II. hluti : Helluferð

Ég var víst búinn að lofa framhaldi. Ég nenni þessu varla. (Viðvörun: Þetta er langdregin og á köflum leiðinleg lesning)

Ferðin norður gekk vel. Það var engin umferð og gatan greið. Ekki er hægt að nýta sér það á druslu því þegar maður er kominn í 120 þá fer að heyrast duglega í vélinni. Á góðum vegi var því hraðinn 100-110. Þetta hljómar mjög vel en það var ekki mikið um góða vegi og góð skilyrði á leiðinni. Hraðinn fór allt niðrí 50 upp verstu hálsana. En þetta var ágætis bílferð en ég var orðinn mjög þreyttur. Ég hafði vaknað kl. 6 um morguninn eftir lítinn svefn. Á miðri leið var ekki laust við að ég var kominn inn í draumalandið á fullri ferð. Heimurinn var orðinn að engu, aðeins nokkrir metrar fyrir framan bílinn. Allt var hvítt umhverfis mig. Ég kleip í mig og komst að því að mig var ekki að dreyma. Ég var einfaldlega staddur upp á miðri heiði í blindþoku. Rétt að maður sá í næstu vegstiku. Ég vorkenndi mikið jeppanum sem lenti á eftir mér upp heiðina á 60km hraða og gat ekki tekið fram úr mér vegna þokunnar. Lenti ég þrisvar sinnum í blindþoku á leiðinni á nokkrum hálsum. Ég komst á leiðarenda þegar klukkan var að slá tvö. Djöfull var ég orðinn þreyttur. Ég ætla að nota tækifærið og hrósa malarveginum frá botni Steingrímsfjarðar og að Hellu. Besti malarvegurinn á leiðinni. Ferðin gekk þannig fyrir sig að ég var 40mín í Borgarnes, klukkutíma í Brú, einn og hálfan tíma á Hólmavík og 20mín á Hellu => 3 og hálfur tími. Því miður missti ég einn hjólkopp á leiðinni. Ég var bara ánægður að ryðhrúgan komst á leiðarenda. Bíllinn var vel rykugur að innan, óþéttur andskoti.

Pabbi og Logi tóku á móti mér. Vígþór og Sjöfn, foreldrar Loga, voru farin að sofa. Einnig voru sofnaðir Andri (11), bróðir minn og Bjarki (12), sonur Loga. Farið var að sofa klukkan að ganga fjögur. Ég svaf í Suðurstofunni. Vaknað var kl.8 og farið á Drangsnes þar sem sett hafði verið upp loftnet sem náði sendingu Sýnar frá Blöndósi. Félagsheimilið var sem betur fer staðsett yst í bænum þar sem náðist að beina loftnetinu að Blöndósi. Horft var á tvo leiki og svo farið á Hellu að vinna við húsið. Unnið var til 10 um kvöldið, var þá borðaður kvöldmatur. Þorskur var soðinn og steiktur, hef ekki fengið betri steiktan fisk. Vígþór sá um matinn þar sem Sjöfn var farin í suður. Það voru því 6 karlar í húsi það sem eftir var helginnar. Um eittleytið var ákveðið að skreppa á Café Rís á Hólmavík. Staðurinn var mjög flottur og ágætis stemming. Nokkuð þybbin dama kippti mér upp úr sætinu og út á dansgólfið. Hún taldi mig vera einhvern Didda frá Bolungarvík. Ruglað þetta sveitafólk. Aftur var farið að sofa um fjögurleytið. Stefnt var á að vakna kl. 8 til að horfa á HM á Drangsnesi.

Það er komið nóg af þessu rugli í bili. Kannski að maður ljúki við söguna næstu daga 🙂

Haloscan comment:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *