Launaleynd er lögbrot!

Fyrir nokkrum mánuðum fór fram umræða um launaleynd vegna væntanlegra jafnréttislaga. Það hefur minna farið fyrir því að ný jafnréttislög voru samþykkt þann 6. mars sl., þökk sé þeirri miklu félagshyggju ríkisstjórn sem nú er við völd. Sem mikill áhugamaður um upprætingu launaleyndar þá fagna ég sérstaklega 19. gr. þessara laga. :

Launajafnrétti.
Konum og körlum er starfa hjá sama atvinnurekanda skulu greidd jöfn laun og skulu njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf.  Með jöfnum launum er átt við að laun skulu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Skulu þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.  Starfsmönnum skal ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef þeir kjósa svo.


Feitletrunin er mín enda sjaldan verið jafn mikið tilefni til að feitletra! Þarna stendur mjög skýrt að tjáningarfrelsi okkar gagnvart launum er ekki lengur skert. Við höfum fullan rétt á því að greina hverjum sem er frá okkar eigin launum.
Þetta er fyrsta skrefið í átt að opnara og frjálsara þjóðfélagi þar sem launaleynd er óþekkt fyrirbæri. Launþegar eiga að sameinast um að uppræta launaleynd og krefjast þess að hún verði endanlega afnumin. Hér á eftir ætla ég að gera grein fyrir því hvers vegna það er óhæfa að vinnuveitendur geti krafið launafólk um að halda launum sínum leyndum.

Launaleynd er vopn vinnuveitenda
Launaleynd er brot á tjáningarfrelsi og skerðir einnig samningsstöðu fólks. Þá er launaleynd helsta orsök launamisréttis og kynbundins launamunar. Launaleynd er helsta vopn vinnuveitenda til að halda launum niðri.
Samningsstaða vinnuveitenda er mun betri en launafólks þegar einungis vinnuveitandinn veit laun allra í fyrirtækinu. Það eru því fyrst og fremst vinnuveitendur sem hagnast af launaleynd. Það lýsir sér best þegar einungis heyrist í þeim þegar rætt er um afnám launaleyndar, en ekkert heyrist í launþegum. Vinnuveitendur klikka aldrei á því að þykjast bera hagsmuni launþegans fyrir brjósti þegar þeir halda á lofti merkjum launaleyndar. Kúgaðir launþegar þora hins vegar lítið að malda í móinn gegn launaleynd enda heilaþvegnir af því að síðasta launasporslan hafi verið svo góð að það er ómögulegt annað en að halda henni leyndri.
Öll leynd skerðir frelsi. Leynd býr til tortryggni og óhrein pokahorn. Launaleynd getur búið til þrúgandi andrúmsloft á vinnustöðum. Þegar laun hætta að vera feimnismál og við förum að tala opinskátt um þau þá mun frelsi okkar aukast. Þegar launaleyndin hverfur úr okkar samfélagi þá verða laun hvers og eins betur rökstudd og þá munu sömu laun verða greidd fyrir sömu störf, sömu afköst og sömu fórnir.

Laun eru ekki einkamál
Það er ekki þitt einkamál hvað fyrirtæki greiðir þér í laun. Það er mál allra starfsmanna fyrirtækisins, eigenda fyrirtækisins og viðskiptavina fyrirtækisins. Það verður alltaf að vera hægt að réttlæta upphæð þinna launa. Ef launin þín eru réttlát þá er ekkert að því að opinbera launin.
Það er hins vegar iðulega þannig að vinnuveitendur hafa eitthvað að fela varðandi launagreiðslur. Það er oft á tíðum ekki til rökstuðningur, sem heldur vatni, fyrir launum hvers og eins.  Launaleyndin er ein aðalástæðan fyrir kynbundnum launamun.

Fyrsta skrefið stigið – hvað með þau næstu?
Við verðum að afnema launaleynd.  Fyrsta skrefið hefur verið stigið með þeim nýja lagabókstaf sem vitnað var í hér að ofan. Slíkur lagabókstafur hlýtur að taka yfir alla núgildandi launasamninga sem kunna að innihalda launaleynd. Þannig að ef launþegar sjá sér hag í því að tjá einhverjum hvað hann hefur í laun þá á hann óhræddur að geta gert það. Þá ættu launþegar einnig að geta kært vinnuveitendur sína ef þeir krefjast launaleyndar.
Birting launa er flóknara mál og minna réttlætis mál.  Ef að laun yrðu gerð alveg opinber þá yrðu launaákvarðanir gegnsæjar og byggðar á rökum.  Þá yrði hægt að setja í raunverulega framkvæmd árangurstengd laun.  Slíkt fyrirkomulag getur aukið á metnað launafólks – fremur en að það hafi metnað til að pota sér áfram upp launastigann í leynd.
Svo mætti spyrja sig hvort það væri ekki eðlilegt að svo hár útgjaldaliður sem launakostnaður fyrirtækja er, sé ekki sundurliðaður í ársreikningum.  Laun eru jú ekkert einkamál, eins og áður segir.  Þau eru mál allra sem tengjast fyrirtækinu – og þá í raun mál þjóðfélagsins í heild.
Það verður áhugavert að fylgjast með því hvaða áhrif þessi nýi lagabókstafur hefur. En við verðum að halda augum okkur áfram opnum og tryggja það að ný lög skili tilætluðum árangri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *