Hægfara Íslandshreyfing

Íslandshreyfingin hreyfir sig ansi hægt. Tilkynnt var um framboð hennar í dag. Búið er að ákveða nafnið, helstu stjórnarmenn og þrjú áherslumál. Engir framboðslistar, ítarleg stefnuskrá eða heimasíða. Islandshreyfingin.is býður ekki einu sinni upp á skilaboð um að vefur sé í vinnslu.

Mikla spennu er búið að byggja upp fyrir þetta framboð. Svo loks kom tilkynningin en ekkert nýtt var að frétta. Það eina sem gerðist í dag var að það var staðfest formlega sem allir vissu. Ómar er að búa til hægri-grænan flokk, Margrét er að búa sér til nýtt tækifæri og Jakob Frímann er að færa stefnu Samfylkingarinnar inn í flokk þar sem hann fær eitthvert brautargengi.

Það er skiljanlegt að nafninu var breytt á síðustu metrunum úr Íslandsflokknum í Íslandshreyfinguna. Þetta framboð hefur ekkert bakland, það er enginn flokkur að baki þessu framboði. Þarna er saman komið fólk sem er komið til að vinna að eigin hagsmunum en þykjast hafa velferð Íslands að leiðarljósi.

Stofnuð hefur verið hreyfing á miðju stjórnmálanna. Það er eins og það hafi gleymst að ætlunin var að stofna flokk fyrir hægri-græna. Áhersla er lögð á náttúrumál, velferð og efnahagsmál. Það er eins og það hafi gleymst að til er flokkur með góðu baklandi sem leggur áherslu á þessu mál og er einmitt á miðjunni, Samfylkingin.

Eins og ég hef nefnt áður að þá á ekki að stofna til stjórnmálaflokka nema um grundvallarhugsjónir. Sú framtíðarsýn sem Íslandshreyfingin virðist ætla að bjóða Íslendingum upp á rímar fullkomlega við þá framtíðarsýn sem Samfylkingin hefur. Til þess að tryggja framgang sameiginlegrar framtíðarsýnar verður fólk að sameinast í einum stórum flokki. Innan flokksins verður fólkið síðan að beita sínum áhrifum til þess að stefna flokksins verði í takt við framtíðarsýnina. Það eru stóru flokkarnir sem hafa til lengri tíma litið lang mestu áhrifin á þróun þjóðfélagsins.

Við þurfum ekki fleiri þrýstihópa inn á Alþingi. Við þurfum stóra flokka með sterka framtíðarsýn. Við þurfum stóran flokk sem byggir á jafnaðarstefnunni og sá flokkur er Samfylkingin.

Því miður Ómar þá áttir þú að halda þig við það sem þú gerir best. Dýrmætum kröftum þínum er nú eytt í þágu sérhagsmuna. Þínir kraftar nýtast landi og þjóð best ef þú heldur þig við heimildaþáttagerð. Því miður held ég að raunin verði sú að farsælla hefði verið fyrir þjóðina ef þú hefðir hampað stefnu Samfylkingarinnar um Fagra Ísland, stefnunni sem þú varst búinn að mæra.

Kjarni málsins er þessi: Komið er fram framboð sem ég var búinn að bíða eftir mjög lengi. Nýtt hægra framboð með áherslu á velferðarmál og umhverfismál. En það kemur fram allt of seint. Það hefur gefið sér margar vikur í undirbúning. Afraksturinn er enginn. Innistæðuleysið í dag er ekki trúverðugt. Þetta er hreyfing sem fetar allt of hægt og hóf ferð sína allt of seint.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *