Að gerast þræll banka í 40 ár

Ég skil ekki þennan asa út af íbúðalánum bankanna. Það er vissulega merkilegt að einkaframtakið virðist geta tekið við hlutverki íbúðalánasjóðs í náinni framtíð.

En ef menn skoða skilyrði þessara lána er alls ekki um þjónustu að ræða sem getur tekið við af íbúðalánasjóð. (augljósast er náttúrulega sérákvæðin fyrir landsbyggðina)

Bankarnir munu ekki græða á þessum lánum. Þetta er einungis hluti af samkeppninni. Þetta er blóðugt stríð um viðskiptavinina. Um leið og bankinn hefur landað 40 ára lántöku einstaklings þá hefur bankinn „eignast“ einstaklinginn til 40 ára.

Taki fólk íbúðalán til 25 eða 40 ára er fólk orðið þræll síns banka. Það er búnið að skuldbinda sig til að vera með 3 til 5 atriði af eftirfarandi: Greiðsluþjónustu, launareikning, kreditkort, lífeyrissparnað, líftryggingu….
Þetta er því lítil áhætta fyrir bankann því þeir taka strax af launum fyrir greiðslu þessara lána. Bankarnir verða áskrifendur að launum þessa fólks. Hvað er það annað en risastórir hlekkir utan um frelsi fólks. Fólkið verður þræll bankans.

Þetta er langur tími og margt getur gerst. Á einhverjum tímapunkti getur verið nauðsynlegt eða hagstætt að skipta um banka. Það er hægara sagt en gert, því maður er í þrældómi. Ef skipt er um banka verður að borga upp lánið eða sætta sig við vaxtahækkun, upp í 5,3% (skv. KB-banka)

Það eru fjölmörg atriði sem verður að setja spurningamerki við.

  • Krafa um 1. veðrétt, sem þýðir að ekki er hægt að endurfjármagna bara óhagstæðustu lánin.
  • Ekki er hægt að borga inn á þau.
  • Dýrt að greiða þau upp.
  • Kannski (mjög líklega) ekki vaxtabóta hæft.
  • Við yfirtöku verður kaupandi að vera í viðskiptum í sama banka og uppfylla öll skilyrði eða taka á sig vaxtahækkun.
  • Einungis boðið upp á 25 eða 40 ára lán. (íbúðalánasjóður: 20,30,40 ár)
  • Ekki hægt að breyta lánstíma. (íbúðalánasjóður heimilar það)

Þessi lán eiga bara að vera neyðarúrræði hjá fólki. Þetta er ágætur kostur ef vöntun er á hærra láni en íbúðalánasjóður veitir og ef fólk þarf lífsnausynlega að minnka greiðslubyrði. Eftir stendur samt að maður gerist þræll bankans.

Ég held að frelsis- og einkavæðingarsinnar ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir fagna þessu. Það er mikil mótsögn að tala um ósveigjanleika íbúðalánasjóðs og fagna svo þessum íbúðalánum bankanna.

Heimildir:
Blaðaauglýsingar
Spurt og svarað um íbúðalán KB-banka
Reglugerð ÍLS

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *