Viðurkennið mistök og axlið þannig ábyrgð!

Þjóðarskútan er strönduð. Við höfum komið í veg fyrir að hún brotni niður á strandstað. Við erum að fá viðspyrnu frá IMF og sér nú fyrir endann á neyðaraðgerðum. Andrúm er að skapast til að skipuleggja áframhaldandi björgunar- og uppbyggingarstarf. Stjórnendur skútunnar verða nú að horfast í augu við mistök sín og liðka fyrir því að sjópróf geti farið fram.

Nú verða stjórnendur og stjórnir Fjármálaeftirlitsins, gömlu bankanna og Seðlabankans að axla ábyrgð sína með því að viðurkenna mistök sín og iðrast. Að ógleymdum forsætisráðherra sem svo skilmerkilega greindi frá því á blaðamannafundi að hann ber einn ábyrgð á Seðlabankanum.

Það er hvorki sársaukalaust né heimsendir að axla ábyrgð sína. Það að axla ábyrgð snýst um að viðurkenna mistök sín og iðrast. Flóknara er málið ekki.

Afneitun stækkar vandamálið
Það að afneita mistökum sínum og ætla sér að takast á við vandamálið á eigin spýtur er ekki að axla ábyrgð. Niðurstaðan af slíkri vinnu er ávallt bráðabirgðalausn. Séu mistökin ekki viðurkennd er ekki hægt að læra af reynslunni og þá mun vandamálið skjóta aftur upp kollinum, þá miklu stærra. Þetta þekkjum við öll úr okkar daglega lífi.

Bankastjórar gömlu bankanna misstu vinnu sína en þeir hafa þar með ekki axlað ábyrgð sína. Þeir þurfa að horfa yfir sviðið og viðurkenna fyrir þjóðinni að mistök voru gerð í rekstri bankanna sé litið til þess umhverfis sem þeir störfuðu í.

Stjórn og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans ásamt stjórnvöldum bera samábyrgð á strandinu. Þessir aðilar þurfa að viðurkenna mistök sín og iðrast. Það leynist engum að þessir aðilar hafa gert mistök. Á þeirra vakt gerðist það óvart að þjóðarskútan strandaði. Við getum greint síðar nákvæmlega í hverju mistökin fólust en þessir aðilar verða að viðurkenna nú þegar að mistök voru gerð og iðrast.

Traust verður að endurnýja
Í störfum okkar í þjóðfélaginu er okkur falið traust yfir ákveðnu verkefni. Okkur leyfast ákveðin mistök en önnur eru of alvarleg. Við höfum treyst ákveðnu fólki fyrir því verkefni að stjórna efnahagi og peningamálum landsins. Það er vart mögulegt fyrir þessa einstaklinga að gera stærri mistök en þau sem hafa komið þjóðinni í þennan vanda. Ef það er ekki tilefni nú að iðrast með því að stíga til hliðar, hvenær þá?

Ætli fyrrnefndir aðilar að starfa áfram í okkar þágu verða þeir að fá endurnýjað traust. Þeir sem eru venjulegir launamenn eig a að segja starfi sínu lausu og sækja þá aftur um ef þeir vilja. Þeir sem eru kosnir af þjóðinni geta ekki frestað endurnýjun á trausti sínu fram að næstu kosningum. Þeir eiga að segja sig frá núverandi verkefnum. Forsætisráðherra getur gefið öðrum eftir embættið og starfað sem þingmaður fram að næstu kosningum og þá endurnýjað umboðið. Kjósi hann að segja sig alfarið frá Alþingi getur hann alltaf komið til baka í næstu kosningum. Starfi hann áfram trausti rúinn mun flokkur hans á endanum sjá til þess að hann fari, sé flokkurinn heilbrigður.

Þetta gerðist alveg óvart
Geir H. Haarde sagði það í Kastljósviðtali að það mætti segja það að þetta hafi allt gerst óvart. Það segir meira en mörg orð. Hann bar ábyrgð á efnahagsstjórninni og þjóðarskútan strandaði á hans vakt. Bjöllurnar glumdu. Strandið var fyrirsjáanlegt en Geir stóð ekki undir því að fyrirbyggja það. Hann á að iðrast með því að stíga til hliðar og hleypa varaformanni sínum að. Þorgerður Katrín ber litla sem enga ábyrgð á strandinu.

Þjóðin mun ekki láta það viðgangast að þeir sem ábyrgð bera viðurkenni ekki mistök sín. Þeir verða að iðrast með því að stíga til hliðar og endurnýja traustið. Það getur ekki beðið.

Heiðarleiki og iðrun í verki mun sætta þjóðina
Við höfum siglt áfram í tilraunaeldhúsi Sjálfstæðisflokksins frá því að krónan var sett óvarin á flot árið 2001. Það eru leiðtogar hans sem borið hafa stefnuna uppi. Þeir höfðu ekki nægjanlegt eftirlit með tilrauninni. Trúðu blint á hana. Seðlabankinn hækkaði endalaust stýrivexti þó það hefði engin áhrif, nema þveröfug. Blint var haldið áfram með peningamálastefnu sem virkaði ekki. Þar liggja stór mistök. Boðberarnir, Geir H. Haarde og Davíð Oddsson, verða að víkja. Þetta veit Geir og því lætur hann Davíð sitja áfram. Geir er sjálfum ekki sætt láti hann Davíð fara.

Geir hugsar meira um eigin virðingu og eigin ráðherrastól en hagsmuni þjóðar og Sjálfstæðisflokks. Hann virðist ekki gera sér grein fyrir því að með því að viðurkenna mistök sín, koma heiðarlega og hrokalaust fram, þá mun virðing hans aukast. Stígi hann til hliðar hverfa spjótin af flokknum og flokkurinn mun dafna í formennsku Þorgerðar Katrínar. Stígi hann til hliðar mun krafan um kosningar hverfa. Þar sem að nú starfar í raun þjóðstjórn er heillavænlegast er að flokkarnir leysi úr þessu í eigin röðum fremur en að ganga til kosninga.

Axlið ábyrgð með því að viðurkenna að mistök voru gerð. Sýnið í verki að þið iðrist. Greinið okkur síðan frá mistökunum svo við megum læra af þeim. Þannig hjálpið þið til. Þannig eykst virðing ykkar á ný.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *