Hollandsför

Ég fór í mikla snilldarför til Hollands (og Belgíu) dagana 20.-27. ágúst. Var ákvörðun um þessa ferð tekin í skyndi og kom ég sjálfum mér nokkuð á óvart. Fékk ég flugið ódýrt með Iceland Express, en flugfélagið auglýsti ódýr sæti í lok ágúst. Bókaði ég því í snatri flug, hótel og hinar ýmsu ferðir í gegnum netið. Bókaði hótel gegnum booking.com – en þar virtust hótel í Hollandi vera hvað ódýrust – og túrista-ferðir í gegnum viator.com. Fékk ég ágætt veður, þó var heldur skýjað og nokkur rigning einn daginn. Loftið var þó alltaf hlýtt.

Hér eru myndir og ferðasaga þar á eftir.

Var ég fyrstu nóttina í Eindhoven en aðrar nætur í Amsterdam, þaðan sem ég hafði bókað mig í ansi margar túrista-ferðir. Hótelið var ágætt, Hotel Damrak, staðsett við eina af aðalgötum Amsterdam, Damrak, rétt við brautarstöðina. Einnig var ferðaskrifstofan sem sá um flestar ferðarnar við þessa sömu götu.

Iceland Express stóð sig bara ótrúlega vel í þetta skiptið – hef eiginlega alltaf lent í vandræðum þegar ég ferðast með þeim. Flugtíminn var vel innan við áætlun og fórum við fyrr í loftið frá Eindhoven en stóð til.

Fyrsta kvöldinu eyddi ég í Eindhoven. Þrátt fyrir mánudagskvöld var ágætt líf í bænum og var meira að segja blautbolakeppni á einum barnum. Kynningarvika var hjá nýnemum í skóla í bænum og því margir í bænum. Daginn eftir var lestin tekin til Amsterdam. Náði ég rétt svo í skoðunarferð um Amsterdam (og í demantaslípun), sem ég hafði bókað á netinu, því ég álpaðist til að ganga 20 mínútur í ranga átt í Eindhoven á leið minni á brautarstöðina. Einnig komst ég að því að mun betra er að vera með MasterCard og Maestro heldur en Visa. Var ég með MasterCard en debetkort frá Visa. Miðavélarnar á lestarstöðinni vildu ekki Visa kortið mitt þannig að ég varð gjörasvovel að bíða í biðröðum eftir miðaafgreiðslu. Reyndar var MasterCard kortið mitt ekki að gera mikla lukku. Virkaði fínt í hraðbönkum en virkaði alls ekki í posum sem heimtuðu lykilorð. Posarnir virtust ekki þekkja kortið. En það reddaðist þó á gamla háttinn – með því að slá inn númeri kortsins.

Alla morgna var vaknað snemma og étinn morgunverður á hótelinu sem var vart meira en bara næring – þurrar bollur með áleggi og morgunkorn. Étið var á skyndibitastöðum eins og McDonalds og KFC en oftast á Subway. McDonalds er nánast í hverri götu og jafnvel fleiri en einn staður í sömu götu. Burger King er inn á milli og örfáir KFC. Ég fann einn Subway og var hann í heldur löngu göngufæri, rétt hjá Rembrantplein.

Fyrsta ferðin frá Amsterdam var til Rotterdam og Haag. Reyndar var stoppað fyrst á blómauppboði í Aalsmeer – sá reyndar ekkert action, bara blóm. Keyrt var á vegi við vatnsborð á einu vatni hægra megin en vinstra megin var land og landið var lægra en vatnið. Á leiðinni til Haag var stoppað í Delft þar sem leirmunagerð var heimsótt, Delft Blue Pottery. Keypti ég öskubakka með handmálaðri mynd af vindmyllu. Miðbærinn í Delft er mjög kósý. Fékk mér þar hollenska pönnuköku. Í Haag var stoppað við „The Peace Palace“ og farið framhjá ansi mörgum sendiráðum. Haag er borg með ágætan karakter og um 700 opin svæði. Heimsótti þar Madurodam sem er lítið model-þorp með model-um af helstu byggingum Hollands. Sniðugt og mjög vel gert. Þegar ég kom til baka til Amsterdam fór ég í gönguferð með leiðsögn um rauða hverfið. Það er hverfi sem allir ættu að labba einu sinni í gegnum.

Á fimmtudeginum fór ég svo í ferð til Belgíu – Brussel og Antwerpen. Miðborgin í Antwerpen er falleg og keypti ég þar belgískt súkkulaði, Leonidas. Brussel fær plús fyrir að vera byggð á hæðum – ekki slétt – og sáust þar varla hjól. Einnig var upplífgandi að sjá hús í ljósari litum. Stóra torgið er fallegt og settist ég þar niður og las og drakk ljósan Leffe.

Föstudaginn byrjaði ég á því að fara á vaxmyndasafnið Madame Tussaud í Amsterdam. Rosalega vel gerðar vaxmyndir. Fór svo í smá ferð og sá vindmyllur, sá klossagerð og fór í ostagerð. Keypti ég þrjá góða hollenska osta. Þá var farið í tvö gömul sjávarþorp, Volendam og Marken. Var farið með bát þar á milli. Mjög falleg og friðsæl þorp með flottum smábátahöfnum. Eitt af því fallegasta sem ég sá í Hollandi.

Helginni eyddi ég í mikla yfirferð um Amsterdam. Heimsótti fullt af söfnum og sá marga skemmtilega hluti. Bara ef fólk legði jafn mikið í list sína nú á dögum og hér áður fyrr. Virðist sem fólk hafi gefið sér mun meiri tíma í sína listsköpun fyrr á öldum. Mánudagurinn fór í lestarferð til Eindhoven og smá slökun þar í miðbænum. Svo var flogið heim um kvöldið.

Holland er ósköp flatt og jafnvel leiðinlegt. Lítið á sjá þegar ferðast er um þjóðvegina. Ekkert nema hús og tré að sjá – og fólk á hjóli. Húsin öll í sama dökka litatóninum. Alveg makalaust hvað það eru til margir brúnir litir. Það er ekki einfalt mál að fara yfir götu. Gönguljósin eru jafnvel fjórföld og ganga ekki alltaf í takt. Fólk á hjóli virðist halda að það eigi allan heiminn. Það búa 16 milljónir í Hollandi og 18 milljón hjóla. 300 hjól skipta um eigendur á hverjum degi í Amsterdam. Hús í gamla bænum í Amsterdam eru öll mjög þröng – gjöld af húsum réðust af breidd húsa. Utan á hverju húsi er bóma með krók sem er notað til að flytja stærri hluti á milli hæða – inn um gluggana – því stigarnir eru svo þröngir. Húsin eru flest hlaðin en þó fyrirfinnst einstaka hús úr tré. Viðarhús voru bönnuð vegna brunahættu. Mjög mikið af fólki er á gangi á götum Amsterdam – af öllum þjóðernum – og mikill erill á lestarstöðinni. Þar er gaman að labba um í rólegheitum og láta stressaða fólkið fyrirlíta mig. Í ófá skipti sá ég andlit sem eru nauðalík öðrum andlitum sem ég hef séð um lífsleiðina. Það er á hreinu að allir eiga tvífara einhverstaðar. Ætli Evrópa sé öll að verða eins. Það vantar allan karakter í borgirnar. Litlaus hús og ekkert útsýni. Sömu lestarstöðvarnar, sömu búðirnar og hjólandi fólk út um allt. Reykjavík er einhvernveginn fjölbreyttari. Ég var þó ágætlega hrifinn af Brussel – og reyndar Haag – og flestum smærri bæjum.

  1 comment for “Hollandsför

  1. 6. september 2007 at 14:52

    Fín ferðalýsing, gott að vita þetta með krítarkortin.

    Takk Gulli

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *