Stöðva ber sölu Gagnaveitu Reykjavíkur

Forsíðufrétt Blaðsins á þriðjudag greinir frá því að Orkuveita Reykjavíkur (OR) sé að undirbúa sölu á dótturfyrirtæki sínu, Gagnaveitu Reykjavíkur (GR), og sé það nú í verðmati hjá bankastofnun. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, svarar fyrir þessa fyrirætlan og skýrir hana með þeim hætti að verið sé að selja fyrirtæki sem stendur í samkeppnisrekstri. Þá segir borgarstjóri að OR eigi fyrst og fremst að sjá um að framleiða rafmagn, heitt vatn og kalt vatn á hagstæðan hátt.

Við fyrstu sýn virðist ekkert óeðlilegt vera á ferðinni. Verið er að einkavæða fyrirtæki sem starfar á samkeppnismarkaði og hafa fyrirtæki á sama sviði verið einkavædd og er þá átt við Símann. Þar að auki er fyrirtækið nýtt, óþekkt og fáir versla við það, enn sem komið er. Hér virðast því ekki neinir almannahagsmunir vera í húfi. Þá er þess einnig getið í fréttinni að GR sé sprottið upp úr rústum Línu.net sem borgarbúar hafa lært að hata vegna þeirrar gagnrýni sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt uppi.

Gagnaveita Reykjavíkur er einokunarfyrirtæki
Þegar betur er að gáð þá standast orð Vilhjálms borgarstjóra ekki skoðun. GR stendur ekki í samkeppnisrekstri og borgarstjóri gleymir þar að auki að helsta hlutverk OR er einnig að dreifa rafmagni og vatni. OR er veitufyrirtæki og hefur einokunarstöðu gagnvart viðskiptavinum sínum í Reykjavík. Rafmangs- og vatnslagnir okkar Reykvíkinga eru í umsjá OR. Það sér hver maður að samkeppni gengur ekki upp í rafmangs- og vatnsveitum. Hvergi er hægt að velja við inntök í hús um fleiri en eina rafmangs- eða vatnslögn, enda mundi aldrei borga sig að leggja tvöfaldar lagnir um borgina til að koma á samkeppni. Það er hins vegar alveg rétt hjá borgarstjóra að það er einnig hlutverk OR að framleiða rafmagn og vatn til að selja borgurunum. Það er merkilegt að borgarstjóri skuli nefna þennan þátt í starfsemi OR, því það er helst sá þáttur sem telja má til samkeppnisrekstrar. Á meðan borgarbúar neyðast til að nota rafmangslagnir OR þá geta þeir valið um frá hvaða orkufyrirtæki rafmagnið kemur. Borgarstjóri virðist hafa gleymt því að búið er að koma á samkeppni í rafmagnssölu, reyndar mjög svo umdeildri samkeppni. Vonandi mun borgarstjóri rifja það upp hið fyrsta að helsta hlutverk OR er að veita borgurunum rafmagn og vatn, en ekki framleiða það enda hefur OR lítið við framleiðsluna að gera ef engar eru lagnirnar.

Þökk sé borgarstjóra þá hefur hér þurft að gera vel grein fyrir hlutverki OR. Þessi greining hjálpar til við að skilja hvers vegna GR er ekki á samkeppnismarkaði. GR er, eins og nafnið bendir til, gagnaveita. OR sér um vatnsveitu og rafmagnsveitu en GR sér um að veita gögnum. GR á og rekur burðarnet úr ljósleiðara sem nær um allt höfuðborgarsvæðið og víðar. Ljósleiðarinn gegnir sama hlutverki og rafmagns- og vatnslagnir borgarinnar. Það verður einungis einn ljósleiðari í boði fyrir borgarann til að fá veitt gögnum um. Það mun aldrei borga sig fyrir okkar litla land að byggja upp fleiri ein eitt ljósleiðaranet til að skapa samkeppni. Þó að slík fjárfesting gæti einhverntíma borgað sig þá eru það borgararnir sem á endanum bera kostnaðinn og er sá kostnaður með öllu óþarfur.

Það er verið að selja grunnnet
Hins vegar er samkeppni á sviði þjónustu sem er veitt í gegnum ljósleiðarann, líkt og samkeppni er í sölu á rafmagni. Þar eru opinberir aðilar ekki að bjóða þjónustu sína heldur berjast þar einkafyrirtæki. Það er mikilvægt fyrir þessi þjónustufyrirtæki að eigandi burðarnetsins sé óháður og reki opið net. Við þekkjum dæmi um mikil vandræði þegar eigandi burðarnets var einnig í samkeppni við aðra aðila um þjónustu á burðarnetinu. Síminn rak bæði burðarnet og þjónustu á netinu. Samkeppnisaðilar kvörtuðu sáran yfir viðskiptum sínum við Símann, m.a. við færslu á ADSL tengingum. Grunnnet Símans var svo slitið frá og sett í sér fyrirtæki, Mílu, sem vakti mikla furðu hjá stjórnmálamönnum sem héldu að slíkt væri ekki hægt. Þessi uppskipting hefur reynst vel því betur hefur gengið fyrir samkeppnisaðila Símans að fá þjónustu um grunnnetið eftir að Míla tók við því. Hins vegar þarf ríkið að eyða fjármunum til að halda uppi eftirliti til að koma í veg fyrir að Míla misnoti stöðu sína. Það var rangt hjá ríkinu að einkavæða grunnnetið. Síminn er nú orðið hreint samkeppnisfyrirtæki en Míla er hreinræktað einokunarfyrirtæki. Þau fyrirtæki sem vilja bjóða borgurunum þjónustu í gegnum koparlagnir landsins verða að skipta við Mílu. Ef fyrirtækin eru ósátt við þjónustu Mílu þá geta þau ekkert gert, nema kæra til Póst- og fjarskiptastofnunar og bíða löngum stundum eftir úrskurði og eftirfylgd. Ljóst er að önnur fyrirtæki fara ekki að setja upp nýtt burðarnet úr kopar. Fyrirtæki með sömu einokunarstöðu og Míla ættu að vera á hendi ríkisins.

Það er því ljóst að Míla og GR eru fyrirtæki sem gegna sama hlutverki. Þau reka grunnnet sem bjóða upp á sölu á þjónustu til borgaranna. Það yrði grátbroslegt ef borgin gerir sömu mistök og ríkið gerði með sölu grunnnetsins, en pólitíkin vill stundum gleymast hjá hægri-mönnum þegar þeir sjá háar fjárhæðir í hillingum.

Hæstvirti gamli góði Villi
Kæri Vilhjálmur, þú verður einfaldlega að finna peninga í borgarsjóð með einhverjum öðrum hætti. Þetta eru vissulega vel útlítandi milljarðar þarna, en salan er gegn hagsmunum borgaranna. Eftir nokkur ár verða allir borgarbúar fastir viðskiptavinir GR og því miklir hagsmunir í húfi. Það er spurning hvort ekki sé betra að skoða framleiðsluþáttinn sem mætti frekar skilgreina sem samkeppnisrekstur, en þú telur hann samt sem áður vera helsta verkefni OR.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *