Boot Camp VI og VII – drukkinn eða örmagna

Nú var tekið á því í BC tvo daga í röð. Venjulegur tími í gær og 2 klst. útitími í morgun.

Var mikið unnið í efri líkamanum í gær, enda voru lappirnar (og bak) alveg í steik eftir miðvikudagstímann. En eftir tímann voru strengirnir sem ég hafði fyrir tímann nánast horfnir (sem betur fer því ég gat varla hreyft mig á fimmtudag). Ég náði nú ekki, frekar en fyrri daginn, að framkvæma allan þann fjölda af æfingum sem gera á, en ég reyni mitt besta. Gaman var að fá að boxa í boxpúða. Mest „gaman“ var þó þegar líkaminn fór allur að skjálfa þegar ég reyndi að halda hvíldarstöðu 2 (armbeygjustaða á olnbogum), en ég hélt út þann tíma sem nauðsyn var svo allur hópurinn þyrfti ekki að taka út refsingu 🙂

Vel var tekið á því í morgun. Mikil hlaup og allskonar æfingar gerðar í Laugardalnum. Voru fötin orðin ansi skrautleg enda mikið búið að skríða í grasinu. Eflaust skemmtileg sjón fyrir fólkið sem var farið að fjölmenna í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Svo kom ég við á Drekanum á leiðinni heim. Var ég talinn vera enn í glasi eftir mikið djamm eða hreinlega örmagna, skjálftinn í höndum var svo mikill.

Skellti ég mér svo í heitt bað (nokkuð sem ég hef ekki gert í fjölda ára). Mér finnst sem ég sé með harðsperrur um allan líkamann. Boot Camp er málið 🙂

Ójá!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *