Geitungadans

Í sakleysi mínu sat ég inn í bíl og var að undirbúa mig undir kennslu. Með hjálp ferðatölvunnar var ég að gera lausn að verkefni sem nemendur eiga að leysa. Það var heitt í veðri og hafði ég opna rúðuna á bílnum. Skyndilega flaug geitungur inn um rúðuna og settist á lyklaborðið. Ég náttúrulega brást við eins og sannur íslenskur víkingur og ofurhugi, ég varð dauðhræddur og lá við öskri. Ég kipptist við og reyndi að komast sem lengst frá ferðavélinni. Það var ekki auðvelt þar sem hún var jú í fanginu á mér og ég fastur milli hennar og bílsætisins. Eftir að geitungurinn hafði gert atlögu að ferðavélinni var ég næsta skotmark innrásarinnar. Ég þakkaði Guði fyrir að vera í góðum leðurjakka. Þegar geitungurinn settist á hálskragann, aðeins nokkrum sentimetrum frá hálsinum á mér var gripið til varnaratlögu.
Ákveðið var að beyta öruggustu varnaaðferðinni í bókinni. Yfirskriftin var: „Run for your life“. Með einstaklega snörpum hreyfingum tókst mér að loka ferðavélinni, henda henni frá mér og hlaupa út. Geitungurinn hrósaði sigri og flaug um hið nýja yfirráðasvæði. Ég opna hurðir á bílnum og vona að geitungurinn fari. Ekkert fararsnið var á honum í fyrstu. Svo byrjaði hann að nálgast dyrnar. Hann lét sem vildi fara út en fyndi ekki útgönguleiðina. Geitungurinn flaug meðfram hurðinni og fór í hvarf milli hurðar og stafs. Skyndilega skaust geitungurinn út og og mér var ljóst að ekki var þetta eingöngu innrás heldur átti að koma manneskjunni fyrir kattarnef. Ég stirna upp þegar ég sé geitunginn stefna beint á mig. Ég hleyp nokkra metra og lít aftur fyrir mig. Þá er hann á hælunum á mér og lendir á jakkanum. Ég sný við á punktinum og hleyp í hina áttina og svo tek ég annan hring. Æsist geitungur nú heldur og ræðst að andliti mínu. Ég halla mér aftur líkt og Matrix-hetja og hörfa. Geitungurinn rétt missir af andlitinu og sé ég hvar hann skýst yfir hausinn á mér. Ég sný mér við og reyni að koma auga á geitunginn. Svo virtist sem jörðin hafði gleypt hann. Hann var hvergi sjáanlegur. Ég anda léttar og hrósa sigri. Ég uppfærði „Run for your life“ í bókinni þar sem ég mæli með því að prófa hinn góða dans sem ég hef gefið nafnið „Geitungadansinn“. Geitungadansinn mun vera mjög skoplegur ásjónar fyrir annað fólk og skal hann ekki framkvæmdur þegar annað fólk er í nánd. Undantekning á reglunni er að
einn útlendingur má vera nálægur, enda litlar líkur á að dansinn fréttist til vina eða vandamanna. En geitungadansinn má eiga það að hann hrekur burt geitunga og gerir þá ringlaða.
Eftir að hafa skimað vel í kringum mig til að athuga hvort eitthvað að fólki lægi nær dauða en lífi á götunni vegna mikils hláturæðis sem geitungadansinn hefur á fólk settist ég inn í bíl og þakkaði Guði aftur fyrir það að einungis einn útlendingur hafi verið í grennd.
Nú gat ég rólegur og í næði skrifað skýrslu um þessa innrás. Nú með rúðurnar lokaðar.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *