Forsendubrestur kallar á endurmat


Við höfum öll okkar vonir og þrár. Við gerum okkur mynd af því sem við leitum eftir. Við leitum að hamingju og tilgangi. Aðstæður í þjóðfélaginu skapa leiðir að markinu. Þjóðfélagsástand mótar með okkur myndina af því sem við leitum eftir. Hugmynd okkar um hamingju og tilgang er því síbreytileg. Þegar illa árar erum við hamingjusöm með að lifa af. Þegar drýpur af hverju strái viljum við tryggja eigin hlut af velsældinni til að skapa betri farveg fyrir hamingju okkar nánustu.

Fórnir höfum við fært en lifum enn
Íslenska þjóðin hefur lengi dvalið á Íslandi, í gegnum skin og skúrir. Við höfum lifað af gjöfulu landi. Við höfum barist við náttúruöflin og veðrabrigði. Við höfum misst margan landsmanninn í gegnum tíðina. Þjóðin hefur samt ekki yfirgefið landið. Margir hafa flúið land en þrátt fyrir það var hér hægt að byggja upp samfélag í fremstu röð. Úr engu öðru en viljanum og vinnusemi byggðum við upp landið okkar.

Margoft hefur ekki gengið sem skyldi. Við höfum sáð vel og gengið eins vel frá hnútunum og við höfðum hyggju til. Uppskeran hefur oft beðið hnekki vegna afla sem við réðum ekki við. Forsendur hafa brostið og uppskeran þar með líka. Þá höfum við saman lagst á árarnar til að bæta fyrir skaðann og komið okkur aftur á braut framfara, reynslunni ríkari. Það hefur vissulega ekki verið neinn leikur og hefur kallað á margar fórnir, jafnvel mannslíf.

Leitin að réttlætinu dugir ekki ein og sér
Þegar uppskeran brestur verðum við sár. Við skiljum ekki óréttlætið. Við viljum leita réttlætis. Það bregst þó aldrei að við verðum að taka staðreyndunum eins og þær liggja fyrir. Við verðum að byrja að vinna okkur út úr erfiðleikunum. Við verðum að lifa við breyttar forsendur og reikna dæmið upp á nýtt. Allir verða að leggjast á eitt við að halda þeim gæðum sem þó eru eftir og skipta þeim jafnt svo allir geti lifað af og byggt á nýjum grunni.

Við höfum lengi glímt við uppskerubresti í landbúnaði og sjávarútvegi. Í haust upplifðum við nýja tegund af uppskerubresti. Við höfum að undanförnu verið að leggja jarðveg fyrir fjármálastarfsemi og gekk sáningin vel. En uppskeran í haust eyðilagði jarðveginn. Fjármagnið hvarf. Sem betur fer varð ekki hefðbundinn uppskerubrestur. Afleiðingarnar eru því mjög vægar. Við þurfum ekki að horfa upp á vöruskort eða töpuð mannslíf.

En við erum særð. Við viljum réttlæti. Við viljum að einhverjir svari til saka fyrir að brjóta forsendur þjóðfélagsins. Við viljum að byrðunum sé skipt jafnt. Við viljum að eignaupptöku lánveitenda í heimilum okkar verði snúið við. Við viljum vera jafn tryggð gagnvart hruni og lánveitendur. Við viljum fá traustar forsendur til að geta reiknað dæmið upp á nýtt. Við verðum að sjá tilganginn í því að búa hér á landi áfram. Við verðum að sjá hvaða leiðir eru færar hér á landi til að veita okkar nánustu hamingju og frelsi. Við megum þó ekki tapa okkur í réttlætisbaráttunni. Réttlætið mun ávallt sigra að lokum.

Við erum í mesta ævintýrinu
Við megum ekki gleyma öllum tækifærunum. Við erum örfáar hræður hér sem hafa þau forréttindi að búa á Íslandi. Þó að efnahagsástandið nánast sparki okkur út fyrir landsteinana þá verðum við að reikna dæmið upp á nýtt. Við erum öll á lífi. Við höfum á svo miklu meira að byggja nú en fyrr á öldum. Við eigum nóg af auðlindum og þekkingu. Við höfum alla möguleika á því að draga inn erlent fjármagn í gegnum grænar orkulausnir. Við getum orðið óháð olíu og þannig gefið fordæmi fyrir önnur lönd. Við verðum að henda okkur í enduruppbygginguna og undirbúa frjóan jarðveg svo sprotarnir fái að vaxa á ný.

Förum í endurmat og sameinumst um verkin
Forsendur brugðust. Verðbólgan hefur ekki verið 2,5%. Við bjuggum ekki við trausta efnahagsstjórn. Krónan okkar er komin í kistuna og jarðarförin verður auglýst síðar. Við verðum því nú að setjast niður og reikna dæmið upp á nýtt. Búum til nýja mynd af hamingjunni og tilganginum. Hamingjan var eftir allt saman ekki í peningalánum frá bönkunum. Þjóðfélagið afvegaleiddi okkur um stund. Leitum að gömlu gildunum sem snérust ekki um peninga. Einbeitum okkur að okkar nánustu og setjum krafta okkar í frumkvöðlastörf. Bíðum eftir nýjum tækifærum til útrásar. Bíðum eftir að verða fullgildir aðilar að innri markaði ESB og flytjum út okkar bestu vörur og hugvit. Bíðum eftir nýjum gjaldmiðli sem mun treysta jarðveginn fyrir sprotana. Leggjum traust okkar á nýja ríkisstjórn sem ætlar með vinnusemi að koma okkur á rétta braut til framtíðar.

Leggjumst á eitt og sameinumst um verkefni líðandi stundar. Vinstrimenn verða að sameinast fyrir næstu kosningar til þess að hafa styrk til þess að klára verkið. Stefnan er sú sama, en ágreiningsmál vinstri manna á að leysa á sameiginlegum landsfundi en ekki við ríkisstjórnarborðið. Annað er ólýðræðislegt. Okkur ber nú á öllum sviðum að bræða brotin saman svo bresturinn sjáist ekki neitt.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *