Fótboltasumarið

Eftir hið íslenska fótboltasumar er bæði hægt að gráta og brosa.

Brosum. Leiknir komst loks upp í 1. deild eftir að hafa klúðrað tækifærinu í fyrra. Víkingur komst upp í úrvalsdeild, halda uppi merki Reykjavíkur.

Grátum. Tvö Reykjavíkurlið falla. Þróttarar, sem mér er nokk sama um, en grátlegt er að Fram skuli nú loks hafa fallið. Þeir klikkuðu greinilega á grundvallaratriði, þ.e. að reka þjálfarann undir lokin. Þetta er sárgrætilegt því Frömurum gekk býsna vel framan af en svo datt botninn úr. Þeir hefðu betur haldið sig við formúlu sem virkar, þ.e. að geta ekkert framan af en rúlla þessu svo upp í restina. Slík formúla hefur gengið vel undanfarin ár og gengur enn betur hjá Skagamönnum. En það þýðir ekkert annað en að þurrka tárin úr augunum því að lið sem ekki getur haldið sínu sæti í deildinni, verandi með bestu stöðu botnliða fyrir síðustu umferð, á einfaldlega ekki skilið annað en fall. Enda féllu þeir verðskuldað.

Ég var nokkuð brattur þegar ég horfði á leik Framara og FH. Jájá, nokkur mörk allt í lagi. Í stöðunni 2-0 gaf ég Tryggva leyfi til þess að skora eitt í viðbót því það myndi ekki skaða Fram. Ég vildi nefnilega að Tryggvi fengi gullskóinn fyrir að vera markakóngur frekar en Daninn Borgvart. Nokkrum mínútum eftir að ég gaf Tryggva leyfið þá skoraði hann. Flott mál. Allt að ganga upp. En, nei, þá tekur Tryggvi sig til og skorar enn annað, í algjöru leyfisleysi. Ég botna ekkert í Fram að leyfa þeim að skora annað mark, vitandi það að það þýddi fall. Ríkharður Daðason, með gráu lokkana, bjargar því sem bjargar verður og skorar eitt mark, enda sannur Framari. Nú voru Framarar aftur í þeirri stöðu að þurfa einungis að passa upp á að fá ekki á sig annað mark til þess að falla ekki. En fyrir einhver óskiljanlegan aumingjaskap þá láta þeir Tryggva skora aftur í þessari stöðu sem snérist um líf og dauða. Ég held að ég muni aldrei skilja þennan leik. Tvisvar í leiknum var ljóst að FH mætti ekki skora eitt mark í viðbót og tvisvar leyfðu Framarar þeim að skora. Þetta er grátlegt.

Jæja, ég er búinn að pústa. Ég hlakka bara til endapunktsins sem verður klassískur slagur um bikarinn, Valur – Fram. Þetta getur ekki klikkað, þetta verður spenna.

Í öðrum fréttum: gulli.digitalbomb.com er aftur orðið virkt. Þetta hefur verið eitthvað tímabundið ástand hjá þeim á lookscool.com

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *