Fimmvörðuhálsinn með BootCamp

Eins og segir í fyrri færslu þá stóð mikið til á laugardaginn. Vaknaði ég klukkan 4 á laugardagsmorgun og gerði mig reiðubúinn undir BootCamp gönguna yfir Fimmvörðuhálsinn, sem er um 22-24 km gönguleið á milli Skóga og Þórsmarkar. Mætti fólkið kl. 6 fyrir neðan HÍ og þaðan var farið í 4 rútum (um 180 manns) að Skógum. Hófst gangan, eftir að fólk tók sér góðan tíma í að létta á sér, klukkan tíu og fór þá öll hersingin af stað og hélt fólk saman í misstórum hópum. Fór ég yfir með Heklu-félögum sem ég var með í tímum á morgnana. Var þoka alla leið að skála, eða rúman helminga af leiðinni. Ég hefði verið til í að sjá betur alla fallegu fossana, en veðrið var gott til göngu. GKJ ný kominn úr þokunni á leið yfir Fimmvörðuháls

Þegar komið var frá skálanum létti allt í einu til og þvílíkt útsýni og samspil snjóbreiða og „brúnna“ hæða. Var alveg heiðskírt niður í Þórsmörk. Hægra hnéð sveik mig á leiðinni niður, nokkuð sem ég átti von á því ég fór heldur geyst niður Esjuna á fimmtudagskvöldið.  Þetta voru smá óþægindi þegar ég steig niður í móti. Vinstri fóturinn fór því alltaf á undan niður í Þórsmörkina.

GKJ ánægður með útsýnið á leiðinni yfir Fimmvörðuháls

Kom ég niður klukkan hálf fjögur og tók því gangan fimm og hálfan tíma sem er bara nokkuð gott, reyndar ekkert miðað við nokkra sem skokkuðu og voru þrjá og hálfan tíma. Síðan var tjaldað, grillað, drukkið og sungið.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *