Framganga veitir virðingu en ekki stólar


Forseti vor blés óvænt til þjóðhátíðar nú í lok ágústmánaðar enda var tilefnið ærið. Forsætisráðherra ásamt borgarstjóra tók strax til handa við skipulagningu á glæstri móttöku. Hátíðin var til heiðurs þjóðhetjum okkar sem voru að koma heim eftir frægðarför úr hinu mikla Kínaveldi. Hetjurnar okkar höfðu brotið lögmál heimsins og vakið athygli um allan heim. Þjóðin mætti til móttöku á Arnarhóli.

Þessar staðreyndir eru það sem í hnotskurn gerðist eftir að handboltalandslið okkar „sigraði“ Ólympíuleikana í Peking með því að hampa silfur verðlaunum að loknum úrslitaleik handboltakeppninnar. Hver þjóð getur verið stolt af því að geta státað af slíkum staðreyndum. Þessar staðreyndir lýsa þjóðinni sem heilbrigðri heild og eru þær mjög hollar fyrir sál þjóðarinnar. Sigurinn var handboltaliðsins en samtakamáttur þjóðarinnar gerði sigurinn að sigri þjóðarinnar.

Virðing fylgir ekki titlum
Nú verð ég að bakka aðeins úr sögufölsun minni. Vissulega mun sagan muna atburðina í ágúst á þennan fallega hátt. Sannleikurinn er sá að nokkur púsl vantaði í myndina. Stór meirihluti þjóðarinnar upplifði þjóðhátíð, en víða varð vart um hroll sem kenndur er við kjána.

Það eru leiðtogar þjóðarinnar sem eru ávallt í fararbroddi í þjóðhátíðarhöldum. Leiðtogarnir eru sameiningartákn þjóðarinnar og minna okkur á gæði lands og þjóðar. Leiðtogarnir þurfa að koma fram að trúverðugleika og hafa sannarlega umboð þjóðar sinnar. Séu leiðtogarnir uppfullir af sjálfum sér og koma ekki fram að hógværð þá myndast ekki tengsl við þjóðina. Það vakti kjánahroll hjá þjóðinni þegar fólk í leiðtogastöðu reyndi að koma fram sem sameiningartákn.

Sjálfur forsætisráðherra gat ekki séð sér fært að mæta á þjóðhátíð þjóðar sinnar. Sendur var staðgengill sem ekki hafði fas þjóðarleiðtoga. Hún var upptekin af litlu sigrunum, sínum eigin og einstaklinganna. Starfandi forsætisráðherra baðaði sig í sviðsljósi því sem hetjurnar okkar fengu og lét í ljós dýrkun sína á hetjunum okkar. Starfandi forsætisráðherra á að vita að það er þjóðin sem skiptir máli. Hetjurnar okkar voru að vinna sigra fyrir þjóðina.

Maðurinn sem hafði hvað mestan rétt á að vera upptekinn að eigin afreki og sjálfsdýrkun kom fram að hógværð og sem sendiboði þjóðar. Hjartað hans var hjá þjóðinni og hann minnti okkur á gæði lands og þjóðar, minnti okkur á að vera þakklát fyrir að hafa fæðst inn í þessa þjóð. Ólafur Stefánsson steig fram sem leiðtogi og sameiningartákn þjóðarinnar. Hann vann sér inn virðingu og traust þjóðar sinnar með sinni framgöngu og hógværð.

Starfandi forsætisráðherra og borgarstjóri mánaðarins hafa ekki fas leiðtoga þjóðar. Mikið vantar upp á hógværðina og þakklæti. Þjóðin upplifði ferð íþróttamálaráðherra til Kína sem hennar eigin skemmtiferð en ekki ferð fulltrúa þjóðar okkar. Enda var forseti þjóðarinnar á staðnum sem fulltrúi okkar. Frekari fulltrúa þarf ekki. Þá sýndi íþróttamálaráðherra landsliði sínu ekki virðingu með því að yfirgefa Kína á meðan leikar stóðu hæst og liðið enn með í keppni. Þar sem hún ákvað að fresta ekki heimför þá átti hún engan rétt á því að ferðast aftur út fyrir skattfé þjóðarinnar. Þá vantar mikið upp á að borgarstjóri mánaðarins hafi virðingu borgarbúa enda hafa þeir ekki þá tilfinningu að hagsmunir þeirra hafi verið í fyrirrúmi á þessu kjörtímabili. Hagsmunir stjórnmálaflokka hafa verið efstir á blaði í borgarstjórn Reykjavíkur.

Stjórnmálamenn verða að vinna virðingu sína til baka
Í dag eru það íþróttamenn sem leiða þjóðina áfram í gegnum niðursveiflu efnahagslífsins. Krakkar leika sér nú í handbolta og apa eftir fyrirmyndum sínum. Vanti fullorðna fólkinu innblástur og lífskjark hugsar það til þess þegar lögmál heimsins voru brotin í Peking. Þjóðin hefur tekið íþróttamenn framyfir fjármálamenn og stjórnmálamenn. Framganga stjórnmálamanna að undanförnu hefur gert það að verkum að þjóðin fær kjánahroll þegar stjórnmálamennirnir koma fram úr fylgsnum sínum til að njóta góðs af sviðsljósinu. Það er ekki hógvær framkoma af ríkisvaldinu að troða sem flestum ráðherrum úr ríkisstjórninni á svið til þess að taka í hönd þjóðhetjanna fyrir hönd þjóðarinnar. Til þess þarf aðeins einn fulltrúa, forsetann – og kannski forsætisráðherra, sé hann á svæðinu.

Mikið hefur vantað upp á að leiðtogar þjóðarinnar hafi komið fram að festu og öryggi í niðursveiflunni sem nú á sér stað. Það er ekki trúverðugt að þakka sér uppganginn og fría sig svo ábyrgð á niðursveiflunni. Þjóðin sýnir það í skoðanakönnunum að traustið til ráðandi afla síðustu áratuga í stjórnmálum fer minnkandi.

Það er verkefni stjórnmálamanna nú að koma fram sem fulltrúar okkar og lýsa okkur leið í gegnum erfiða mánuði. Sannfærið þjóðina um að unnið sé öllum stundum í leit lausna fyrir hagkerfið og gjaldmiðil okkar. Sýnið að þið séuð að vinna fyrir fólkið en ekki fyrir því að verða næsti borgarstjóri mánaðarins. Það þarf að lyfta virðingu fyrir stjórnmálum upp á stall á ný. Borgarstjóri á að vera leiðtogi borgarbúa. Slíkir leiðtogar hafa ekki verið síðan Davíð Oddsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fóru úr stóli borgarstjóra. Síðan þá muna fáir hvað borgarstjórinn heitir.

Okkar kjörnu „leiðtogar“ þurfa sýna af sér framgöngu og leiða okkur í því að breyta heiminum og vera best. Það dugir ekki bara að setjast í stólana.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *