Baráttan um enska boltann

Mikil umræða hefur verið um stafrænar sjónvarpssendingar Símans. Hvatinn að þessari umræðu er Enski boltinn. Síminn tryggði sér sýningarrétt á Enska boltanum til þess að renna stoðum undir uppbyggingu á stafrænni sjónvarpsþjónustu. Breiðvarp Símans var notað sem réttlæting fyrir uppbyggingu Breiðbandsins, en meira þurfti til vegna fjárfestingar á stafrænu flutningsneti fyrir sjónvarp.

Þetta er forsagan. Hún er vissulega umdeilanleg og auðvelt að hrekja en staðreyndir benda allar í þessa átt. Umræðan hefur verið mis viturleg en ég ætla að eyða hér nokkrum línum til að skerpa á nokkrum hlutum sem mér finnst vanta upp á.

Síminn veðjaði á réttan hest, Enska boltann, og notaði Skjá einn sem lepp, því Síminn var ekki orðinn að einkafyrirtæki þegar rétturinn á Enska boltanum lá á lausu. Vinsældir Enska boltans eru það miklar að það er vart hægt að finna betri áhrifavald gagnvart vissum hópum þjóðfélagsins. Fótboltabullur láta heyra í sér og vekja athygli á sínum málum, þær borga einnig vel fyrir aðgang að sínum ómissandi leikjum.

Nú eru landsmenn orðnir nokkuð vel að sér í málefnum stafræns sjónvarps og geta rætt um það á nokkuð réttum nótum. Þessa umræðu eigum við Enska boltanum að þakka. Enski boltinn er gullnáman sem tryggir Símanum miklar áskriftartekjur og síðast en ekki síst þá flæða inn þjónustugjöldin af ADSL tengingum. Síminn er þó ekki alslæmur því hann rukkar ekki þjónustugjöld af Breiðbands dreifikerfinu, þar er bara rukkað áskriftargjald.

Það hefur alla tíð verið ljóst að útfrá neytenda- og samkeppnissjónarmiðum gengur ekki upp að efnisveitur og dreifikerfi pari sig saman. Það þýðir að neytandinn verður að fjárfesta í móttökubúnaði fyrir hin ýmsu dreifikerfi til að geta nýtt sér alla þá þjónustu sem er í boði. Ljóst er að kostnaður við lagningu og uppsetningu fjölda dreifikerfa lendir á neytandaum, beint eða óbeint. Staðan verður svo verri þegar móttaka af einu dreifikerfi útilokar móttöku á öðru dreifikerfi. Þá eru dreifikerfi farin að takmarka frelsi neytandans til kaupa á öllum þeim þjónustum sem hann hefur hug á. Nú er það svo að aðeins einungis er hægt að móttaka merki frá einu dreifikerfi í gegnum stafrænar símalínur (ADSL). Það er því ljóst að þegar Enski boltinn er takmarkaður við eitt ADSL dreifikerfi að þá getur neytandinn í framtíðinni ekki tengst stafrænu sjónvarpi á ADSL dreifikerfi OgVodafone, ef þeirra efni verður einnig eingöngu sent út á þeirra dreifikerfi.

Samkeppnis(stofnun/ráð) kemst að réttri niðurstöðu og heimilar ekki að efnisveitur einskorði sig við eitt dreifikerfi, óski önnur dreifikerfi að senda út þeirra efni. Að sjálfsögðu verða önnur dreifikerfi að uppfylla gæðakröfur, þannig að efni efnisveitanna skili sér til neytandans í góðum gæðum og að það sé tryggt að aðeins áskrifendur (kaupendur) fái aðgang að efninu.

Ég get því ekki skilið þetta á annan hátt en að samkeppnis(stofnun/ráð) setji dæmið þannig upp að neytandi á rétt á því að þurfa bara að tengjast einu dreifikerfi og geta fengið aðgang að efni allra efnisveitna á landinu. Aðgangur neytenda að efni ræðst því að hve miklum gæðum dreifikerfið er sem þeir skipta við. Hvert dreifikerfi hefur sína eigin tegund að móttökubúnaði (afruglurum). Þjónustan sem dreifikerfið getur veitt neytandanum ræðst að miklu að hve miklum gæðum móttökubúnaðurinn er. Efnisveitur geta gert ákveðnar gæðakröfur sem móttökubúnaðurinn verður að standast.

Síðan er það úrslita atriði um hvort viðskiptalegir samningar náist. Það er þó allra aðila hagur að samningar náist. Gagnvart efnisveitunni er mikilvægt að tryggja sem mesta útbreiðslu efnisins til að fá fleiri áskrifendur. Gagnvart dreifikerfinu er mikilvægt að geta boðið sínum viðskiptavinum upp á sem fjölbreyttasta þjónustu og fá tekjur fyrir flutning á efni um dreifikerfið.

Magnús Ragnarsson sjónvarpsstjóri Íslenska sjónvarpsfélagsins virðist ekki skilja að brýnt er að aðgreina dreifikerfi og efnisveitur. Sjónvarpsfélög, efnisveitur, selja eingöngu áskriftir að sínu efni. Efnisveitur verða að tryggja sér aðgang að dreifikerfum til að efnið nái til áskrifenda. Til að svo megi vera verður efnisveitan að greiða þjónustugjöld til dreifikerfa. Efnisveitur eru þó ekki heildsölur því áskriftargjöldin ganga beint til efnisveita. Efnisveitan og neytandinn borga svo ákveðin þjónustugjöld til dreifikerfisins. Magnús ætti því að kætast að þurfa ekki að einskorða sig við eitt dreifikerfi. Tekjur Íslenska sjónvarpsfélagsins ættu að aukast með frekari dreifingu. Dreifikerfi verða að tryggja sér gott efni til að halda á sínum viðskiptavinum og því er Enski boltinn mikilvægur. Fyrir svo mikilvægt efni gæti jafnvel verið að dreifikerfin bjóðist til að dreifa efninu frítt, Magnúsi að kostnaðarlausu, einungis til að laða að viðskiptavini að sínu dreifikerfi.

Magnús hefur tryggt sér sýningarrétt á Íslandi á Enska boltanum. Hann hlýtur að vilja semja við sem flesta um að kaupa aðgang að þessu efni. Magnús ætti því að taka strax upp viðræður við 365 til að auka sína dreifingu. Eina krafa Magnúsar yrði að efnið væri sent út í góðum gæðum, án hættu á ólöglegri móttöku og að hann fengi greidd áskriftargjöld.

Nú er Magnús hins vegar fúll því Síminn og Íslenska sjónvarpsfélagið er eitt og sama fyrirtækið og því vildu þeir einir sitja að gullgæsinni, Enska boltanum. Hann er fúll og sér ekki stöðuna alveg í réttu ljósi því hann er að hugsa um hagsmuni efnisveitu og dreifikerfis. Eins og ég hef svo oft sagt áður að þá gengur ekki upp að efnisveita (fjölmiðill) og dreifikerfi (fjarskiptafyrirtæki) sé rekið af sama fyrirtækinu. Þeirra hagsmunir fara ekki saman. Hagsmunir efnisveitu er að vera á mörgum dreifikerfum og hagsmunir dreifikerfa er að bjóða upp á efni frá sem flestum efnisveitum.

Það að ganga útfrá því að neytandi á rétt á að þurfa einungis að skipta við eitt dreifikerfi er góð hugsjón. Það er ekki veruleiki sem við búum við nú, en þegar ljósleiðarakerfi OR verður orðið virkt þá mundi ég vilja geta notað eingöngu það dreifikerfi. Ljósleiðarkerfi OR er einmitt dæmi um dreifikerfi sem er opið í alla enda og vill ekkert frekar en að bjóða sínum viðskiptavinum upp á sem fjölbreyttasta þjónustu og veita efni frá sem flestum aðilum.

Því miður náðu Síminn, OgVodafone og OR ekki saman. Hið eina rétta fyrir Ísland hefði verið að grunnnet Símans og önnur dreifikerfi hefðu sameinast í eitt. Þá þyrfti bara að byggja upp eitt dreifikerfi sem allar efnisveitur og þjónustuaðilar myndu skipta við. Slíkt dreifikerfi, sem byði upp á ýmsar flutningsleiðir, yrði ávallt í þróun því mikil pressa yrði á því að veita góða þjónustu og nýtti sér nýjustu tækni. Sú pressa kæmi frá neytendum, efnisveitum og þjónustuaðilum (internet, sími…). En nú verðum við neytendurnir að borga fyrir uppbyggingu á hinum ýmsu dreifikerfum.

Úrskurður samkeppnis(stofnunar/ráðs) leyfir efnisveitum að krefjast notkun ákveðinna afruglara til ársins 2007. Það er í raun mjög skiljanleg krafa af fyrirtækjum að vilja hafa eigin afruglara. En þá eru fyrirtækin ekki hreinar efnisveitur. Þá eru þeir farnir að skipta sér að flutningnum sjálfum. Ég er þó þeirrar skoðunar að efnisveitur mættu vera örlítið meira en sala og framleiðsla á efni. Það er eðlileg krafa efnisveitna að vilja stjórna sínu efni og tryggja það sem bestum hætti. Þetta er mikilvægt þegar kemur að samningum um sýningarrétt. Fyrir rekstaraðila dreifikerfa þá á ekki að vera mikið mál að heimila tengingu á hinum ýmsu afruglurum við þeirra kerfi. Þá er endabúnaður við sjónvarpið ekki frá dreifikerfinu heldur frá efnisveitunni. Endabúnaður dreifikerfisins væri þá beinir (router) sem hægt væri að tengja við hina ýmsu afruglara frá efnisveitum. Efnisveitur verða þá að ganga að ákveðnum skilyrðum um gerð afruglara. Efnisveitur verða að passa upp á að vera ekki með of sérhæfða afruglara. Þó verður að leyfa ákveðnar tækniframfarir og þá verða dreifikerfi að halda í við tæknina til þess að þóknast efnisveitunum, enda eru það hagsmunir dreifikerfa að halda í efnisveiturnar.

Það ætti ekki að vera mikið því til fyrirstöðu að hægt væri að senda út Enska boltann á örbylgjukerfi 365, Digital Íslandi. Það sem gæti hamlað því væri skortur á útsendingatíðni á kerfinu, s.s. plássleysi. En það væri eflaust auðvelt að leysa úr því fyrir svo mikilvægt efni. 365 fengu þá sent merki með Enska boltanum frá Íslenska sjónvarpsfélaginu og dældi því inn á Digital Ísland. Þá myndu viðskiptavinir Digital Íslands geta keypt áskrift að Enska boltanum sem sér pakka eða sem hluta af pakka hjá Digital Ísland. Áskriftargjöldin fyrir Enska boltann færu svo til Íslenska sjónvarpsfélagsins, kannski mínus nokkrar krónur fyrir dreifinguna. En þetta eru mjög svo sameiginlegir hagsmunir að menn ættu að geta samið um litlar þjónustuþóknanir. Eini gallinn er að Digital Ísland er ekki gagnvirkt og gæti því ekki sinnt gagnvirkum þjónustum sem Íslenska sjónvarpsfélagið hyggur á í tengslum við Enska boltann.

Hins vegar er eflaust ekki hægt að tengja afruglara Símans við örbylgjukerfi Digital Íslands. Ég held að það sé miklum vandkvæðum bundið að láta örbylgjukerfið sinna bæði Digital Íslands afruglaranum og afruglara Símans.

Skv. þessum úrskurði er því ekki von á því að Enski boltinn muni sjást í gengum Digital Ísland, í það minnsta ekki fyrir árið 2007. Síminn mun örugglega krefjast þess að nota sinn afruglara á meðan hann getur það.

Á sama hátt ætti að vera ekkert mál fyrir 365 að senda Símanum merki sinna stöðva og láta Símann dreifa þeim í gegnum sinn afruglara. Þá myndi Síminn innheimta áskritargjöldin og koma þeim áfram. Í þessu tilfelli erum við að tala um 365 sem hreina efnisveitu og Símann sem dreifikerfi sem hefur eigin afruglara fyrir sjónvarp. Hins vegar væri eflaust hægt að koma því þannig fyrir að Síminn myndi senda út merki fyrir afruglarakerfi 365. Þá væri hægt að tengja afruglara frá 365 og afruglara frá Símanum við dreifikerfi Símans. Þá væri 365 ekki hrein efnisveita heldur einnig beinn söluaðili áskrifta og annarra þjónustuþætta. Síminn er þá hreint dreifikerfi og endar sín afskipti í beini (router).

Rétt er að benda á það að 365 rekur bæði efnisveitu og dreifikerfi. 365 ljósvakamiðlar veita efni um dreifikerfið Digital Ísland. Eftir byrjað var að senda út stafrænt sjónvarp er ekki lengur eðlilegt að efnisveita og dreifikerfi sé rekið af sama fyrirtækinu, líkt og var regla hér áður en þá ráku Norðurljós og RÚV sín dreifikerfi.

Ég hef eina spurningu fyrir samkeppnis(stofnun/ráð). Ætlar það að neyða OR til þess að vera með eigin afruglara fyrir sjónvarp og í gegnum hann verður allt efni að vera sent sem OR nær samningum um? Ég held að OR hefði frekar hugsað sér að getað hætt sínum afskiptum í beini (router), jafnvel fyrr, og leyft sem flestum efnisveitum að tengja sína afruglara við sitt dreifikerfi.

Jæja, þetta er orðið allt of langt og heldur óskipulagt. Ég kannski reyni að setja saman skiljanlegri úrdrætti úr þessu.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *