Grunnnetið og Formúla 1

Í dag var stofnað nýtt fyrirtæki utan um fjarskiptanet Símans, Míla. Nú er búið að gera það sem fullyrt var að ekki væri hægt að gera, þ.e. að aðskilja grunnnetið frá öðrum þjónustuþáttum gamla Landsímans. Landsíminn var einkavæddur og svo komast menn að því nokkrum mánuðum síðar að fýsilegt sé að aðskilja grunnnetið frá Símanum.

Þetta er mjög svo jákvætt að því leiti að sér fyrirtæki eiga að vera um fjarskiptanet og önnur fyrirtæki eiga svo að sjá um þjónustu í gegnum þau net. En Míla er nú með einokandi stöðu á markaði fjarskipta. Það er vitað mál að það verður ekki lagt nema eitt fjarskiptanet um landið. Annað væri einfaldlega allt of dýrt. Síminn starfar í harðri samkeppni og var því kjörinn til einkavæðingar. En fjarskiptanet Símans var ekki í neinni samkeppni, í það minnsta á landsbyggðinni, og því var rangt að einkavæða það.

Ríkið rekur nú eina stofnun sem er í mjög svo áberandi harðri samkeppni. RÚV keppir við aðra fjölmiðla um efni til sýningar og auglýsingar. RÚV hefur farið mikinn í kaupum á íþróttaefni. Tókst þeim að tryggja sér næstu Evrópukeppni í fótbolta en misstu í dag Formúlu 1 úr greipunum.

Það er mikið fagnaðarefni að Formúla 1 sé nú komin á frjálsan fjölmiðil. Sérstaklega er það fagnaðarefni að kappaksturinn er nú hjá einni öflugustu íþróttarás í heimi, Sýn. Búast má við mikilli byltingu í þjónustu við áhugamenn íþróttarinnar. Kannast undirritaður við það frá gervihnattarásum að geta valið á milli myndavéla og jafnvel dvalið löngum stundum um borð í hinum ýmsu bílum. Er það von mín að Sýn nái að setja nokkrar rásir undir útsendingar frá formúlunni. Einkavæðingu formúlunnar ber að fagna.

RÚV á hins vegar að einbeita sér að efni sem ekki ber sig. Ef RÚV stendur sig vel á því sviði þá verður til markaður fyrir slíkt efni og þá geta frjálsu fjölmiðlarnir tekið við því efni. Formúlan er eflaust dæmi um slíkt efni og jafnvel enski boltinn. Það er með mikilli skömm hvernig staðið er að umfjöllun á íslensku íþróttalífi á RÚV. Skynsamlegra er að eyða peningunum í innlendar íþróttir en sýningarrétt á vinsælum íþróttum.

Já, merkilegur dagur. Nýtt einokunarfyrirtæki varð til sem ætti með réttu að vera í ríkiseigu og formúlan var einkavædd og styrkti þar með stöðu Sýnar á samkeppnismarkaði og veikti þar að auki RÚV, sem vonandi hverfur smátt og smátt af samkeppnismarkaði. RÚV og Míla eru merkileg fyrirbæri í okkar þjóðfélagi.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *