Menningarnótt – Raggi Bjarna góður

Byrja á því að vekja athygli á magnaðri snilld frá Simma og Jóa en þeir sungu inn texta um Teit Þórðarson yfir lag Mika, Grace Kelly, en heitir nú Tate Kelly.

Gærdagurinn var alveg frábær. Hápunktarnir voru án efa : Veðrið, Maraþonið, frábær flugeldasýning ásamt upplýstum bátum, Raggi Bjarna, Megas, Mannakorn og Wally, að ógleymdum For a Minor Reflection.

Það er alltaf jafn gaman að sjá Ragga Bjarna koma fram. Hann er svo hress og taktarnir í honum eru óborganlegir, svo kunna allir textana. Hann klikkaði auðvitað á texta einu sinni enda hvatti hann alla til að syngja með, jafnvel þó fólk kynni ekki textann þá ætti það bara bulla því hann hefði gert það í marga áratugi og enginn tekið eftir því. Hann endaði á „vertu ekki að horfa svona alltaf á mig“. Hann dróg strákling upp á svið og lét hann syngja og drengurinn kunni bara allan textann og söng líka svona rosalega vel.

Einnig fannst mér mjög gaman að sjá Megas og Mannakorn. Náðist upp mikil stemning á Klambratúni og enduðu tónleikarnir svo sannarlega með hápunkti, annað en tónleikarnir hjá Kaupþingi. Það var mjög gaman að syngja og dilla sér með Mannakorni.

Svo var hinn klúri Wally, með tröppurnar sínar, alveg óborganlegur … líkt og í fyrra.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *