Ný tækni – nýr skattur


Gagnaveita Reykjavíkur hefur síðustu ár verið að byggja upp ljósleiðaranet sitt í Reykjavík. Á síðustu mánuðum hafa internetþjónustufyrirtæki og efnisveita, Digital Ísland, hafið sölu á þjónustu í gegnum ljósleiðarann. Einbeitti Gagnaveitan sér að lagningu ljósleiðara í Breiðholtinu nú í sumar. Hafa mörg heimili þar nú fengið bréf þess efnis að búið sé að tengja hús þeirra og nú bjóðist þeim að kostnaðarlausu að fá ljósleiðarann inn á heimilið.

Ljósleiðarinn er án nokkurs vafa framtíðin. Heimili ættu því að stökkva á ljósleiðarann um leið og hann býðst – sérstaklega þar sem uppsetningin er heimilunum að kostnaðarlausu. En það þarf að skoða alvarlega þann kostnað sem leggst á heimilin við það að skipta yfir í nýja tækni sem er að leysa af hólmi internet í gegnum símalínur og sjónvarp í gegnum loftnet.

Munur á verðlagningu á þjónustu gegnum ADSL og ljósleiðara
Það sem breytist með ljósleiðaratengingunni er að ekki er lengur borgað til sama aðilans fyrir flutningsleiðina og fyrir þjónustuna. Þegar greitt er fyrir internet í gegnum ADSL er í raun verið að borga annars vegar fyrir stafrænu símalínuna ásamt hraða og hins vegar fyrir sjálfa internetþjónustuna, t.d. gagnaflutninga. Þegar ADSL var að koma fyrst á markað var verðinu ávallt skipt upp í þessa tvennd (enda þurfti yfirleitt að kaupa línuna í gegnum Símann en svo var hægt að velja um internetþjónustuaðila). Þegar á leið var hætt að skipta upp þessum kostnaði m.a. til að einfalda fyrir neytendur.

Nú er að komast aftur á svipað kerfi. Flutningsleiðin er í eigu Gagnaveitunnar og þarf að borga 2.390 kr. mánaðarlega fyrir aðganginn að ljósleiðaranum. Síminn rukkaði 2.500 kr. fyrir ódýrustu ADSL línuna árið 2002. Greiðsla vegna flutningsleiðarinnar og jafnvel hraða ætti að fara til Gagnaveitunnar og greiðsla til internetþjónustufyrirtækjanna ætti aðgagnveita.jpg minnka um sömu upphæð, ef tekið er mið af verði á internetþjónustu í gegnum ADSL. Þetta er ekki reyndin. Verð á internetþjónustu yfir ljósleiðara eru mjög sambærileg við verð yfir ADSL (sem einnig innifela flutningsleiðina). Internetþjónustufyrirtækin þurfa að skýra sína verðlagningu á internetþjónustu í gegnum ljósleiðara. Þau þurfa að sýna fram á hvaða aukni kostnaður við ljósleiðarann kemur í stað kostnaðar við ADSL línuna.

Aukinn kostnaður heimila við að nýta ljósleiðara
Ef tekinn er saman kostnaður fyrir heimili við það að skipta úr ADSL yfir í ljósleiðara þá kemur í ljós að talsverður munur er á mánaðarlegum útgjöldum. Í samanburði er miðað við heimili þar sem internetnotkun er mikil og krafa gerð um ótakmarkað erlent niðurhal (sem er mjög algeng krafa þegar unglingar og námsfólk er á heimili).

Fyrir heimili sem er með ADSL hjá Vodafone kostar það að flytja sig yfir í sambærilega þjónustu yfir ljósleiðara 2.435 kr. aukalega á mánuði.
Fyrir heimili sem er með ADSL með heimasíma hjá Hive kostar það að flytja sig yfir í sambærilega þjónustu yfir ljósleiðara 1.400 kr. aukalega á mánuði.

Internetþjónustufyrirtækin gætu auðveldað heimilunum að skipta yfir á ljósleiðarann með því að bjóða upp á ódýrar ljósleiðaratengingar. Fólk sem er með 1Mb/s ADSL tengingu ætti að geta keypt 1Mb/s hraða í gegnum ljósleiðara, sem hlýtur að verðleggjast lægra en hraði upp á 10Mb/s. Internetþjónustufyrirtæki eiga ekki að neyða fólk til að kaupa bandvídd sem það hefur ekkert við að gera.

Verðlagning Gagnaveitu Reykjavíkur er einnig gagnrýniverð
Mánaðargjald Gagnaveitunnar er ansi hátt – sérstaklega miðað við að Gagnaveitan fær einnig greitt frá þeim fyrirtækjum sem bjóða þjónustu á ljósleiðaranum. Gagnaveitan er í opinberri eigu og ætti að bjóða nýja tækni á viðráðanlegu verði þannig að ekki ráðist af efnahag fólks hvort það geti nýtt sér nýja tækni sem án nokkurs vafa tekur alfarið við af interneti í gegnum símalínur og sjónvarpi í gegnum loftnet. Gagnaveitan hlýtur að hafa sömu markmið og Orkuveitan, þ.e. að bjóða borgarbúum upp á sem ódýrastar veitur og einnig að allir hafi jafnan aðgang að veitunum.

Gagnaveitan, sem beitir ofurverðlagningu, er nú að bjóða stórum hluta íbúa Reykjavíkur að fá fría uppsetningu á tengiboxi inn á heimili sitt. Reykvíkingar eru nýjungaglaðir og vilja vera í takt við tæknina. Án efa mun nokkuð stór hópur hoppa strax á þennan nýja ljósleiðara og þurfa því að borga auka skatt til borgarinnar. Reykjavíkurborg ætti á sjá sóma sinn í því að bjóða nýja tækni – stökkpall nýrra tækifæra fyrir heimilin – á sanngjörnu verði þannig að heimilin þurfi ekki að auka útgjöld sín til þess að vera í takti við nýja tækni.

Þetta stórt mál fyrir neytendur. Reykjavíkurborg hlýtur að geta lækkað sína gjaldtöku þar sem nýlega kom í ljós að Gagnaveitan er metin á fleiri, fleiri milljarða.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *