Stefnulausar pólitískar samgöngur

Samgöngur eru fámennri þjóð á hinu stóra Íslandi mjög mikilvægar. Skýr stefna í samgöngumálum er því mikilvæg fyrir lífsgæði fólksins í landinu. Nauðsynlegt er að tryggja málaflokknum nægjanlegt fjármagn til þess að geta framfylgt stefnunni.

Samgöngumál hafa þá sérstöðu að hvert verkefni kallar á mikla fjárfestingu og ekki fer framhjá neinum hvaða verkefni fá fjármagn hverju sinni. Það myndast því mikil togstreita milli hagsmunahópa um hvaða verkefni skuli fá forgang. Annað gildir um t.d heilbrigðismál og menntamál þar sem verkefnin eru ekki eins áþreifanleg og verður því skipting fjármagnsins að minna deilumáli. Hagsmunahóparnir eru fjölmargir en skiptast þó mjög oft upp í landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið.

Á landsbyggðinni eru góðar samgöngur nauðsynlegar til þess að tryggja grundvöll byggðar. Á höfuðborgarsvæðinu eru góðar samgöngur nauðsynlegar til að tryggja lífsgæði á svæðinu. Landbyggðin þarf að geta komist til og frá sinni heimabyggð en höfuðborgarbúar þurfa að geta komist á milli borgarhverfa án þess að þurfa að eyða til þess drjúgum tíma dagsins eða að þurfa að óttast heilsutjón vegna mengunar. Auðvitað er þetta ekki svona klippt og skorið því þessir hagsmunahópar hafa einnig ýmsa sameiginlega hagsmuni eins og öryggi en þarna er þó þessi megin munur til staðar.

Baráttan um bitlingana
Þegar tveir hagsmunahópar berjast um fjármagn til verkefna í sinna þágu verður ávallt annar hópurinn ofan á. Jafnvel þó að verkefni þess hagsmunahóps sem lendir undir teljast einnig mikilvæg þá vill það dragast of mikið á langinn að þau verkefni komist að vegna þess að verkefni í þágu hins hagsmunahópsins virðast ávallt vera mikilvægari. Það leynistvbill.JPG engum að landsbyggðin hefur fengið til sín fleiri verkefni en höfuðborgarsvæðið. Það er líka nokkuð ljóst að hagsmunir landsbyggðarinnar vega mjög þungt á meðan hagsmunir höfuðborgarsvæðisins virðast léttvægari. En þegar einn hagsmunahópurinn situr ávallt eftir safnast vandamálin upp og verða skyndilega ekki eins léttvæg. Það hefur gerst á höfuðborgarsvæðinu þar sem vegakerfið er löngu sprungið og ákveðnar framkvæmdir hafa þurft að bíða vegna pólitískra átaka.

Pólitík hefur ráðið um of í samgöngumálum Íslendinga. Gæði samgangna á hverjum stað hafa ráðist af því hversu duglegir þingmenn hvers staðar hafa verið í því að tala fyrir verkefnum í heimabyggð. Þá hafa þingmenn á höfuðborgarsvæðinu ekki barist nægjanlega mikið fyrir verkefnum á höfuðborgarsvæðinu, m.a. vegna þess að ekki telst góð lenska í stjórnmálaflokkum að gera nokkuð sem skerðir hlut landsbyggðarinnar. Sem Reykvíkingur hefur mér fundist sorglegt hversu linir þingmenn Reykvíkinga hafa verið og hversu illa borgarstjórn hefur haldið á samgöngumálum borgarinnar. Ég hvet því alla þingmenn höfuðborgarsvæðisins til að efla eigin hagsmunahóp, taka upp öll einkenni minnihlutahóps, láta í sér heyra og ekki taka í sífellu tillit til landsbyggðarinnar!

Stefna í samgöngumálum óskast
Eða hvað? Vil ég halda áfram þessu pólitíska karpi. Er þetta ástand sem ég hef hér lýst eðlilegt? Með því að vera sífellt að forgangsraða og veiða verkefni úr biðröð þá leysast eingöngu einangruð vandamál sem eru vís til að búa til vandamál annarsstaðar. Við þurfum á heildarstefnu í samgöngumálum að halda. Samgönguáætlanir sem snúa að því að forgangsraða verkefnum duga ekki til. Við þurfum að skilgreina hver gæði samgangna á höfuðborgarsvæði og landsbyggð eiga að vera. Stefna er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir að farið verði út í framkvæmdir sem eiga svo enga framtíð fyrir sér. Hef ég í þessu sambandi áhyggjur af fyrirhugaðri samgöngumiðstöð í Vatnsmýri.

Landsbyggðin verður að búa við öruggar og greiðar samgöngur frá heimabyggð að næsta höfuðstað og til höfuðborgarinnar. Bjóða þarf upp á örugga og breiða vegi sem þola hina gríðarlegu auknu bílaumferð og aukna ófrávíkjandi þungaflutninga. Sé því haldið fram að ekki sé hægt að koma slíkum samgöngum við á ákveðnum stöðum er það dauðadómur fyrir byggðina. Tímarnir eru breyttir og þær samgöngur sem dugðu áður eru ófullnægjandi nú. Það er ljóst að auka þarf fjármagn til samgangna á landsbyggðinni. Leita þarf allra leiða til þess að ná í slíkt fjármagn því allar leiðir sem gefa byggðum von eru góðar. Þó ber að varast að skattleggja ekki landsbyggðina um of með vegagjöldum.

Höfuðborgarsvæðið getur ekki lengur búið við stefnuleysi í samgöngum. Horfa þarf á svæðið sem eina heild og marka stefnu fyrir það. Ákveða þarf hvernig samgöngur eiga að virka á svæðinu. Huga þarf að gangandi vegfarendum og hjólreiðafólki. Tryggja þarf að almenningssamgöngur séu góðar þannig að til sé annar valkostur við einkabílinn. Tryggja þarf að stofnbrautir séu skipulagðar þannig að þær þoli áætlaðan umferðarþunga og tryggja þarf leiðir til þess að umferðaþungi fari ekki yfir fram úr áætlunum. Tryggja þarf að uppbygging nýrra hverfa leiði ekki til nýrra umferðahnúta. Þá þarf skipulag íbúabyggðar að vera þannig að vegalengdir verði ekki of miklar. Það er mikilvægt fyrir líf Reykjavíkur sem borgar að tryggja almenningssamgöngur og byggja meira miðsvæðið með byggð í Vatnsmýri.

Uppúr skotgröfunum
Nauðsynlegt er að draga úr pólitískum áhrifum á ákvarðanir um einstaka framkvæmdir. Vinna þarf stefnu sem hentar þjóðfélagi þar sem samgöngur eru stór hluti af lífskjörum. Það er ekki alltaf hægt að velja framkvæmdir eftir hagkvæmni. Allar framkvæmdir sem eru til þess gerðar að taka skref í átt að ákveðnu marki eru ekki endilega alltaf hagkvæmar einar og sér.

Þá er mikilvægt að huga að gæðum en ekki alltaf einungis kostnaði. Það þarf t.d. ekki endilega að vera frítt í strætó. Sé þjónusta strætisvagna góð þá er fólk tilbúið að borga fyrir þjónustuna. Það að bætir ekki lélega þjónustu að bjóða hana gjaldfrjálsa. Það er enginn gróði af því að byggja ódýra vegi ef þeir verða ófærir vegna þess að þeir þola ekki þunga umferðarinnar og valda jafnvel slysum. Gerum ráð fyrir framtíðinni og hugsum langt fram í tímann. Mörkum okkur stefnu og fylgjum henni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *