Launaleyndin og álagningaskrár

Þá er upprunninn sá dagur ársins sem álagningarskrár eru lagðar fram. Þá fær SUS líka sinn fasta tíma í fréttunum. SUS heldur gangandi lágværum mótmælum á hverju ári. Því miður hefur það ekki skilað neinu. Ég er sammála SUS um að birting á álagningartölum landsmanna sé óeðlileg því hún þjónar alls ekki sínum ætlaða tilgangi. Ég er hins vegar ekki sammála rökum ungs sjálfstæðisfólks um að þessi birting sé óhæfa vegna þess að laun séu einkamál hvers og eins.

Við erum öll hluti af sama samfélagi og laun okkar eiga upptök sín í þessu samfélagi. Það er ekki einkamál hvers og eins hvað hann er með í laun. Peningarnir koma úr samfélaginu og því er nauðsyn að launum sé stillt í hóf svo að launagreiðslur einhvers hóps sé ekki óþarfa baggi á öðrum launþegum sem eiga viðskipti við þann hóp.

Lykilatriðið í þessu er að leyndin býr til tortryggni og óhrein pokahorn. Það léttir á okkur öllum þegar leynd er aflétt af málum. Þá finnum við fyrir auknu frelsi. Þegar það hætti að vera feimnismál að ræða um kynferðislegt ofbeldi á börnum þá létti yfir mörgum og margir fengu frelsi. Þegar laun hætta að vera feimnismál og við tölum um þau eins og hvað annað þá mun frelsi okkar aukast.

SUS vill frelsi til að fela. Ég vil frelsi undan leyndinni.

Ég hef oft áður skrifað um launaleynd og leyfi ég mér að segja alltaf málefnalega. Ég hef tekið þær blogg-færslur saman í flokknum Launaleynd. Þær færslur skýra sumar betur afstöðu mína varðandi launaleynd.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *