III. hluti : Helluferð

Ég held að það sé kominn tími til að ljúka við þessa tilganglausu sögu.

Pabbi og Logi náðu að rífa sig upp kl. 8 til að fara á Drangsnes að horfa á boltann. Ég ákvað að sofa á meðan, alveg búinn eftir svefnlitlar síðustu nætur á undan. Ég fór á fætur þegar þeir komu til baka. Ég missti af frábærum leikjum en var hins vegar útsofinn. Pabbi dottaði aðeins yfir leikjunum og hraut aðeins, ekki veit ég hvað fólkið á Drangsnesi hefur haldið. Þeir lögðu sig aðeins en ég fór með drengina í sund í Bjarnarfirði. Þar er nokkuð sérstakur náttúrulegur heitur pottur. Svo var unnið fram á kvöld. Nú var farið að sofa á skikkanlegum tíma. Ég held að ég hafi sofið í ellefu tíma. Þegar ég vaknaði var Vígþór byrjaður að elda læri sem átti að borða fyrir brottför. En nú hafði litli bróðir minn bitið það í sig að fara nú strax á hádegi. Hann vildi komast eitthvað niðrí bæ í 17. júní hátíðarhöld. Þar sem lærið yrði ekki tilbúið fyrr en kl. 2 þá varð ég því miður að sleppa því, mér þótti það leitt. Logi og Bjarki fóru seinna um daginn. Pabbi er enn á Hellu, væntanlegur á sunnudaginn. Heimferðin gekk vel. Gott veður og lítið um þoku. Einnig var Andri betri félagsskapur en tónlistin af fartölvunni minni sem ég hafði mér til skemmtunar á leiðinni norður. Um leið og við komum að borgarmörkunum fór að rigna. Það kom ekki á óvart þar sem það var 17. júní, alltaf rigning í Reykjavík á 17.júní. Djöfull er ég stoltur af bílnum mínum fyrir að hafa komist alla leið. En það er brúnt ryklag a bílnum, jafnt innan sem utan. Kannski að ég gefi mér tíma og þrífi hann nú um helgina.

Annars skilaði þessi vinnuferð ekki mjög mikilli vinnu. En það voru samt söguð og fræst borð og svo fúavarin. Einnig var bárujárni bætt á þakskegg. Ekki mikilar breytingar sem hægt er að sjá á húsinu en það voru miklar pælingar og allt gert 100%. Svo hjálpar ekki að þetta er 100 ára gamalt hús sem er allt skakkt (einu sinni var þakið tekið í gegn, þá var það sett rétt…).

Þetta var góð og skemmtileg ferð. Gott að komast út úr bænum og gleyma öllu. Það var mjög skrítið að vera algjörlega án internetsins og fá allar fréttir um leið og þær berast. Ég held að maður sé að verða of háður internetinu. Ég var lengi að lesa upp þessa þrjá daga sem ég var í burtu.

Þá er sögunni af síðustu helgi loks lokið. Þvílíkur léttir. Það verður gaman að lesa þetta aftur eftir nokkur ár. Það er nú einmitt tilgangur þessarar síðu, að geta lesið um það sem ég var einu sinni að hugsa eða gera. Ómetanlegar heimildir í framtíðinni. Ég er strax byrjaður að hafa gaman að því að lesa það sem ég skrifaði í september þegar ég opnaði þessa síðu.

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *