Persónulegar pælingar

Hver er ég? Í hvaða átt er ég að þróast? Hvernig maður er ég að verða? Hvernig maður vil ég verða? Hvað skal gera til að láta gott af sér leiða? Við hverja þarf að bæta samskipti? Við hverja skal stofna til nýrra samskipta? Hvert er ég að stefna hér og nú? Er tíminn farinn að fljóta frá mér, meðan ég sigli í stefnuleysi? Hvaða verkefnum skal ég nú einbeita mér að? Hver eru mín markmið, til lengri og skemmri tíma? Hvernig er tíma utan vinnu best varið?

Iðjuleysi er ekki valkostur. Þegar ég var við nám þá voru alltaf verkefni til úrlausnar. Ávallt einhver markmið að stefna að. Nú er eins og tíminn fljúgi áfram í aðgerðarleysi, eins og mín orka sé ekki nýtt til fullnustu.

Ég er sjálfstæður einstaklingur sem myndar sér skoðanir og framkvæmi hluti að vel athuguðu máli. Ég mynda mér skoðanir útfrá minni vitneskju hverju sinni. Ég umbylti skoðunum mínum fái ég nýjar upplýsingar. Ég framkvæmi eftir bestu vitund og reyni að horfast í augu við og viðurkenna þau mistök sem ég kann að gera. Ég fylgi ekki straumnum. Ég geri hluti á eigin forsendum. Ég beiti gagnrýnni hugsun. Ég læt ekki undan hópþrýstingi. Það er eitthvað í mér sem veldur því að ég reyni frekar að skera mig úr í stað þess að falla í hópinn. Ég hugsa ekki mikið um álit annarra á mér. Hugsjónir og prinsipp eiga djúpar rætur í mér. Gagnvart sumum hlutum kýs ég að vera þver og halda mig við óupplýstar skoðanir, sem eru þá í raun fordómar.

Ég reyki ekki. Ég neyti ekki tóbaks. Ég hef ekki sett sígarettu að vörum mínum. Ég er ekki á móti reykingum. Ég hef hins vegar frelsi til að hafna eigin inntöku.

Lengi vel drakk ég ekki. Ég hafði ekki áhuga á því. Ekki spennandi. Hvað er spennandi við að missa stjórn á sér og vera ekki með fullu viti. Hvaða sýndarmennska er það að þurfa að neyta áfengis til þess að tjá sig. Því að drekka að tilefnislausu? Er ekki hægt að skemmta sér án þess að drekka? Því að eyðileggja góðan helgarmorgun með svefni? Á síðustu árum hef ég drukkið þegar ég hef fundið hjá mér löngun til þess. Þegar pressan hvarf af mér þá fékk ég löngunina. Þá var ákvörðunin mín. Löngunin kemur aðallega upp þegar ég er í hóp með góðu fólki. Ég drekk fyrir stemmninguna. Ég drekk til að samgleðjast með öðru fólki. Ég fer í partý og aðrar samkomur til að vera með fólkinu. Ég fer ekki til að drekka. Ég fer í bæinn með fólkinu til að skemmta mér með því. Þegar hópurinn tvístrast, sem gerist undantekningarlaust, minnkar mín gleði. Ég fer þó ekki fúll heim heldur reyni ég að bæta mína gleði með því að komast inn á dansstað og hreyfa mig við tónlistina. Mesta sorgarstund góðra kvölda er þegar partýin leysast upp og ákveðið er að skella sér út á lífið. Ég sé reyndar undantekningarlaust eftir því morguninn eftir að hafa drukkið. En til að umgangast fólk verður maður víst að taka smá þátt í menningunni. Ég er ekki á móti drykkju en óhóf skil ég ekki. Ég kýs að drekka í hófi, í það minnsta þar til ég ákveð annað.

Ég drekk ekki kaffi. Ég er ekki á móti kaffi. Ég sé bara ekki tilganginn með því. Kaffi er vont á bragðið. Te finnst mér einnig vont. Reyndar á þetta almennt við það sem byggir helst á hituðu vatni. Ég komst í gegnum háskólanám án þess að drekka kaffi svo ég held að ég þurfi ekki koffín. Hef greinilega næga orku. Ég þakka það góðum svefni. Ég get nánast sofnað hvar sem er þegar viljinn er fyrir hendi. Hverja nótt sef ég föstum svefni og rumska ekki fyrr en vekjarinn hringir. Þetta þakka ég kaffileysinu. Ég drekk hins vegar dágott magn af vatni.

Ég er ekki hræddur við að vera öðruvísi. Allt mitt framhaldsskólanám og háskólanám dreifði ég Morgunblaðinu. Það er gjörsamlega óskiljanlegt sumum sem segjast aldrei mundu geta vaknað til að dreifa Morgunblaðinu. Þetta gerði ég þó bara vegna þess að hagkvæmnin var lang best. Ég þurfti ekki að vinna neitt annað með náminu. Vinnan stangaðist aldrei á við skólann, nema kannski vegna sólarhringslotna. Hreyfing fylgdi með í kaupbæti. Þetta tók ekki tíma frá mér á daginn heldur kom að mestu niður á svefntíma. Ég var alltaf mættur ferskur í fyrstu tímana á morgnana. Þetta krafðist mikillar reglusemi. Þetta kom í veg fyrir mikla drykkju á föstudögum. Þetta var draumastarf námsmannsins.

Ég vil gera það sem ég tek mér fyrir höndum vel úr garði. Ef maður gerir eitthvað á annað borð þá er skilyrði að gera það vel. Það veldur þvi kannski að oft geri ég minna en ég gæti gert. Ef ég sé fram á að hafa ekki nægjanlegan tíma aflögu fyrir eitthvað verkefni til þess að gera það nánast fullkomið þá hef ég oft frestað slíku verkefni. T.d. bakkaði ég út úr starfi með Vökufólki því ég fann ekki tíma til að sinna því eins vel og ég taldi æskilegt. Námið var með hæsta forgang. Eftir að námi lauk hef ég velt því fyrir mér hverju ég frestaði eða hafnaði vegna námsins. Hvað af því get ég einbeitt mér að í dag?

Ég hef skoðanir á ýmsum málum. Ég hef lengi fylgst með pólitík. Ég hef lengi verið fréttafíkill. Undanfarið hef ég fundið mestan áhuga á menntamálum, skipulagsmálum og reyndar ýmsum öðrum málum. Að mestu leiti hef ég valið þennan vettvang til að tjá mínar skoðanir. Ég tel ekki rétt að ræða pólitík meðal fjölskyldu og vina, nema gríðarlegur áhugi sé hjá báðum aðilum. Því virðist sá sem skrifar hér stundum ekki vera sami maðurinn og ég í eigin persónu. Ég hef lengi vel ekki fundið mig í flokki. Ég hef ekki mikið álit á flokkspólitík. Þegar hugsjónir og sjálfstæðar skoðanir hafa vikið fyrir liðsheild og stuðning við flokk þá er erfitt að ræða um það sem skiptir mestu máli. Ég er skráður í Sjálfstæðisflokkinn. Ég tek þá skráningu jafn hátíðlega og til hennar var stofnað. Ég fylgdi þeirri hugsjón að breyta Heimdalli í opið og víðsýnna félag. Ég studdi Þórlind Kjartansson til formennsku. Það gekk því miður ekki eftir. Síðan þá hefur mikill skrípaleikur átt sér stað í kringum Heimdall. Ég hef þó ekki haft fyrir því að skrá mig úr flokknum, enda hefur sú skráning litla þýðingu í mínum augum. Mig langar að taka þátt í stjórnmálastarfi ungs fólks meðal stjórnmálaflokkanna. Ég hef hins vegar ekki getað tekið ákvörðun um með hvaða flokki ég á samleið með. Til greina koma Sjálfstæðisflokkur og Samfylking. Þó að það sé í eðli mínu að vera yfirleitt á móti hlutum þá sé ég enga framtíðarsýn hjá VG. Einnig held ég að ég eigi síst samleið með unga fólkinu sem er í VG. Framsóknarflokkurinn og Frjálslyndiflokkurinn eru flokkar minnihlutahópa sem hafa mjög ólíkar skoðanir og tolla saman vegna annarra hagsmuna. Ég mun eflaust síðar greina nánar hvað það er sem veldur því að ég get ekki valið milli D og S.

Jæja, þetta er orðið nóg af innri skoðun í bili.
Og hver ætli tilgangurinn sé með þessum skrifum og að birta þau?
Ég veit það ekki alveg en þetta er mín sjálfskoðun sem ég varð að rita niður nú því ég fann löngun til þess. En þetta er auðvitað ákveðin þerapía.
Nú fer ég ánægður að sofa.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *