv. samþykktri þingsályktunartillögu. Kynna átti markmið nefndarinnar svo hægt væri að dæma um hversu góður samningurinn væri. Svo þegar samningurinn var tilbúinn átti samninganefndin að koma fram í sjónvarpi og lýsa sinni sannfæringu á því hversu góður samningurinn væri. Leggja hefði þurft heilt kvöld undir slíka sjónvarpsútsendingu. Daginn eftir yrði samningurinn svo opinberaður.

Því miður virðist Icesave-málið vera komið í hnút vegna slælegra vinnubragða og vöntun á trausti. Líklega verður samningnum hafnað, en vonandi lærum við af þessu ferli og að fundinn verði nýr farvegur fyrir þetta mál sem mun skila betri samningi sem mun taka mið af sameiginlegu viðmiðunum.

Stjórnlagaþingið er tækifæri til að endurvinna traust

Ríkisstjórninni mistókst einnig að skapa traust um ESB umsókn Íslands. Það er ekki merki um heilbrigða stjórnskipan þegar ljóst er að mikill meirihluti þingheims vill aðildarviðræður við ESB en hann getur ekki komið sér saman um málið vegna flokkspólitískra átaka. Hagsmunir stjórnar og stjórnarandstöðu ráða á Alþingi en ekki hagsmunir þjóðarinnar. Á meðan við búum við ráðherraræði í skjóli þingræðis þá verður ekki hægt að byggja upp traust á stjórnskipan landsins.

Um leið og við ráðumst í það stóra verkefni að byggja aftur upp traust verðum við að tryggja að það verði gert á nýjum grunni. Við viljum ekki byggja traust okkar á sömu stjórnskipan og klessti á vegg í október sl. og er að bjóða okkur upp á málfundaæfingar á Alþingi á sama tíma og vinna þarf brýn verk.

Grundvallarþættir í okkar stjórnskipan verða endurskoðaðir á stjórnlagaþingi sem verður sett 17. júní næstkomandi. Stjórnlagaþingið er okkar besta tækifæri til þess að leysa úr því mikla verkefni að skapa aftur traust í samfélaginu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *