Einkavæðing bankanna

Umræða um einkavæðingu bankanna skaut upp kollinum í dag eftir þáttinn Silfur Egils. Egill átti þar gott spjall við Þorvald Gylfason – en hann hef ég metið mikils síðustu árin.

Hér var farið allt of hratt þegar bankarnir voru einkavæddir. Það fór ekki framhjá neinum. Lagaumhverfið var ekki tilbúið og bankarnir voru seldir á gjafaverði til sérvalinna aðila sem voru ríkisstjórn þóknanlegir. Einnig hafa stjórnmálamenn lýst því yfir að þeim hefði ekki órað fyrir því hversu mikið bankarnir myndu stækka. Sem þýðir að stjórnmálamennirnir gerðu sér ekki nokkra grein fyrir því hvað einkavæðingin myndi gera fyrir hag bankanna. Stjórnmálamennirnir voru bara heppnir að stjórn bankanna hefur verið svona góð.

Það er ekkert nýtt í þessu sem fram kom í dag. Einkavæðingin hefur ekki skilað þeirri samkeppni sem ætlað var. Einnig hefur lengi verið vitað að gjaldmiðillinn er of hár þröskuldur fyrir erlenda banka að stíga yfir til þess eins að koma sér inn á hinn litla íslenska markað. En nú er kannski að birta til með nýjum viðskiptaráðherra sem ætlar að taka neytendamálin í gegn.

Fyrir nánast sléttum 5 árum ritaði ég um þessi mál og stenst textinn vel tímans tönn – þó að ég mundi eflaust breyta nokkrum línum ef ég væri að skrifa þetta í dag. Textinn birtist hér að neðan:

Hvert er raunverulega verið að stefna með einkavæðingu?

Einkavæðing stefnir að hagræðingu, auknu einstaklingsfrelsi, afnemun einokunar og aukinni samkeppni. Stefnt er að minni afskiptum rikisins af fyrirtækjarekstri og öllu sem við kemur almennum markaði. Ríkið á ekki heima þar sem lögmál um markað og eftirspurn ríkir.

Einkavæðing snýst um endurskoðun á hlutverki ríkisins á hverjum tíma. Það sem einu sinni hefur þótt eðlilegt að ríkið sjái um getur talist óeðlileg ríkisafskipti nú. Þessi endurskoðun getur orðið mjög umfangsmikil í landi eins og okkar sem er ungt lýðveldi og nýríkt. Ríkið tók að sér ýmis verkefni í upphafi þar sem einkaaðilar höfðu ekki bolmagn eða möguleika til að leggja í þau verkefni. Nú þegar þjóðin er orðin rík er tímabært að einkaðilar taki við þessum verkefnum.

En eins og umræðan hefur verið að undanförnu er eins og ríkið sé í megrunarátaki eins og stór hluti þjóðarinnar og keppist við að minnka umsvifin. Einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar virðist vera eitt alsherjar átak þar sem allt er selt sem hægt er að selja. Þetta á að sjálfsögðu að vera spurning um lífstíl þar sem jafnvæginu er viðhaldið og aðferðum leift að þróast. Það hefði sýnt ákveðinn þroska að staldra við eftir söluna á öðrum bankanum og bíða og sjá hvernig málin þróast áður en hinn er seldur. Það er ekki aftur snúið ef eitthvað mis siðferðilegt kemur upp.

Einkavæðingin getur snúist upp í andhverfu sína ef illa tekst til. Í svona litlu samfélagi sem okkar geta hlutirnir verið fljótir að gerast. Þegar allt er orðið í einkaeigu er enn meiri hætta á að bilið á milli fátækra og ríkra aukist enn meir. Þeir ríku eru ekki lengur hámenntaða fólkið eða mestu vinnuhestarnir, heldur þeir sem eiga fyrirtækin og lifa að mestu af arði fyrirtækja sinna.

Þannig samfélag einkennist af „survival of the fittest“ sem er mjög svo andstætt okkar samfélagi þar sem samheldni þjóðarinnar heldur henni saman og sést best á ögurstundum. Í okkar litla samfélagi getur það orðið svo að aðeins örfáir munu lifa af. Einkavæðingin (afnumun einokunar) leiðir nefnilega að meiri samkeppni og hún verður hörð á okkar litla markaði. Í mjög harðri samkeppni verður eitthvað að láta undan og fyrirtæki fara á hausinn eða sameinast. Þetta getur gert mjög hratt um leið og stórir aðilar myndast á markaði. Það leiðir til fákeppni eins og dæmi eru um.

Við höfum því gengið í hring en nú komin í heldur verri stöðu. Völdin sem áður voru hjá ríkinu, sem við gátum treyst og haft áhrif á, eru nú hjá einkaaðilum sem þjóðin getur lítið haft áhrif á. Einkaaðilar verða vissulega að fara að lögum en þegar ríkið hefur farið út í einkavæðingu og opnað fjármálamarkaðinn án þess að vera búið að setja góð samkeppnislög fyrirfram þá er lítið sem stoppar fyrirtækin.

Við þessar kringumstæður býr hinn almenni launþegi við mikinn óstöðugleika. Launþeginn er í stöðugri samkeppni við náungann og getur ekki verið öruggur með sína vinnu þar sem ekki er lengur mikið siðferðis mál að segja upp starfsmönnum svo lengi sem hagræðing hlýst af fyrir eigendur fyrirtækisins. Launþegi sem vann hjá ríkinu getur ekki lengur verið öruggur um næstu launagreiðslu og sá sem átti pening inn í ríkisbankanum þarf að hafa áhyggjur af því hvort eigendur bankans séu ábyrgðarfullir eða hvort bankinn verði allt í einu gjaldþrota vegna ævintýramanna við stjórn bankans.

Ég styð vissulega hina almennu hugmyndafræði um einkavæðingu en áður nefnd mál valda mér áhyggjum. Það getur verið álag á einstaklinginn að skipta svo snöggt í þjóðfélag sem byggir á öðrum lögmálum. Svona snögg breyting getur líka breytt samkeppni í fákeppni.

  2 comments for “Einkavæðing bankanna

  1. 29. október 2007 at 1:53

    Þorvaldur Gylfason er snillingur! Væri gaman að fá hann til okkar á fund einhvern daginn 🙂

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *