Kraftaverkamaðurinn ég

Að mínu mati hef ég framkvæmt tvö kraftaverk síðustu daga.
Ég ætla að segja frá öðru þeirra nú og hinu á morgun.

Ég sigraði manneskju af ósanngjörnustu og brögðóttustu stétt landsins, lögfræðing

Fyrir um ári síðan hætti fyrirtækið sem ég vann hjá að greiða laun. Ég og félagi minn, sem átti inni miklu hærri summur en ég, fórum og töluðum við lögfræðing. Mál félaga míns var strax sett í vinnslu enda miklu stærra mál en mitt. Ákveðið var að bíða aðeins með mitt mál og var í raun aðeins tekið niður nafnið mitt og ég afhenti afrit af launaseðlum. Ekki átti að gera meira fyrir mig strax, bíða átti í viku og gá hvort þetta skilaði sér ekki inn. Það var einmitt það sem gerðist og ég tilkynnti að málið mitt væri fallið niður.

Nú ári síðar fæ ég sendan reikning upp á um 8þús. krónur fyrir klukkutíma vinnu aðstoðarmanns löfræðingsins. Ég var náttúrulega ekki ánægður og sendi bréf.
Það er skemmst frá því að segja að ég missti mig algjörlega og ég viðurkenni að ég gekk allt of langt í bréfinu og ætti í raun ekki að birta það en ég ætla samt að gera það. (tek þó út öll nöfn).

Hið ótrúlega gerðist. Lögfræðingurinn sættist á mín rök og felldi niður reikninginn. Ég sem átti von á því að lögfræðingurinn í öllu sínu valdi segði við mig: „Nei, farðu bara í mál við mig“ vitandi það að ég myndi aldrei gera það fyrir þessa litlu upphæð. Kannski er þetta allt mín ímyndun og lögfræðingar eru bara hið besta fólk, kannski of mikið bíómyndagláp.

Hér er bréfið

 […]

Ég var að fá í hendur reikning frá þér sem er dagsettur í nóvember á síðasta ári.

Þetta er mál, sem ég var búinn að gleyma, þar sem ég og félagi minn,[…] komum að leita ráða vegna vangreiddra launa. Við spjölluðum aðeins við [aðstoðarmanneskja]. Mitt mál var mun minna um sig en hans [félaga]. Mál [félaga] fór beint í vinnslu en ákv. var að setja mitt í bið.

Því var ekkert unnið fyrir mig fyrir utan við þetta stutta spjall. Það sem sannar það kannski best að ekkert var unnið fyrir mig er að ykkur tókst ekki að taka niður rétt nafn. Reikningurinn er stílaður á Guðlaugur K. Jóhannsson en ég er Jörundsson. (Þetta skírir líklega hversu seint reikningurinn berst).

Sjálfum finnst mér það mjög lágkúrulegt að rukka fyrir svona spjall. En þið gerið meira en það því þið rukkið fyrir meira en það sem gert var. Ég er rukkaður um klukkutíma þegar hálftími væri nærri lagi. Þið hljótið einnig að hafa skrifað niður vinnu á [félaga] fyrir þetta spjall
sem þýðir að þið hafið skrifað tvo klukkutíma á þetta spjall, sem er mjög svo fjarri því sem rétt er. Ég vildi bara vekja athygli á því að mér finnst þetta ósiðlegt og ég get ekki ímyndað mér að þið séuð hreykin af svona viðskiptum. Það eru svona mál sem koma vondu orði á lögmannsstéttina og aftrar fólki að leita réttar síns.

Ég geri mér grein fyrir því að ef ég neita að greiða reikninginn þá koma bara vextir á hann og á endanum sendirðu þetta í lögfræðing, ekki mikið mál fyrir þig. Þú veist að ég færi aldrei í hart með þetta því kostnaðurinn við málaferli er svo mikill. Þú hefðir jafnvel getað rukkað tvo tíma og komist upp með það. Ég verð því að greiða þennan reikning, en ég ætla samt að halda í þá trú sem ég hef á náungann að hann breyti rétt, hagi sér siðsamlega og geti séð af sér, leiðrétt mistök.
Ég vildi helst sjá þennan reikning niðurfelldan, því hann er rangur, eldgamall og stílaður á vitlaust nafn. En við værum öll örugglega sáttust með það að ég greiði fyrir hálftíma, því þá vitum við að enginn braut á neinum. Ávallt skal reyna breyta rétt, sýna sanngirni og vera bjartsýnn svo að við getum haft sem minnst á samviskunni.

kv.Guðlaugur Kr. Jörundsson


Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *