Stóri stjórnarskrármisskilningur Sjálfstæðisflokksins

Stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Alþingi hefur sett sig upp á móti frumvarpi stjórnarflokkanna. Flokkurinn heimtar sátt í málinu og beitir málþófi. Það er ekki nýr veruleiki. Hegðunin er dæmigerð fyrir stjórnarandstöðuflokk. Það sem er hins vegar óskiljanlegt er að þessi sami flokkur styður það sem hann berst gegn.

Misskilningur I
Sjálfstæðisflokkurinn er reiðubúinn að fallast á að stjórnarskrá sé breytt af þjóðinni með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því þverpólitísk sátt um að vald til breytingar á stjórnarskrá færist frá tveimur löggjafarþingum yfir til þjóðarinnar.

Þrátt fyrir vilja til að færa valdið frá Alþingi þá vælir Sjálfstæðisflokkurinn yfir því að vald Alþingis verði skert með því að setja á fót stjórnlagaþing. Þar sem valdið verður farið frá Alþingi þá ætti varla að skipta máli hvaða stofnun það er sem setur saman stjórnarskrá sem verður sett í dóm þjóðarinnar, hafi stofnunin til þess umboð skv. lögum.

Birni Bjarnasyni virðist vera meira annt um það að Alþingi riti stjórnarskrána fremur en að hafa vald til að samþykkja hana. Svo virðist sem Björn og fleiri Sjálfstæðismenn séu hreinlega að misskilja fyrirhugað stjórnlagaþing. Stjórnlagaþing mun eingöngu leggja til stjórnarskrá til samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef Björn er ekki að misskilja þá má draga eina merkilega ályktun, að Björn sé í reynd á móti vilja Sjálfstæðisflokksins að styðja þá breytingu að stjórnarskrá verði framvegis breytt með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Misskilningur II
Það er ekki auðvelt að skilja Sjálfstæðisflokkinn í stjórnarskrármálinu. Eins og áður segir styður flokkurinn ríkisstjórnina í því að vilja færa breytingarvaldið til þjóðarinnar. Þrátt fyrir það berst Sjálfstæðisflokkurinn hatrammlega gegn því að þjóðin fái í komandi kosningum að kjósa um breytinguna á stjórnarskránni.

Stjórnmálaflokkar hafa iðkað það í gegnum tíðina að samþykkja stjórnarskrárbreytingar í þverpólitískri sátt. Svo er gengið til kosninga og stjórnarskrárbreytingin svo samþykkt af nýju löggjafarþingi. Þeir kjósendur sem voru á móti stjórnarskrárbreytingunni gátu þá engan flokk kosið. Stjórnarskrárbreyting í sátt verður aldrei að kosningamáli og því hefur stjórnarskrárbreyting iðulega ekki verið kosningamál. Fjórflokkurinn hefur því með sínu samtryggingakerfi um pólitíska sátt komið í veg fyrir að þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrárbreytingar.

Nú var tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn að brjótast undan hefðinni og hleypa þjóðinni að stjórnarskrárbreytingarvaldinu. Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er vafalaust, að eigin mati, að berjast fyrir heill þjóðarinnar hefði hann að sjálfsögðu leyft ríkisstjórninni að keyra stjórnarskrármálið í gegn. Síðan hefði Sjálfstæðisflokkurinn aflað sér fylgis með því að gera stjórnarskrárbreytinguna að kosningamáli. Þannig hefði Sjálfstæðisflokkurinn strax getað komið breytingarvaldinu til þjóðarinnar.

Ekki nýtti Sjálfstæðisflokkurinn tækifærið. Það hlýtur að vekja upp efasemdir um hvort flokkurinn sé í raun að hugsa um þjóðarhag. Sjálfstæðisflokkurinn telur greinilega að hann hafi ekki þjóðina að baki sér varðandi andstöðu við stjórnarskrárbreytinguna. Hann leggur ekki í að gera málið að kosningamáli. Hann telur það greinilega ekki auka fylgi sitt. Flokkurinn er þá að vinna að eigin hagsmunum en ekki almannahagsmunum. Sjálfstæðisflokkurinn er hræddur um að stjórnlagaþing leggi til þannig breytingar á stjórnarskrá að valdakerfi flokksins yfir Íslandi minnki.

Misskilningur III

Í beinu framhaldi verður að benda á ótrúlega rökvillu Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn heldur því fram að ríkisstjórnin sé að tefja frumvörp um efnahagsleg málefni. Sjálfstæðisflokkurinn stendur í málþófi til þess að reyna að komast í önnur mál. Væri Sjálfstæðisflokknum annt um að koma öðrum málum að mundi hann að sjálfsögðu hætta málþófinu. Hann mundi klára þingið eins hratt og hægt væri til þess að komast í kosningabaráttuna og hann mundi setja stjórnarskrármálið á oddinn í kosningabaráttunni.

Samantekt
Sjálfstæðisflokkurinn treystir ekki þjóðinni til að kjósa um stjórnarskrárbreytingarnar og heimtar því pólitíska sátt. Sjálfstæðisflokkurinn vill þó framvegis leyfa þjóðinni að kjósa um stjórnarskrárbreytingar. Þarna er flokkurinn í bullandi mótsögn við sjálfan sig.

Sjálfstæðisflokkurinn vill halda völdum sínum yfir stjórnarskránni áfram og alls ekki hleypa þjóðinni að stjórnarskránni með stjórnlagaþingi. Stjórnarskráin er þó regluverk frá þjóðinni til stjórnvaldsins. Sjálfstæðisflokkurinn vill áfram fá að semja regluverkið sem hann á að fara sjálfur eftir. Slíkt fyrirkomulag gengur ekki upp. Áhrifavald gömlu bankanna á eigið regluumhverfi er gott dæmi þar um.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur tafið störf Alþingis úr öllu hófi og því tafið efnahagslegar aðgerðir.

Fólkið í landinu verður að fá að setja saman nýja stjórnarskrá. Niðurstaðan verður án vafa mun betri en plástrar stjórnmálamannanna. Ég reikna t.d. fastlega með því að kveðið verði á um mannréttindi í fyrsta kaflanum – í stað þess síðasta.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *