Að þessu sinni kýs ég ekki kónginn og Sjálfstæðisflokkinn!

Eftir því sem maður horfir á fleiri umræðuþætti þá verður maður gjörsamlega ruglaður. Allir hafa eitthvað gott í sínu pokahorni og einhvað slæmt. Svo er miklu erfiðara að horfa á þessa þætti þegar maður er ekki búinn að gera upp sinn hug. Þetta var allt miklu skemmtilegra fyrir fjórum árum því þá var maður nánast búinn að ákveða að vera sammála Sjálfstæðisflokknum fyrirfram og því var allt rugl sem hinir sögðu. En nú er ég ekki lengur þannig að ég láti einhvern flokk ráða mínum skoðunum, eins og svo algengt er meðal Íslendinga. (en það var nú samt svo að stefna Sjálfstæðisflokksins hentaði mínum hugsjónum best á þeim tíma þannig að þetta var svosem í lagi)

En nú er Sjálfstæðisflokkurinn farinn að ganga of langt. Hann er vissulega búinn að gera mjög góða hluti og hefði ég ekki viljað hafa aðra stjórn síðustu árin. En menn verða líka að hafa vit á því hvenær takmarkinu er náð. Nú stefnir okkar þjóðfélag allt of hratt í átt að Bandaríkskri mynd, sem má aldrei verða.

Einnig situr mjög í mér hvernig Sjálfstæðisflokkurinn hefur hnjöstnast á lýðræðinu með ótrúlegum uppákomum tengdum þeirra prófkjörum. Þar sem kjörstaðir voru á ferðalagi út um kvippinn og kvappinn og er framkoman gagnvart Kristjáni Pálssyni ógleymanleg. Flokkurinn viðurkenndi mistök en ekkert var gert til að leiðrétta þau.

Svo eru líka lúaleg brögðin sem Sjálfstæðisflokkurinn beitir í einkavæðingu með því að hlutafélagavæða allskonar stofnanir eða fyrirbrigði. En við það er auðvitað hægt að selja hlutina og hlutafélagið því ekki lengur í eigu þjóðarinnar.

Svo hefur vantað leikreglur í hinu frjálsa efnahagskerfi, sem Sjálfstæðisflokkurinn fær mikið hrós fyrir. Davíð Oddsson hefur sjálfur fengið að finna fyrir þessu regluleysi þar sem hann hefur reynt að berjast gegn stórum óeðlilegum einingum og jafnvel fengið boð um múturgreiðslur. Það er ekki traustvekjandi þegar menn sem skapa nýtt þjóðfélag eru sjálfir búnir að missa tökin á því.

Svo má ekki gleyma blessaðri Kárahnjúkavirkjuninni. Henni var þröngvað í gegn þó svo að hinn frjálsi markaður myndi aldrei sjá hagkvæmnina í þessari virkjun. Allar leikreglur varðandi umhverfsimat voru þverbrotnar, enda eru leikreglurnar ekki góðar ef ráðherra getur með einu pennastriki leyft virkjunina þrátt fyrir ótal atriði sem hrekja þessa framkvæmd. Kærur hafa ekkert haft að segja í þessu máli, allt saman hunsað. Þetta er stærst framkvæmd Íslandssögunnar og þjóðin var ekki spurð álits. Hvernig er hægt að réttlæta það? Sérstaklega þegar virkjunin er byggð á sprungusvæði, veldur jarðvegsfoki yfir Fljótsdalshérað og er ekki traustari framkvæmd en það að ef bygging virkjunarinnar fer aðeins 5-10% fram úr áætlun og álverð lækkar þá er gífurlegt tap af framkvæmdinni. (ef þá hún er yfir höfuð hagkvæm, það ríkir óskiljanleg leynd yfir staðreyndum um kaupverð á rafmagninu)

Ekki má heldur gleyma hinu blessaða kvótakerfi. Sjálfstæðisflokkurinn rígheldur í það. Það er mislukkað og er búið að drepa niður byggðirnar. Handhafendur kvótans geta rift honum burt úr einni byggð til annarrar eftir sinni hentisemi. Atvinnuöryggi er ekkert. Við hendum alveg gífurlega miklu magni af fiski í sjóinn. Menn eru að fara útúr sjávarútveginum og taka með gígantískar fúlgur úr greininni. Þetta er rugl.

Skattaloforðin gripu mig vissulega. Þetta hljómar ótrúlega vel. En samt er sú höfuðáhersla að þeir sem eiga peninga þurfa að borga sem minnsta skatta. Á meðan er fólk sem á ekki ofan í sig eða á að borga til samfélagsins alltof stóran hluta af sínum tekjum. Stórtekju fólk getur nýtt sér ýmsar glufur til þess að komast hjá mikilli skattlækkunum. (Söluhagnaður er með 10% skattlagningu, og jafnvel enga ef menn halda rétt á spilunum) Þeir sem hafa hærri tekjur eiga að skila því til baka til þjóðfélagsins sem það gaf þeim. Því skila þeir til baka með skattgreiðslum. Ríkissjóður borgaði fyrir þetta fólk námið og gaf því svigrúm til þess að mennta sig og svigrúm til þess að fá góðar tekjur. Þeir sem minna hafa eiga ekki að þurfa að borga mikið í skatta. Þeir skila sínu með því að vera til. (kaupa til dæmis af hinum sem ríkari eru ýmsa þjónustu)

Í lokin má geta þess að Davíð gaf það til kynna að næsta kjörtímabil yrði líklega sitt síðasta. Það mætti því segja mér það að hann sé nú helsta vopn í kosningabaráttunni en mun byrja að loknum kosningum að undirbúa sitt fráhvarf. Það kæmi ekki á óvart ef hann léti sig hverfa strax eftir kosningar ef það eina sem gengur upp er stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Til hvers að kjósa Sjálfstæðisflokkinn þegar kóngurinn er farinn og ekki búið að krýna nýjan.

Þetta var létt samantekt á því hversvegna ég mun ekki kjósa Sjálfstæðisflokkinn fyrir komandi kjörtímabil. Þessi samantekt er uppfull að ýmsum fullyrðingum sem erfitt er að sanna en þetta eru mínar tilfinningar. Ætli ég muni ekki láta fljóta á næstunni hversvegna erfitt sé að velja á milli hinna flokkanna.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *