Launaleynd heldur niðri launum

Launaleynd var rædd í Kastljósinu í kvöld. Helsta röksemd með launaleynd var að atvinnurekendur gætu ekki hækkað laun fólks sem stendur sig vel, því þá þyrfti að hækka alla aðra sem væru í svipaðri stöðu.

Fáránleg fullyrðing. Ef starfsmaður hefur afrekað miklu og fært fórnir fyrir fyrirtækið þá eru þær staðreyndir réttlætanlegar til þess að hækka við hann launin. Segi þessi starfsmaður sínu samstarfsfólki frá sinni launahækkun þá á samstarfsfólkið engan rétt á sömu launahækkun nema að hægt sé að rökstyðja hana með sama hætti.

Það sem gerist hins vegar með launaleyndinni er að fólk er ekki að fá sömu laun fyrir sömu störf, sömu afköst og sömu fórnir. Atvinnurekandi leggur hart að þeim sem fékk réttmæta launahækkun að halda henni fyrir sjálfan sig. Launaleyndin er helsta vopn atvinnurekenda til að halda niðri launakostnaði.

Frjálshyggjufólk er á gríðarlegum villugötum ef það vill halda í launaleynd. Athyglin snýst alltaf að fyrri hluta orðsins. Það er seinni hlutinn sem skiptir öllu máli. Ég er á móti öllu sem fellst undir leynd og það ætti frjálshyggjufólk einnig að vera. Leynd er andstaða við frelsi. Leynd býður upp á huld. Í skjóli leyndar eru verk framkvæmd sem þola ekki dagsins ljós. Í skjóli leyndar eru teknar ómálefnalegar ákvarðanir. Í skjóli launaleyndar eru laun ákveðin án þess að þau séu rökstudd málefnalega.

Atvinnurekendur láta hæst í sér heyra þegar afnám launaleyndar berst í tal. Þeir kveinka sér yfir því að geta ekki lengur verðlaunað gott starfsfólk og fullyrða að afnám launaleyndar muni leiða af sér lægri laun. Ég spyr, ættu atvinnurekendur ekki að vera nokkuð sáttir við það ef launakostnaður fyrirtækisins myndi lækka og þeir gætu kennt afnámi launaleyndar um? Minni launakostnaður og hægt að skella skuldinni á aðra!

Atvinnurekendur eru að hugsa um eigin hag, en þykjast vera að hugsa um hag starfsmanna sinna. Atvinnurekendur vilja halda í launaleyndina því hún er þeirra helsta vopn við að halda niðri launakostnaði.

Enn og aftur:
Launaleynd er helsta vopn atvinnurekenda til að halda launum niðri.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *