Gagnaveituna má aldrei einkavæða

Í þrettándu grein minni á hér á Vefritinu tek ég aftur fyrir sama mál og í þeirri fyrstu. Nú heyrast aftur hugmyndir frá Orkuveitu Reykjavíkur um að einkavæða eigi Gagnaveitu Reykjavíkur, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitunnar. Þetta mál virðist ávallt komast á dagskrá í borgarstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, enda eru einkavæðingar mikið áhugamál þessara flokka.

Einkavæðum ekki aftur grunnnet
Gagnaveita Reykjavíkur hefur lagt ljósleiðaranet um höfuðborgarsvæðið og víðar. Heimili og fyrirtæki sem tengjast ljósleiðaranetinu geta keypt þjónustu um ljósleiðarann frá ýmsum einkaaðilum. Hægt er að kaupa aðgang að interneti, sjónvarpi og síma. Gagnaveitan sjálf selur ekki þjónustu um ljósleiðaranetið.

Gagnaveitan er ekki ósvipað fyrirtæki og Míla. Míla er dótturfyrirtæki Símans og var stofnað um rekstur grunnnets Símans. Miklar deilur voru á sínum tíma um hvort ætti að einkavæða grunnnetið með Landsímanum. Var ekki talið mögulegt að rjúfa grunnnetið frá Landsímanum og því var það einkavætt með. Galdramönnunum í einkavæddum Símanum tókst það nú samt.

Nánast allir landsmenn tengjast koparlínukerfi Mílu. Landsmenn kaupa svo síma- og netþjónustu í gegnum línuna frá ýmsum fyrirtækjum, t.d. Símanum og Vodafone. Koparlínukerfið má kalla grunnnet því það er samnýtt af símfyrirtækjum landsins. Það er auðvitað ekki grundvöllur fyrir því að ný símfyrirtæki leggi eigin koparlínu til viðskiptavina sinna. Þess vegna er engin samkeppni í rekstri á koparlínukerfi og því er Míla í einokunarrekstri. Þess vegna átti ekki að einkavæða grunnnetið. Það sama gildir um Gagnaveituna. Það er engin samkeppni í rekstri á ljósleiðaraneti og því á ekki að einkavæða það grunnnet sem Gagnaveitan á og rekur. Gagnaveitan er í einokunarrekstri.

Gagnaveitan er fjórða veitan
Á sínum tíma var ljósleiðaranet Gagnaveitunnar kynnt sem fjórða veitan. Allir eru sammála um það að hin þrjú veitukerfi Orkuveitunnar, vatn, hiti og rafmagn, eigi að vera í höndum opinberra aðila. Nýleg lög um orkuveitur í landinu kveða á um að veitukerfin eigi að slíta frá öðrum rekstri orkuveitna, t.d. frá framleiðslu, því veitukerfin verða aldrei einkavædd.

Orkuveitan hefur á síðustu árum mjög fjarlægst það upplegg sem var með lagningu ljósleiðaranetsins. Ég hef fylgst með þróun þess frá upphafi. Á Digital Reykjavík ráðstefnu fyrir nokkrum árum var ljósleiðaranetinu lýst sem opnu neti. Það átti að vera aðgengilegt öllum fyrirtækjum sem vildu selja þjónustu í gegnum netið. Reka átti netið með aðgangsgjaldi til notenda, enda yrði aðgangur eftirsóttur að fjölbreyttum þjónustum í gegnum netið. Ég hef hins vegar heyrt af því að fyrirtækin hafi þurft að greiða heldur mikið fyrir að veita þjónustu um netið. Þá hefur sjónvarpsmóttakari sem var grunnbúnaður frá Gagnaveitunni verið seldur til Vodafone. Sem þýðir að aðrar efnisveitur þurfa að fjárfesta í sér sjónvarpsmóttakarakerfi, í stað þess að efnisveitur sameinist um einn sjónvarpsmóttakara, sem var hugmyndafræðin í upphafi. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn eru á góðri leið með að eyðileggja þá góðu hugmyndfræði sem var lagt af stað með hjá R-listanum.

Þá má velta því fyrir sér hvers vegna Síminn hefur ekki séð sér hag í því að semja við Gagnaveituna um að veita internetþjónustu um ljósleiðara í samkeppni við hin internetþjónustufyrirtækin. Líklegt er að Gagnaveitan sé búin að setja upp einhverja þröskulda sem Síminn sættir sig ekki við. Það er sennilega á skjön við þá hugmyndafræði sem lagt var upp með.

Einkavæðing Gagnaveitunnar er rökleysa
Slæmt er ef Gagnaveitan verður einkavædd. Ennþá verra er ef eitthvert þjónustufyrirtækið á sviði nets, síma eða sjónvarps eignast ljósleiðaranetið, líkt og Orkuveitan er að skoða nú. Þá verður ekki jafnt aðgengi þjónustuaðila að ljósleiðaranetinu og gefur eigandanum forskot og einokunarstöðu á markaði. Hringiðan selur nú internetþjónustu um ljósleiðaranet Gagnaveitunnar. Það verður heldur skökk staða fyrir Hringiðuna ef Vodafone á burðarlagið og er á sama tíma að keppa við þá um internetþjónustu. Þá er nokkuð ljóst að viðskiptavinir Símans munu vafalaust aldrei fá internetþjónustu frá Símanum í gegnum ljósleiðaranetið. Sú staðreynd hræðir mjög. Það gæti orðið til þess að Míla fari að leggja nýtt ljósleiðaranet. Það er óþarfa fjárfesting sem mun lenda á neytendum.

Helstu rök borgarstjóra sumarið 2007 fyrir því að einkavæða Gagnaveituna voru þau að Gagnaveitan væri í samkeppnisrekstri. Ljóst er af ofangreindu að svo er ekki. Stjórnendur og starfsmenn Orkuveitunnar verða að finna sér annað áhugamál en að reyna að koma Gagnaveitunni í verð og í hendur einhvers fyrirtækis sem rekur þjónustu á netinu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *