Er framtíð Íslands í ESB?

Er framtíð Íslands í ESB?

Ég hef ávallt verið efasemdamaður gagnvart inngöngu Íslands í ESB. Eftir að hafa verið rúmlega ár í flokki sem hefur ESB aðild á sinni stefnuskrá hef ég á mjög stuttum tíma færst mun nær ESB. Aðgangur að fræðslu, fundum og vel upplýstu fólki hefur aðeins sefað andstöðu mína við ESB. Ég er þó ekki sannfærður um að ESB sé rétta leiðin fyrir Ísland.

Lengi hef ég þó verið á þeirri skoðun að Ísland eigi að fara í viðræður við Evrópusambandið til að komast að því hvaða kostir eru raunverulega í stöðunni. Eins og staðan er í dag getur enginn sagt með 100% vissu að við eigum að ganga í ESB. Til þess að geta tekið afdráttarlausa afstöðu verður að vera til samningur til að taka afstöðu til. Það á að vera forgangsmál í íslenskum stjórnmálum að undirbúa aðildarviðræður og ná fram samningi. Þá verður hægt að setja samninginn undir þjóðaratkvæðagreiðslu og við getum þá loks tekið afstöðu.

Það hefur tafið mjög fyrir vitrænni umræðu um ESB að stjórnmálaflokkar landsins segja ESB ekki vera á dagskrá. Þjóðfélagið allt hefur sett ESB á dagskrá. Stjórnmálamennirnir skýla sig á bakvið síðustu kosningar, þar sem ESB var ekki kosningamál. Ég verð því að taka undir hugmyndir um þjóðaratkvæðagreiðslu um að hefja aðildarviðræður. Það virðist vera eina leiðin fyrir okkur til að koma þeim skilaboðum til stjórnmálamannanna að ESB er á dagskrá.

Rök sem fylgjendur ESB ættu að forðast
En af hverju ættum við að ganga í ESB? Háværar raddir eru um að ESB muni færa okkur lægra matvöruverð, lægri vexti, afnám tolla og nothæfan gjaldmiðil. Ég hef blásið á öll þessi rök. ESB er ekki skyndilausn á okkar eigin vandamálum. Með styrkri efnahagsstjórn þá getum við leyst þessi vandamál sjálf og hefðum auðvitað átt að koma í veg fyrir þau í upphafi. Það er alfarið okkar ákvörðun að halda uppi tollum. Við getum afnumið þá sjálf án þess að ganga í ESB. Við getum stjórnað efnahagsmálum þannig að vaxtastigið sé í lagi. Efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var með slíkum hætti að krónunni var ýtt á grafarbakkann og var hún hálfpartinn dottin ofan í gröfina er hún hrundi um daginn. Það var enginn að tala um að krónan væri ónýtur gjaldmiðill fyrir nokkrum árum. Það eru háir stýrivextir og vaxtamunurinn sem hefur gert það að verkum að krónan er orðin að spilapeningum fjárfesta úti í heimi. Ef ríkisstjórnin hefði ekki þanið efnahaginn með ótrúlegum framkvæmdum, eins og við Kárahnjúka, þá væru vextir hér lægri og krónan stæði fyrir sínu.

Þá hef ég líka blásið á þau rök að við verðum að ganga í ESB til að geta haft áhrif á þá löggjöf sem við verðum að samþykkja. Við getum vel haft áhrif í gegnum EES. Við höfum ekki nýtt okkur öll þau tækifæri til að koma skilaboðum á framfæri í gegnum EES. Og úr því að við höfum ekki nýtt öll tækifæri þar þá efast ég um að við höfum bolmagn í það að nýta öll tækifæri til áhrifa innan ESB ef við göngum inn í það. Það verður líka þannig að þegar við erum komin í ESB og förum að berjast fyrir okkar málum þá þurfum við að vinna fleiri á okkar band og atkvæðin sem við verðum að tryggja eru það mörg að okkar fáu íslensku atkvæði munu ekki skipta máli í lokin. Við getum alveg eins verið í gangapoti í Brussel verandi þjóð í EES.

ESB er efnahagsbandalag
esbviti.jpgAð undanförnu hef ég fræðst meira um ESB og fundið ýmsa jákvæðar hliðar sem hafa dregið mig nær ESB. Í umræðunni verðum við að berjast með rökum sem halda en ekki með þeim loftbólum sem ég hef hér rakið. Ég ætla að rekja hér hvers vegna ég tel að við eigum mögulega samleið með ESB í framtíðinni. Og ég vona að þessi rök mín muni ekki reynast vera loftbólur.
ESB er efnahagsbandalag með pólitískum markmiðum. Þessi staðreynd snéri mér um langan veg. Mín sýn á ESB var að það væri pólitískt bandalag með m.a. efnahagslegum markmiðum. ESB er samband ríkja en ekki ríkjasamband. ESB verður aldrei eitt ríki eins og Bandaríkin. Tilraunir í þá átt hafa mistekist. Hefur meira að segja verið þróun í gangi sem hefur styrkt landsþing ríkjanna. ESB snýst um að búa til einn sameiginlegan markað til viðskipta og atvinnu. Til þess að svo megi vera verður löggjöf á þessum sviðum að vera sú sama í öllum ríkjunum og þess vegna verðum við að samþykkja lög sem koma frá ESB. Miklir hagsmunir fylgja því að tilheyra svo stórum markaði þar sem mismunandi lög og reglur hamla ekki viðskiptum.

Ísland er hluti af þessum stóra markaði með EES samningnum. En til þess að gerast að fullu aðilar að ESB verðum við að taka inn landbúnaðinn, sjávarútveginn og utanríkisviðskipti. Deilan um ESB umfram EES snýst í raun bara um þessa þrjá hluti. Enda eru þeir mjög svo veigamiklir. Eins og staða landbúnaðarkerfisins er nú ættum við að stökkva fagnandi inn í landbúnaðarkerfi ESB. Við erum meira að segja svo norðarlega að við fáum aukna landbúnaðarstyrki. Við getum vissulega lagfært okkar landbúnaðarkerfi á eigin spýtur en stjórnmálamennirnir okkar virðast ekki treysta sér í það verkefni. Utanríkisviðskiptin eru ekki stórmál. Við getum vissulega ekki gert viðskiptasamninga við önnur lönd á eigin spýtur en þeir viðskiptasamningar sem ESB nær fram hljóta að vera mun betri þar sem ESB er með 35% af heimsmarkaðinum. Sjávarútvegsmálin skipta öllu máli. Ljóst er að við förum ekki í ESB nema með varanlegum undanþágum varðandi sjávarútveginn. Hörðustu ESB fylgjendur gera sér fulla grein fyrir því. Þess vegna er svo mikilvægt að fara út og sjá hvaða samningum við náum fram. Og, jú, það er hægt að fá varanlegar undanþágur við inngöngu í ESB. Samningur hvers ríkis við ESB er klæðskerasaumaður.

Rök sem andstæðingar ESB ættu að forðast
antiesb.pngAð öllu þessu sögðu þá sé ég enga sérstaka ástæðu fyrir því að við ættum að standa fyrir utan ESB og halda áfram að vera bara í EES. Ég blæs líka á ýmis rök andstæðinga ESB. Það að við séum að tapa fullveldi okkar með inngöngu í ESB er kolrangt. Það sem breytist er að þessir þrír fyrrnefndu þættir verða hluti að samningnum og við munum mögulega hafa meiri áhrif á þá lagasetningu sem við þurfum að samþykkja. Ef eitthvað er þá mun innganga inn í ESB styrkja fullveldi okkar, miðað við þá valdleysu sem fylgir EES. Þá sé ég ekki að við munum græða meira á því að halda okkar rétti til að gera viðskiptasamninga við önnur ríki þar sem ESB er í mun sterkari samningsstöðu til slíkra samninga. Þá hljótum við að græða meira á því að vera fullgildur hluti af hinum stóra ESB markaði heldur en af sérstökum viðskiptasamningum við önnur lönd.

Efnahagskerfið okkar er fíkill sem þarfnast varanlegrar meðferðar
Ég hræðist mjög þá niðurstöðu sem ég er sífellt að færast nær. Það tekur á að skipta um skoðun. En ég er opinn fyrir frekari umræðu sem mun vonandi verða til þess að ég geti tekið harðari afstöðu. Það tekur á að viðurkenna að kannski er okkur betur borgið í samstarfi við ESB. Kannski getum við ekki treyst okkar stjórnmálamönnum til að halda rétt á spilunum. Þeir hafa fengið mörg tækifæri en virðast nú hafa klúðrað efnahagsmálunum heldur betur. Kannski erum við einfaldlega of lítil. Kannski er okkar litli markaður of lítill í nútíma viðskiptaheimi til þess að geta rekið eigin gjaldmiðil. Breytingar á genginu er að koma of hratt fram í vöruverði, vextirnir eru allt of háir og gengið sveiflast um of. Kannski er það of dýrt fyrir okkur að efnahagur okkar ráðist af misvitrum rekstri ríkissjóðs. Kannski er betra að vera með stöðugan gjaldmiðil, losna við flöktið, en takast þá frekar á við lengri efnahagslægðir. Eitt er víst að við þolum ekki lengur skottulækningar íslenskra stjórnmálamanna sem gefa hagkerfinu nýja sprautu í sífellu þegar timburmennirnir gera vart við sig. Íslenska hagkerfið er orðið fíkill.

Þessa dagana er ég frekar á því að framtíð Íslands sé í ESB. Um leið og við tökum skýra stefnu um að við ætlum í ESB og ætlum að taka upp Evru þá mun hagkerfið taka mið af því og slík stefna um hjálpa okkur upp úr þessum öldudal. Þegar upp úr honum er komið munum við sjá fram á agaðra hagkerfi sem mun ekki leyfa okkur að gera alvarleg hagstjórnarmistök, eins og t.d. að byggja Kárahnjúkavirkjun. En einhvern veginn stendur það mjög í mér að það að fara í ESB sé yfirlýsing um það að við treystum okkur ekki sjálf til þess að stjórna eigin hagkerfi. Ég þarf að kyngja ákveðnu stolti – en kannski er þetta stolt byggt á röngum forsendum.

Niðurstaða: Kannski.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *