Minning: Íslenska krónan

Hún var mér kær. Hún var mér allt. Við áttum saman góðar stundir. Hún færði mér mínar veraldlegu eigur. Hún færði mér hamingju. Hún færði mér áhyggjur. Hún gaf mér lausan tauminn. Hún refsaði. Hún var mér kær. Hún var mér allt.

Ég var ekki gamall þegar þú komst fyrst inn í mitt líf. Góðviljaðir ættingjar tryggðu að okkar samband hófst í árdaga lífs míns. Á meðan við lærðum að treysta á hvort annað var þér haldið í fjarlægð frá mér í. Aðskilin uxum við úr grasi en bæði þó í öruggum höndum. Þegar rétti tíminn var kominn þá hófum við samband okkar. Ég gerði allt til að sjá þig vaxa en alltaf var tóm til að lifa lífinu. Jafnvel svo kröftuglega að þú fórst alveg í mínus. Reisti ég þig ávallt við.

Veikindin, sveiflurnar og misnotkunin
Svo veiktist hún. Sama hvað ég gerði til að sjá hana vaxa þá náðum við aldrei sömu hæðum. Hún óx sem aldrei fyrr en það var eins og hún væri veik á sál. Það var ekki sama reisn yfir henni. Það sem hún fór áður létt með var nú mun erfiðara. Það tók meira á að lifa lífinu og erfiðara varð að reisa hana í sama styrk. Ég þurfti að leggja meira á mig til að við gætum haft það jafn gott.

Geðsveiflurnar byrjuðu í kringum aldamótin. Hún losnaði undan böndum foreldra sinna. Hún átti erfitt með að fóta sig en foreldrarnir hjálpuðu henni fyrst um sinn. Þau hresstu hana við þegar hún tók sínar lægðir. En það hafði engin áhrif, nema til skamms tíma. Stuðningur foreldranna var duglítill og því í raun bara frestun á lægðinni djúpu. Foreldrarnir drógu sig í hlé og hleyptu henni út í lífið. Áreitið var gríðarlegt. Hún fékk aukinn áhuga hjá aðilum sem ekki höfðu litið við henni áður. Hún var nógu saklaust fórnarlamb. Því miður var hún misnotuð. Hún gat engar bjargir sér veitt.

Hún var örmagna. Það var þó reynt að hjálpa henni. Hún treysti ráðum þeirra sem komu til hennar í búningi lækna. Hún fékk dugmiklar sprautur. Hún lifnaði við. Fann sína fyrri reisn. En dalurinn sem á eftir kom var dýpri. Hún var orðinn fíkill. Bað um fleiri og fleiri sprautur. Í ráðleysi sínu gáfu læknarnir henni fleiri sprautur. Að lokum eina stóra sem fannst austur á landi.

Fíkillinn, endalokin og endurlífgunin
Reynt var að trappa hana niður eftir þessa stóru sprautu til þess að varna því að hún lenti aftur í dalnum. En það kom að því að hún sökk. Hún kom sér fyrir á grafarbakkanum. En það eina sem henni var boðið var önnur sprauta. Ein norður í landi og önnur á suðurnesjum. Sálartetrið þoldi ekki frekari vonbrigði. Hún féll í gröfina. Fallið var hratt. Lendingin var hörð. Fólk gat illa horft upp á hana í þessu ástandi. Það snéri baki við henni. Afneitaði henni. Hugur þeirra leitaði til staðgengla sem höfðu þrótt og reisn.

Vegferð frá árinu 1778 var lokið. Nánu sambandi hennar við heila þjóð var lokið. Hún var látin – blessunin.
Læknarnir gátu ekki horfst í augu við heiminn án hennar. Þeir hófu umdeilda endurlífgun. Uppvakningurinn tórir. En hún er veikari en nokkru sinni. Geðsveiflurnar eru óbærilegar.

Eftirsjáin kallar á skýringar
Það sorglega er að þetta þurfti ekki að fara svona. Foreldrarnir höfðu ekki kjark í sér að taka á vandamálum hennar. Þeir vissu hvað þurfti að gera. En afskipti í svona málum eru erfið. Léttara er að standa til hliðar og vona að vandamálin hverfi. Hún stóð á traustum grunni í foreldrahúsum þar til hún var sett á flot.

Foreldrarnir brugðust henni með því að treysta ekki undirstöður hennar er hún óx og styrktist. Læknarnir beittu úrræðum sem snéru meira að eigin hagsmunum frekar en að tryggja heilsu og langlífi hennar. Þeir gerðu hana veika fyrir. Þeir gerðu hana að skotspóni. Þeir gerðu hana að auðveldu fórnarlambi.
Auðvitað eigum við öll hlut að máli. Við horfðum upp á hana veslast upp. Við horfðum á aðgerðir læknanna og gáfum þeim nýja og nýja heimild til að halda áfram sömu aðferðum. Þegar hún svo loks féll á botninn þá ypptum við bara öxlum. Kröfðum ekki einu sinni læknanna svara. Létum þá bara halda áfram óhindrað. Við þekkjum það frá öðrum löndum að læknar sem verða uppvísir að slíkum læknamistökum fá ekki að starfa lengur.

Er þess virði að halda í hana ef við höfum enga stjórn á henni?
Getum við treyst sjálfum okkur fyrir nýju lífi hennar? Þessu nýja lífi bjóðast sömu úrræði og áður. Hún var í höndum aðila sem við treystum. Hafa þeir áunnið sér okkar traust aftur? Viljum við áfram horfa upp á læknana halda lífi í fíklinum sem engin meðferðarúrræði virka á? Eina meðferðarúrræðið sem er eftir er að setja hana í einangrun. Loka á frjáls samskipti hennar við erlenda aðila. Slíta öllum samningum við vini okkar í Evrópu. Væri kannski nær að leyfa henni að hvílast?

Leitum nú á vit annarra tækifæra. Finnum styrk annarsstaðar frá, þar sem stoðir eru styrkar og við losnum undan skottulækningum okkar lækna. Séu tækifærin ófær þá er nauðsyn að endurnýja læknaliðið og hreinsa útúr foreldrahúsum. Þá kannski tekst endurlífgunin.

Til að hugga okkur í sorginni þarf nú að sýna kjark til ákvarðanatöku og móta skýra stefnu til framtíðar. Oft er ljóst hvað þarf að gera en samt setið hjá. Það var vitað að það þurfti að treysta undirstöður hennar, en það var ekki gert í tæka tíð.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *