Álagningarskráin umdeilda

Það er þessi tími ársins. Verlsunarmannahelgin gegnsýrir öll samtöl fólks, margir eru óánægðir með uppgjörið frá meistara Skattmann og SUS breiðir út sitt árlega fagnaðarerindi.

Leyndin mun gera ykkur frjálsa, segir SUS. Frelsið mun aukast í sama hlutfalli og leynileg útbólgnun launatékkans.

SUS mótmælir framlagningu álagningaskrá með réttu. Þessi framlagning skattstjórans er gerð í ákveðnum tilgangi. Með framlagningunni á að virkja borgarana til að koma að eftirliti. Borgararnir skulu koma og saka nágranna sína um skattsvik. Eftirlit með skattsvikum er mikilvægt. Mjög umdeilt er hvort þessi aðferð uppfylli sinn tilgang. Raunar efast flestir um það.

SUS á að hamra á þessum hluta málsins. Það að blanda launaleynd og einkalífi inn í þessa umræðu er mjög vafasamt. Það er ekki einkamál nokkurs manns hvað hann hefur í tekjur. Tala ekki um ef þær hlaupa á milljónum á mánuði eða ná vart lágmarkslaunum.

Í Deiglupistli hefur Andri Óttarsson tengt saman friðhelgi einkalífsins, launaleynd og mannréttindi. Friðhelgi einkalífsins er vissulega verndað í lögum og er það hluti af okkar mannréttindum. Andri hefur lög að mæla. En þegar kemur að því að tengja kaup og kjör við friðhelgi einkalífsins þá vantar undirstöður þar undir. Andri notar eftirfarandi orðalag: „Upplýsingar um laun og fjármál einstaklinga eru þess eðlis að þær falla klárlega undir friðhelgi einkalífs“ Hér er þörf á útskýringum. Einnig segir: „Hefur verið talið að kaup og kjör séu einkamál hvers og eins og sjálfsagt að þau fari leynt.“ Hér er enn og aftur vitnað í hefðina. Eins og venjulega þegar launaleynd er varin þá vantar efnisleg rök. Sem betur fer hefur frelsisvæðing SUS á öðrum sviðum verið óhrædd við breytingar.
… Hmmm, óþarfi að einkavæða af því að ríkið hefur alltaf verið með puttana í þessu, það hefur verið talið sjálfsagt og verður það klárlega áfram …
Augljóslega halda þessi rök ekki þarna og ætti að vera augljóst varðandi launaleyndina.

Svo endurbirti ég nú
href=“http://www.hi.is/~gullikr/digitalbomb/2003_08_01_archive.html#106003994831157109″ target=“_blank“ title=“Birting álagningarskráar“>færslu frá þeim tíma er ég myndaði mér skoðun um álagningarskrána. Áhugaverð þróun á skoðanamyndun.


Ég tjáði mig um birtingu álagningaskráar í ummælum við skrifum Tómasar Potts.
Ég vil halda þeim til haga því ég tjáði mig þarna tvisvar. Í seinna skiptið hafði ég skipt um skoðun. All sérstakt.Fyrri ummælin

Ég hef ekki velt þessu máli mikið fyrir mér, ekki heyrt rökin fyrir þessari leynd. En ég fæ það á tilfinninguna að þessar upplýsingar ættu að vera enn opnari miðað við þróunina síðustu ár hér á Íslandi.

Það þykir sjálfsagt að uppgjör fyrirtækja sé opið. Mörgum finnst sjálfsagt að stjórnmálaflokkar opni sitt bókhald, og mun sennilega verða að veruleika eftir einhver ár.

Öll leynd er bara svo hægt sé að fela eitthvað, fela spillinguna. Laun hvers og eins eiga ekki að vera leyndarmál. Ef svo væri ekki þá værum við ekki alltaf að tala um launamun kynjanna og illar hugsanir gagnvart samstarfsmönnum vegna gruns um launamun mundu hverfa.

Það er alltaf þannig að þeir einu sem hafa tapað á því að leynd hafi verið tekin af eru þeir sem hafa eitthvað óhreint í pokahorninu.

Seinni ummælin
Ég er kominn á aðra skoðun en ég hafði í dag varðandi þessa birtingu. Birting álagningarskráar er rugl. Birtingin er ekki að uppfylla þau markmið sem ég taldi að hún væri að gera.

Reyndar er birtingin ekkert siðlaus. Hinsvegar er misnotkunin á þessum skrám með ólíkindum. Það er ekkert að marka þessar skrár, t.d. á eftir að gera leiðréttingar og kærur eiga eftir að koma fram.

Ég er samt fylgjandi því skýra markmiði sem þessi birting á að fela í sér. Þessi birting, eins og hún er í dag, er markleysa. Það þarf að finna betri leið til þess að hafa eftirlit með landanum.

Það var mjög asnalegt að horfa á fréttir Stöðvar 2 þar sem voru talin upp nöfn á Jónum og séra Jónum án þess að hafa einhvern sérstakan tilgang. Það hefði mátt búa til frétt ef einhver væri að greiða grunsamlega mikið eða lítið til skattsins.Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *