Rigningardrungi

Alltof langt er nú síðan ég hef ritað hér einhver orð. Ég sem var kominn á svo gott skrið. Nóg hefur verið að skrifa um en eitthvað vantað upp á löngunina. Ég ætla að kenna um þessu ömurlega rigningardrunga sem hefur legið yfir Reykjavík nánast allan júní mánuð.

Ætli það sé ekki best að stikla á stóru.

Það hefur verið skipað í nýja ríkisstjórn undir forsæti Geirs H. Haarde. Framsókn fann einn af þeim fáu sem geta talist hreinræktaðir framsóknaremnn. Jón Sigurðsson hefur komið mér vel fyrir sjónir. Virðist kunna sitt fag og það sem meira er, hann virðist vita upp á hár hvað það er að vera framsóknarmaður. Mikið rosalega hljóta flokksmenn að hafa verið fegnir þegar það kom loks maður og skilgreindi flokkinn og stefnuna. Má vera að hún hafi verið til, en hún var öllum gleymd og grafin. Ljóst er að þarna fer næsti formaður Framsóknarflokksins. Ég mæli með hádegisviðtalinu við Jón frá 12. júní á NFS.

Handboltastrákarnir okkar unnu frábært afrek í gær er þeir innsigluðu sigur sinn á Svíum. Þrátt fyrir tapið þá unnum við samanlagt 57:54. Það var unaðslegt að horfa á þessa leiki. Leikurinn í Svíþjóð var gríðarlega spennandi þar sem liðin skiptust á að leiða leikinn og svo rúlluðum við yfir Svíana í lokin með dúndur skotum Einars Hólmgeirssonar. Við áttum ekki eins mikið í leiknum hérna heima, en fjögra marka forskot okkar hélt, þrátt fyrir að hafa verið í gríðarlegri hættu á tímabili. Undir lokin var sem dómararnir ætluðu að tryggja Svíum sigur er það voru bara þrír eftir í okkar liði inn á vellinum. En við leystum það með stakri snilld og héldum haus. Það var frábært að sjá hve góð stemning var troðfullri í höllinni. Skemmtilegt að sjá alla íslensku fánana og var það stund gæsahúðarinnar þegar þjóðsöngurinn var sunginn af áhorfendum með miklum krafti. Það var sannkallað stríðsöskur þegar þjóðsöngurinn fór hæst. Voldugur er lofsöngurinn.

Mikið hefur verið um afmæli að undanförnu. Stórafmæli hjá systkinum mínum og 20 ára brúðkaupsafmæli foreldra minna. Allt gott og blessað, en ein afleiðing af þessu er að ég er að verða 25 ára. Svona „stórafmæli“ eru alltaf ákveðin tímamót.

Þrátt fyrir riginingardrungann þá skulum við bera höfuðið hátt, við verðum á HM í Þýskalandi, mekka handboltans, í janúar þar sem við munum berjast við þá bestu. Við erum með besta leikmann heims, besta leikmann þýsku deildarinnar og besta þjálfarapar heims. Þetta getur ekki klikkað. (þó vorkenni ég Svíum, þeir ekki með í fyrsta sinn í sögunni, en samt eru Grænlendingar með!)

Læt þetta gott heita í bili.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *